Fara í efni

Stefnt að uppsetningu 24 farsímasenda fyrir árslok 2026

05.03.2024
Fréttir
Kort, af vef ruv
Kort, af vef ruv

Fjarskiptafyrirtækin og Neyðarlínan hyggjast reisa 24 farsímasenda á Vestfjörðum. Koma á símasambandi á alla stofnvegi fyrir árslok 2026 sem mun auka öryggi vegfarenda til muna.

Frá þessu var sagt í kvöldfréttum ruv.

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunar hjá Vestfjarðastofu segir gleðiefni að hreyfing sé komin á fjarskiptamálin fyrir vestan. „Það hefur verið sett fram sú stefna að fjarskiptasamband á stofnvegum verði komið í samt lag um allt land fyrir árslok 2026. Það þýðir að það þarf að byggja upp mikið af sendum á Vestfjörðum. Mér er sagt allt að 24 sendar þurfi að vera byggðir upp hérna til að ná að dekka firði og fjöll og hálsa.“

Skilyrði við endurnýjun tíðniheimilda

Þegar fjarskiptastofa endurnýjaði samning um tíðniheimildir í fyrra var fjarskiptafyrirtækum gert skylt að tryggja samband á stofnvegum. Á Vestfjörðum er markaðsbrestur vegna fólksfæðar svo þau mega samnýta sendana. Búið er að kortleggja mögulegar staðsetningar og næsta skref er að fá leyfi fyrir byggingu þeirra hjá landeigendum en það getur tekið tíma. Talsmaður Símans segir þó raunhæft að ljúka verkinu fyrir árslok 2026.

Bæta á farsímasamband á stofnvegum um allt land en það er aðeins fyrir vestan sem fjarskiptafyrirtækin, Neyðarlínan og Öryggisfjarskipti hf vinna saman að uppbyggingunni. Aðstæður fyrir vestan eru krefjandi vegna legu landsins. Sendarnir eru knúnir með rafmagni sem ekki er auðfáanlegt allstaðar þar sem reisa á senda.

Grænu punktarnir eru núverandi sendar, guli er endurvarp. mynd úr kortasjá map.is

Samkvæmt uppdrætti eru 5 sendar sem bætast við í Reykhólahreppi, sem er frábær viðbót við þá 7 sem fyrir eru, á Ingunnarstöðum, á Reykhólum, Hofsstaðahálsi, Stað, Ódrúgshálsi, Klettshálsi, í Flatey og 1 endurvarpi á Skálanesi.

Fljótt á litið virðast þessir nýju sendar ekki breyta miklu inni í fjörðunum, Þorskafirði, þar sem er leiðin að Þorskafjarðarheiði, einnig í Djúpafirði og Gufufirði, en samband er gloppótt á þessum stöðum.