Svör Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða við fyrirspurnum frá Reykhólahreppi

Svör við fyrirspurn sveitarstjóra sem barst 27. mars 2025 og
varðar kvartanir undan stofnunum í rekstri Reykhólahrepps
1. Heilbrigðiseftirlitið heimsótti mötuneyti Reykhólaskóla í vikunni. Hver var
niðurstaða eftirlitsins varðandi hreinlæti, umgengni og meðferð matvæla í
skólanum?
Heilbrigðiseftirlit hefur í tvígang mætt í óboðað eftirlit á þessu ári (26. febrúar og
25. mars). Í bæði skiptin hefur þrif á mötuneyti og meðferð matvæla verið í lagi. Einu
athugasemdir sem gerðar hafa verið snýr að kæli og frysti í kjallara skólans. Þær
athugasemdir snúa að kælikerfi, viðhaldsbókhaldi og hávaða. Hitastig í kæli og frysti hafa
verið innan allra marka og því ekki rof á kælikeðju matvæla þar.
2. Eftirlitið hefur ítrekað heimsótt Grettislaug vegna tilkynninga. Hvaða niðurstöðum
hefur það komist að við skoðun á lauginni?
Ekkert eftirlit hefur farið fram 2025 en við óboðuð eftirlit 2024 voru þrif í lagi, allir
starfsmenn höfðu lokið námskeiðum sem laugaverðir þurfa að sækja. Vel var haldið utan
um klórmælingar og klórbókhald. Myndavélakerfi á staðnum sem er með góða yfirsýn
yfir laug og potta. Gerð var athugasemd um að fara þyrfti yfir öryggismerkingar
sundlaugarinnar.
3. Hefur sveitarfélagið verið látið vita af heimsóknum eftirlitsins fyrirfram, þannig að
það hafi haft tækifæri til að bregðast við með hreinsun áður en eftirlitið fór fram?
Öll eftirlit heilbrigðiseftirlitsins sem hér er spurt um hafa verið óboðuð.
4. Í ljósi umræðu um matvælaöryggi vegna slyss í leikskóla í Reykjavík, telur eftirlitið
að foreldrar barna í Reykhólaskóla þurfi að hafa áhyggjur af meðferð matvæla í
skólanum?
Eins og komið hefur fram opinberlega í því máli þá var sú matarsýking tilkomin vegna
vanþekkingar og vaneldunar á blönduðu hakki sem innihélt STEC bakteríu. Til að komast
hjá og tryggja öryggi matvæla þarf að elda vöruna rétt og því mikilvægt að hafa þekkingu
á þeim matvælum sem unnið er með. Ekki er gerð krafa í lögum um menntun starfsfólks í
mötuneyti en það hefur sýnt sig að mikilvægt er að starfsfólk hafi sótt sér faglega
menntun. Í tilfelli mötuneytis Reykhólaskóla er yfirmaðurinn menntaður kokkur og hefur
því faglega menntun og reynslu af því að vinna með matvæli. Það er því að okkar mati
ekki ástæða til að óttast um heilnæmi matar, meðferð hans eða eldunaraðferðir.
5. Eru tilkynningarnar að koma frá mörgum ólíkum aðilum?
Nei.
Svörin eru undirrituð af Hlyn Reynissyni og Jóni Pétri Einarssyni heilbrigðisfulltrúum.
Hér má sjá svarbréfið í heild.