Fara í efni

Sveitarstjórinn í yfirheyrslu

26.04.2023
Fréttir
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir

Í Skessuhorni er dálkur þar sem fólk er yfirheyrt, lesendum til skemmtunar og fróðleiks. Fyrir skömmu var Ingibjörg Birna Erlingsdóttir færð þar til yfirheyrslu.

Nafn: Ingibjörg Birna Erlingsdóttir.

Hvar ertu fædd og hvenær? Á Patreksfirði 5. desember 1970.

Hvernig myndir þú lýsa þér í þremur orðum? Ég myndi vilja segja róleg, yfirveguð. En það er svo mikið að gera hjá mér yfirleitt að það er varla rétt lýsing.

Áttu gæludýr? Nei því miður, ég hef átt hund og vildi gjarnan eignast aftur hund.

Hvers saknarðu mest frá því í gamla daga? Að vera með vinahópnum úti að þvælast. Það var alltaf svo gaman.

Hvað færðu þér ofan á pizzuna þína? Oftast pepperoni, en mér þykja matarmiklar pizzur mjög góðar. Bestu pizzurnar sem ég hef smakkað voru á Ítalíu, þar sem þær voru eldbakaðar með einungis tómötum, basiliku og mozzarella. Svo eru humarpizzur æðislegar.

Hvað er uppáhalds nammið þitt? Súkkulaði og lakkrís. Ég elska Síríus súkkulaði og Apollo lakkrís.

Hvaða tungumál værir þú til í að kunna? Mandarin, það væri gaman, það er svo ólíkt öllum tungumálum í hinum vestræna heimi.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir? Að eiga stundir með stórfjölskyldunni. Við erum mjög náin og það er alltaf glatt á hjalla.

Ertu hjátrúarfull? Já, mjög. Finnst ég alltaf vera að fá einhver óbein skilaboð, eða kannski er það innsæið.

Hvað myndi bíómynd um þig heita? Extreme Drama for an Ordinary Housewife.

Hver er uppáhalds mánuðurinn? Júlí, vegna sumarblíðunnar og desember vegna aðventunnar.

Hvað ertu mest hrædd við? Pöddur, karla sem bera ekki virðingu fyrir konum og framtíðina ef við mannfólkið förum ekki að breyta högum okkar.

Hver er uppáhalds skyndibitinn? Sushi og kínverskur matur.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi? Reykhólahreppur, þar er gott að búa og þar er svo mikil fegurð í umhverfinu.

Hver er minnisstæðasta gjöfin sem þú fékkst þegar þú varst lítil? Puttavettlingar og spil sem mamma gaf mér þegar hún átti ekki pening fyrir dýrari gjöf. Mér þótti svo vænt um það og það er eina gjöfin sem ég man eftir frá því í æsku.

Ef þú þyrftir að velja þér nýtt nafn hvað yrði þá fyrir valinu? Mér þykir vænt um nafnið Jóhanna, kannski af því að mamma mín á það nafn. Mér finnst mjög vænt um nafnið mitt, því ég heiti í höfuðið á systur mömmu sem dó mjög ung og afa mínum honum Birni.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Mjög líklega afgreiðslukona. Mér hefur alltaf þótt gaman og gott að þjóna fólki.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítíma þínum? Hlusta á bækur, fara út í náttúruna.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár? Vonandi verð ég við góða heilsu og alltaf að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni minni.