Fara í efni

Staða verkefna hjá sveitarfélaginu

27.09.2024
Fréttir
Raðhúsið sem Tekta ehf. reisir, mynd HG.
Raðhúsið sem Tekta ehf. reisir, mynd HG.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps lagði verkefnastjóri framkvæmda og uppbyggingar fram minnisblað til sveitarstjórnar um stöðu framkvæmda í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn bókaði að efni bréfsins yrði birt á heimasíðu sveitarfélagsins, íbúum til upplýsinga og hér eru birtir punktar úr því.

Tekta ehf í Borgarnesi er þessa dagana að reisa 220m2 raðhús með fjórum 55m2 íbúðum sem sveitarfélagið mun eignast. Áætlun er að klára að gera húsið fokhelt seinni hluta október mánaðar og þá verður húsið afhent sveitarfélaginu. Verið er að afla tilboða í frágang á milliveggjum, pípulagnir, raflagnir, málningu, innréttingar, hurðir, gólfefni ofl. Gert er ráð fyrir að húsin verði tilbúin fyrir lok árs.

Leigufélögin Brák og Bríet hafa staðfest að áætlanir þeirra um að reisa sitthvort húsið í haust standi þó tafir hafi orðið á verkefnunum. Púði undir sökkul er tilbúin fyrir Brákar húsið og von á mannskap að slá upp sökkli á næstunni. Vinnuflokkur á vegum Bríetar er einnig væntanlegur að reisa húsið á sökkulinn sem komin er.

Barmahlið, íbúðir - Hönnun á tveimur íbúðum í ónýttu rými á efri hæð Barmahlíðar var langt komin í vetur. Verkefnið var sett aðeina til hliðar í vor og talið skynsamlegra að fá menn í þá vinnu að vetrarlagi frekar en í sumar og önnur verkefni látin ganga fyrir. Næsta skref er að klára hönnun og fá menn í verkið í haust og vetur.

 

Reykhólahöfn - Skil Borgarverks á sínum hluta verksins töfðust töluvert, en Geirnaglinn á Ísafirði er með þekjuna og lagnir, þeim hefur þeim gengið vel og eru á lokametrum verksins. Þörungaverksmiðjan fékk að setja aukalagnir á sinn kostnað í skurðina, rafmagnskapal til að gera ráð fyrir rafvæðingu skips ásamt heitu og köldu vatni. Við færðum og bættum við nokkrum ljósastaurum á vegspottann milli verksmiðju og bryggju.

Verið er að semja við Sjótækni um að koma og freista þess að ná upp járnarusli sem fannst við kantinn á bryggjunni og tókst ekki að ná að fullu upp í vor, þeir eru væntanlegir fljótlega eftir því sem ég best veit.

Við létum kafara fara yfir lása og keðjur í flotbryggjunni í vor og skipt var um það sem þurfti. Í suðvestan hvellinum um daginn gaf hún eitthvað eftir þar sem tveir tiltölulega stórir bátar lágu við hana svo væntanlega borgar sig að skoða hvort botnfestingar hafa skemmst, og gera það fyrir veturinn. Búið að tala við Sjótækni um það. Skoða þarf hvað skal gera varðandi krana á höfninni þegar þessum framkvæmdum lýkur, kraninn sem stendur á höfninni er ónýtur og hefur verið innsiglaður af Vinnueftirlitinu.

Ýmis viðhaldsverkefni – Viðhaldsverkefnum var forgangsraðað á þann hátt að láta það ganga fyrir sem lá undir skemmdum eða var að valda skemmdum.

Regnbogalitir tóku góða yfirferð í viðhaldsvinnu á gluggum, þökum og þakskeggjum ofl á byggingum sveitafélagsins ásamt málun á skrifstofu, eldhúsi og sal í Barmahlíð. Að loknum rakamælingum og úttekt á skólastofum voru loft í skólastofum í nýrri hluta máluð. Á Barmahlíð voru sprungur í steyptum veggjum fylltar ásamt því að skemmdir sem voru að byrja á þaki voru lagaðar. Húsið verður svo málað að utan næsta sumar.

JG – Múr kom og gerði við svalir á Barmahlíð og Reykhólaskóla þar sem lekið hafði með svölum ásamt múrviðgerðum á útveggjum í Barmahlíð.

Eiríkur smiður skipti um þakjárn á Mjólkurbúshúsi og stóru hurðina á Slökkvistöðinni ásamt Hafliða á bátasafninu.

Líkamsræktarstöðin Grettir sterki var sett upp í kjallara Grettislaugar og var hann í raun gerður upp, veggur á milli herbergja sagaður niður, gólf slípað, skipt um hurðir, málað og ný líkamsræktartæki sett upp á vegum Ungmennafélagsins. Þetta var unnið í góðri samvinnu við Ungmennafélagið og umsjónarmann sundlaugar og lögðu þeir aðilar ásamt Jóni og Gumma fram heilmikla vinnu svo þetta yrði að veruleika. Góð og skemmtileg samvinna þar.

 

Jenshús fékk nýja glugga, vegna mikilla anna hjá Eiríki smið voru Gullnar hendur ehf. fengnir í gluggaskipti á Jenshúsi. Þeir höfðu tíma vegna tafa á komu raðhússins frá Tekta en þeir sjá einmitt að reisa það. Verkið gekk vel og var skilað 10.9.2024. Jenshús er því komið í mjög gott lag, en skipt var um járn á þakinu á því í fyrrahaust. Á einhverjum tímapunkti þarf laga baðherbergi og tröppur að húsinu en að því loknu er það hús mjög gott.

 

Reykhólaskóli – Slétt þak á andyri – Ákveðið var að stóla það upp og setja hallandi þak með bárujárni til að stöðva leka sem hefur verið viðvarandi niður í anddyri. Dalasmiðir hafa séð um það og er það að klárast.

Búðin – Verið er að gera húsnæði búðarinnar klárt í útleigu, Regnbogalitir máluðu salinn og Dalasmiðir eru að lagfæra eitt og annað sem þarf að áður en af opnun getur orðið.

Næstu verkefni

Reykhólaskóli – Loft í andyri – búningsklefar og endurnýjun á kæli og frystigeymslum er eitthvað sem liggur fyrir. Gera þarf endanlega samantekt á kostnaði við það sem hefur verið unnið og forgangsraða næstu verkefnum með tilliti til stöðu. Ábendingar liggja einnig fyrir frá starfsfólki vegna hljóðbærni í fundarherbergi ofl.

Það þarf að gera úttekt og kostnaðarmat á viðhaldi útveggjum skólans, þaki og gluggum. Meta hvað er best að gera og útbúa áætlun yfir tíma með það að markmiði að á ákveðnum árafjölda verði ástand hússins viðunandi og það haldi ekki áfram að skemmast.

Barmahlíð – Meta hvort tekist hafi að koma í veg fyrir frekari leka með viðgerðum sumarsins og mála og ganga frá skemmdum innandyra vegna fyrri leka

Leikskólalóð – klára að ganga frá henni og koma til móts við athugasemdir bæði í skýrslu og frá starfsfólki

Slökkvistöð – ýmsar endurbætur eru í gangi þar, laga vatn, setja upp hillur og skápa, gólf, gluggar, eldvarnarveggur, ofl. svo hún verði eins og við viljum hafa hana.

Ljósleiðari – Á dögunum var skrifað undir samning við fjarskiptasjóð um að klára ljósleiðaralagningu í 25 sveitarfélögum víðs vegar um landið og er Reykhólahreppur eitt af þessum sveitarfélögum. Sú undirbúningsvinna sem við unnum í vetur mun nýtast okkur en nú er að klára hana og stefna á lagningu í þorpið á Reykhólum í vor.

Annað

Kúalaug – undirbúa verkáætlun og útboð

Skipulagsmál – taka upp deiliskipulag í þéttbýlinu – aðalskipulagsbreytingu vegna legu Karlseyjarvegar ofl. Klára deiliskipulag Karlseyjar og iðnaðarsvæðis.

Vatnsveita – Þarfagreining og hönnun á stærri forðageymum fyrir vatnsveitu á Reykhólum.

Húsnæðismál – Skipuleggja næstu skref við uppbyggingu á húsnæði.

Framkvæmda- og fjárhagsáætlun næsta árs

Með bestu kveðju og þökk fyrir gott samstarf á þessu fyrsta ári,

Hrafnkell Guðnason verkefnastjóri framkvæmda og uppbyggingar í Reykhólahreppi

Myndir, Hrafnkell Guðnason