Fara í efni

Reykhólaskóli meðal skóla í LÆRVEST

25.04.2023
Fréttir

Undir yfirskriftinni Kennsla í fremstu röð, var ráðstefna í umsjón Ásgarðs ráðgjafarstofu, þar sem LÆRVEST kennararnir kynntu verkefni sín. Þeirra á meðal voru Kolfinna Ýr og Rebekka frá Reykhólaskóla.

LÆRVEST er faglegt lærdómsamfélag skólastjórnenda, kennara og nemenda um leiðbeinandi nám í sex grunnskólum á Vestfjörðum, Patreksskóla, Tálknafjarðarskóla, Reykhólaskóla, Grunnskólanum á Hólmavík, Bíldudalsskóla og Grunnskólanum í Bolungarvík, þar sem kennarar og nemendur vinna saman að því að tengja nám betur áhugasviði nemenda, auka eignarhald þeirra og færa námið nær leiðbeinandi kennsluháttum sem standast gæðaviðmið skólanna um nám og kennslu.

Verkefnið hlaut einn af stærstu styrkjum ársins við úthlutun Sprotasjóðs menntamálaráðuneytisins á dögunum.

Á þessari ráðstefnu kynntu LÆRVEST kennararnir verkefni sín og svöruðu spurningum um það hvernig þeir hafa hagnýtt gæðaviðmið við skipulag og framkvæmd náms og kennslu. Verkefnin einkennast af samþættingu, áherslu á lýðræði, sköpun, lykilhæfni og grunnþætti menntunnar.

Þetta er samstarfsverkefni sem kennarar á Vestfjörðum hafa unnið saman að undanfarin tvö ár og einkennist af því að gæðagreina eigin starfhætti út frá viðmiðum í anda hugmynda um einstaklingsmiðað nám, lýðræðislegt og nemendamiðað skólastarf og norrænu gæðaviðmiðunum „Frá draumi til veruleika”.

Fulltrúar Reykhólaskóla voru eins og áður segir Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir og Rebekka Eiríksdóttir.

Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir

Erindi Kolfinnu var um verkefni í íslensku sem hún nefnir „Úr eyðufyllingum í skapandi ritun“. Það er ritunarverkefni á yngsta- og miðstigi og kallast „Hvað gerðir þú um helgina“ ? Í stuttu máli byggist það á því að nemendur fá það verkefni á mánudögum að skrá niður hvað þau gerðu um helgina. Í lok tímans lesa krakkarnir textann fyrir bekkjarsystkini sín og standa fyrir svörum um efnið.

Ávinniningur nemenda af því að fá þetta verkefni svo snemma á skólagöngunni er m.a. að fá þjálfun í frásögn frá eigin brjósti, skriftin verður betri -þarna verður hún bara verkfæri til að koma einhverju skemmtilegu á framfæri-, þjálfun og framfarir í tjáningu, hlustun, að spyrja spurninga og svara spurningum.

Rebekka Eiríksdóttir

   Rebekka hefur fengist við samþættingu list- og verkgreina. Hún fjallaði um 3 verkefni, öll tengd húsum, „Draumahúsið mitt“ á yngsta stigi, „Piparkökuhúsakeppni“ á mið- og elsta stigi og „Afgangahúsið“ á miðstigi.

Í þessum verkefnum fá nemendur innsýn í hönnun, skipulagt vinnuferli, einstaklings- og paravinnu, endurnýtingu og meðferð efnis og svo fléttast verkefnið við aðrar námsgreinar, stærðfræði, tungumál, t.d. í sambandi við upplýsingaöflun, heimilisfræði, þegar kemur að piparkökuhúsunum, smíði og er þá ekki allt talið.

 Við úrlausn þessara verkefna er engin ein rétt aðferð og niðurstaðan oftar en ekki óvænt.

 

Kristrún Lind Birgisdóttir

Ráðstefnunni stýrði Kristrún Lind Birgisdóttir frá Ásgarði ráðgjafarsofu