Fara í efni

Umferð hleypt á veginn fyrir Hallsteinsnes

01.12.2023
Fréttir
Rauði spottinn er þar sem enn er malarvegur
Rauði spottinn er þar sem enn er malarvegur

Umferð var hleypt á nýja veginn um Teigsskóg í dag. Þar með þarf ekki lengur að keyra yfir Hjallaháls. Ekki var nein formleg athöfn þegar vegurinn var opnaður, heldur voru lokunarskiltin færð sitt hvors vegar við Hjallahálsinn, af nýja veginum og á veginn yfir hálsinn.

Búið að færa skiltin Þorskafjarðar megin.

Jafnvel meira afgerandi Djúpadalsmegin.

Djúpifjörður.

 

Verktaki við þessa vegagerð er Borgarverk. Svo vill til að í gær skrifuðu vegamálastjóri og framkvæmdastjóri Borgarverks undir verksamning um gerð jarðvegsfyllinga yfir Djúpafjörð og Gufufjörð. Innifalið í verkinu er smíði bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð og hafa ýmsir velt fyrir sér hver sé tilgangurinn með því. Það mun vera til að koma tækjum og efni yfir á Grónes, sem er á milli Djúpafjarðar og Gufufjarðar, en þangað er enginn vegur sem ber þannig flutning.

Hjallaháls, kannski er ekki svo mikil eftirsjá að honum... svo er hann ekkert að fara neitt.

Nú þegar þessi spotti er kominn í gagnið eru tæpir 10 km. af malarvegi eftir, milli Djúpadals og Gufudals. Leiðin fyrir Hallsteinsnes er einungis liðlega 3 km. lengri en yfir Hjallahálsinn, 14,5 km., en 11,5 km. yfir hálsinn. Ólíku er saman að jafna að aka þessa vegi.

 Hinn eiginlegi Teigsskógur.