Fara í efni

Reykhólaklasinn undirbúinn

21.02.2024
Fréttir
Hrafnkell Guðnason
Hrafnkell Guðnason

Boðað var til undirbúningsfundar að stofnun atvinnu- og uppbyggingarklasa í Reykhólahreppi. Því var fyrst og fremst beint til þeirra sem eru eru með atvinnurekstur og/eða þjónustustarfsemi, eða eru með slíkt í huga.

Hrafnkell Guðnason, verkefnastjóri framkvæmda og uppbyggingar á vegum Reykhólahrepps, var með framsögu og fór yfir hvað klasastarfsemi gengur út á. Í stuttu máli er það samstarf ólíkra aðila í tilteknum greinum eða á tilteknu svæði, þar sem haldið er utan um upplýsingar og þeim miðlað til félaga og eftir atvikum veittur stuðningur og leiðbeiningar um hvert á að snúa sér með ýmis erindi.

Líflegar umræður voru á fundinum og margt athyglisvert kom fram. Það er skilningur margra að klasastarfsemi eigi að styðja við nýsköpun í atvinnulífi, sem er út af fyrir sig rétt, en í einni ræðunni sem var haldin, var bent á að nýsköpun væri í sjálfu sér ekki alltaf æskileg. Hún sé meira að segja hættuleg. Undir merkjum nýsköpunar er oft heilmikilli vinnu og tíma eytt í hugmyndir og fyrirtæki sem ekki skila svo neinu. Það er gjarnan á kostnað starfsemi sem fyrir er, með því að taka til sín fjármuni og vinnuafl.

Eins og oft vill verða þá sveigðist umræðan dálítið að því hvað vantaði hér og hvað væri að. Talað var um að okkur hætti dálítið til að kenna næsta manni um það sem betur mætti fara, hlutirnir séu svona og hinsegin af því að þessi er ekki að standa sig. Sannleikurinn er nú sá að langflestir hafa yfirdrifið nóg að gera, nú standa 250 manns undir samfélagi með svipuð verkefni og 400 manns gerðu árið 1980. Sumt er hægt að flokka sem lúxusvandamál, eins og að það vantar fólk í hin og þessi störf, og horfur á að störfum muni fjölga bráðlega. Áformað er stækka saltverksmiðjuna, þá vantar fleira fólk þar. Í Þörungaverksmiðjunni er sama þróun og annars staðar á landinu; yfir 20% starfsfólks er af erlendu bergi brotið. Allt afbragðs starfsmenn. Yfirleitt koma einstaklingar,  sjaldnar pör, í vinnu eftir auglýsingar og sjaldan með þann ásetning að kaupa eða reisa sér hús.

Þegar talað er um að það vanti fleira fólk hingað berst talið strax að húsnæðismálum, en nokkuð lengi hefur vantað íbúðarhúsnæði hér. Sveitarstjóri upplýsti að á þessu ári og næsta ættu að komast í gagnið 14 íbúðir á Reykhólum, þar af 2 fyrir eldri borgara í Barmahlíð.

Mikið var rætt um ferðaþjónustu, ónýtta möguleika og hvað þyrfti að gera til að geta sinnt ferðafólki sómasamlega. Þar fer saman að flest sem vantar til að taka vel á móti ferðafólki, er jafnframt tækifæri til uppbyggingar og að skapa störf. Það hefur flest áður verið rætt sem sveitin hefur upp á að bjóða, náttúrufegurð, fuglalíf, saga, hófleg fjarlægð frá Reykjavík og næði.

Margt fleira var rætt, sem spannst af því sem nefnt hefur verið, svo sem gistiþjónusta, afþreying, heilsuhótel, sjávarböð, Þörungamiðstöð, hliðið að Vestfjörðum, markaðssetning, sögutengd upplýsingaskilti, minnisvarðar, endurgerð virkisins á Reykhólum, opnunartími þjónustustaða o.fl.

Vel var mætt á þennan fund, liðlega 20 manns. Til að halda áfram með þetta verkefni, að undirbúa stofnun Reykhólaklasans ásamt Hrafnkeli var skipuð nefnd, það eru Embla Dögg Bachmann, Hrefna Jónsdóttir og Jón Árni Sigurðsson.