Fara í efni

Sumt ekki breyst mikið á rúmum 8 árum

28.01.2024
Fréttir

Það er skemmtilegt að rifja upp viðtal í Skessuhorni sem var tekið við Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur sveitarstjóra árið 2015.

Þar segir hún m.a. um Reykhólahrepp:

 „Þetta er dásamlegasti staður á jörðinni, hann gefur manni svo mikið til baka. Ég hef ekki fundið það annars staðar og það á bæði við um staðinn og fólkið. Maður kemur hér inn í stóra fjölskyldu, tengslin eru öðruvísi en annars staðar. Það er eins og maður komist einu skrefi nær fólki. Auðvitað fylgja því bæði kostir og gallar, en fyrir mér fylgja því fleiri kostir,“ segir Ingibjörg og bætir því við að í Reykhólahreppi búi duglegt og eljusamt fólk.

„Við erum tæplega 300 manna samfélag með allan þennan landbúnað og í raun frekar mikinn rekstur miðað við það. Í skólanum eru nær eingöngu menntaðir kennarar, á hjúkrunarheimilinu vinna menntaðir sjúkraliðar og forstöðumaður sem er menntaður hjúkrunarfræðingur, þá erum við með þroskaþjálfa og iðjuþjálfa í báðum stofnunum. Starfsmenn Þörungaverksmiðjunnar eru sérfræðingar á sínu sviði og ég gæti haldið áfram. Fólk er að mennta sig, bæta við sig þekkingu og gerir allt af miklum metnaði og áhuga. Þetta leiðir til þess að við stöndum uppi með rosalega góðar stofnanir.“ 

Þess ber að geta að síðan þetta viðtal var tekið hafa heilmiklar framkvæmdir verið í sveitarfélaginu; virkjun í Garpsdal, byggð brú og vegur yfir Þorskafjörð, vegur fyrir Hallsteinsnes, endurbygging bryggjunnar á Reykhólum og byggð 2 hús á Reykhólum með samtals 4 íbúðum. Þar hefur verið unnið að gatnagerð og búið er að steypa grunn undir fjögurra íbúða raðhús. 

Stöðvarhús Galtarvirkjunnar við Múlaá.

 

Brúin og vegurinn yfir Þorskafjörð á vígsludaginn, 25. okt. 2023.

 

Stækkun bryggjunnar á Reykhólum, tækin standa á kantinum á gömlu bryggjunni.

 

Hellisbraut 40, nýlega byggt hús.

 

Gatnagerðarframkvæmdir á Hellisbraut og grunnur undir raðhús.