Fara í efni

Stálþilið í Reykhólabryggju komið niður

16.02.2024
Fréttir

Að kvöldi síðasta þriðjudags náðist langþráður áfangi, þegar síðasti renningurinn var rekinn niður í stálþili bryggjunnar á Reykhólum.

Upphaflega var áætlað að endurbyggingu bryggjunnar yrði að fullu lokið síðasta sumar, en alls kyns vesen tafði verkið, þannig að því lýkur ekki fyrr en á næsta sumri. Jafnframt því að bryggjan var endurbyggð var dýpkað í höfninni og utan við bryggjuna þar sem viðlegukantur var lengdur. Ekki vildi betur til en svo þegar unnið var við dýpkunina, þá losnaði undirstaðan frá gamla stálþilinu og það hrundi niður að hluta og skarð myndaðist í bryggjuna. Þar með varð hún með öllu ónothæf og athafnapláss fyrir starfsmenn Borgarverks og Þörungaverksmiðjunnar varð enn minna en ráð var gert fyrir í byrjun framkvæmda.

Til að byrja með gekk ágætlega að reka niður nýja stálþilið, þrátt fyrir þrengsli og óaðgengilegt vinnusvæði. En svo hætti þilið að ganga niður og leitaði úr beinni stefnu þegar reynt var að reka niður. Þessu til viðbótar skekktu sjávarföll og illviðri þann hluta stálþilsins sem kominn var, þannig að útlitið var hreint ekki gott.

Til að gera langa sögu stutta, þá var meinsemdin sú að slitur af gamla stálþilinu lágu í botninum þar sem nýja þilið átti að vera og ómögulegt að reka í gegnum það. Niðurstaðan var að taka upp hluta af nýja stálþilinu og grafa upp stálið úr því gamla. Það var seinlegt og snúið því sæta þurfti sjávarföllum, vegna þess hvað þetta var á miklu dýpi.

Þegar búið var að ná gamla stálinu frá gekk nokkuð vel að koma nýja þilinu niður, samt lentu verktakarnir í slæmu veðri sem skekkti aftur þilið, en á kafla var ekki hægt að stífa það almennilega fyrr en það var allt komið niður á sinn stað.

Þegar stálþilið er komið þarf að fylla í það með möluðu grjóti, steypa kant og ganga frá bryggjupollum og steypa þekju. Bryggjan stækkar umtalsvert við þessar framkvæmdir, svo aðstaða verður miklu betri þegar þetta verður loksins búið.

Það er erfitt að skella skuldinni af þessum töfum á verkinu á einhvern einn aðila, það hafa margir samverkandi og óvæntir þættir orðið til þess að svona fór. Mögulega er hægt að læra eitthvað af þessu, einn góður og glöggur bóndi í Djúpinu sagði eftir röð af mistökum og ómælt vesen, „allt nám kostar“!