Fara í efni

UDN hlaut Fyrirmyndarbikar UMFÍ á unglingalandsmóti

08.08.2024
Fréttir
Fulltrúar UDN fagna, mynd af vef UMFÍ
Fulltrúar UDN fagna, mynd af vef UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi fór með eindæmum vel fram um verslunarmannahelgina og var það haldið í samstarfi við Ungmennasamband Borgfirðinga (UMSB) og sveitarfélagið Borgarbyggð. Um eitt þúsund þátttakendur á aldrinum 11 – 18 ára voru skráð til leiks í 18 íþróttagreinum og gátu auk þess tekið þátt í fjölda annarra viðburða með fjölskyldum sínum. Þar á meðal var fjöldi íþróttagreina eins og fótbolti, grasblak, frjálsar íþróttir, kökuskreytingar, borðtennis, blak og fleiri greinar. Tónleikar voru á tjaldsvæðinu á hverju kvöldi. Á lokakvöldinu komu fram GDRN, Júlí Heiðar og Orri Sveinn, sem héldu uppi trylltu stuði.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar tilkynnt var við slit Unglingalandsmóts UMFÍ að þátttakendur frá Ungmennasambandi Dalamanna og Norður - Breiðfirðinga (UDN) hafi hlotið Fyrirmyndarbikar UMFÍ. Bikarinn var afhentur í lok hvers Unglingalandsmóts UMFÍ til héraðs-sambands eða íþróttabandalags sem hefur sýnt fyrirmyndarframkomu innan sem utan keppni á mótinu.   

Af vef UMFÍ