Fara í efni

Strandagangan 9. mars 2024

08.02.2024
Fréttir
mynd af vef SfS
mynd af vef SfS

   30. Strandagangan fer fram laugardaginn 9. mars og sunnudaginn 10. mars verður svo skíðaskotfimimót, leikjadagur og skíðaferð um Selárdalinn.

Strandagangan verður haldin 9. mars 2024 í þrítugasta skiptið. Fyrsta gangan fór fram 1995 og hefur verið haldin á hverju ári síðan. Gangan er hluti af Íslandsmótaröð Skíðasambands Íslands og er fyrir alla aldurshópa, öll kyn, byrjendur sem og metnaðarfullt keppnisfólk. Í ár verða í boði 4 km, 10 km og 20 km vegalengdir. Skráning fer fram eins og undanfarin ár á netskraning.is. Nú er um að gera að skrá sig sem fyrst því við munum af og til veita úrdráttarverðlaun meðal skráðra keppenda og verða þau afhent með keppnisgögnum.

mynd af vef SfS

Skíðaskotfimimót 10. mars 2024

Skíðaskotfimi er íþrótt sem blandar saman skíðagöngu og skotfimi. Keppt verður 10. mars, daginn eftir Strandagönguna.

Mótið er samstarfsverkefni Skíðasambands Íslands og Skíðafélags Strandamanna til kynningar á íþróttinni.

Umframtekjur skotfimimótsins fara í að kaupa búnað.

Gengnir verða 3 x 2,5 km hringir og skotið tvisvar á skotmörk með skíðaskotfimirifflum, fyrst liggjandi og síðan í standandi stöðu. Á skotsvæðunum er skotið fimm skotum í senn en fyrir hvert feilskot þarf að fara einn refsihring. Refsihringur er stuttur hringur til hliðar við brautina.

Sá keppandi sigrar sem lýkur keppni með stystan heildartíma.

Aldursflokkar í karla- og kvennaflokki:

  • 11-15 ára laser rifflar
  • 16-35 ára .22 kalibera rifflar
  • 36 ára og eldri .22 kalibera rifflar

Skráningargjald er 5.000 kr fyrir 11-15 ára en 10.000 kr fyrir 16 ára og eldri.

Skráningu lýkur kl 23:59 fimmtudaginn 7. mars.

Nánari upplýsingar og skráning