Kynningarfundur um vinnslutillögu vegna breytinga á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022-2034

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hélt íbúafund síðastliðinn þriðjudag milli klukkan 17 og 19 í handverkshúsinu í Króksfjarðarnesi þar sem vinnslutillaga breytinga á aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022-2034 var kynnt fyrir skipulagsbreytingar í Króksfjarðarnesi og í Geiradal í landi Ingunnarstaða. Hlynur Torfi Torfason skipulagsfræðingur VSÓ ráðgjafar og skipulagsfulltrúi Reykhólahrepps kynnti vinnslutillögu aðalskipulagsbreytinganna fyrir fundargestum og fór yfir ferli skipulagsbreytinganna.
Helstu atriði skipulagsbreytinganna er að skipuleggja nýtt athafnasvæði fyrir atvinnurekstur í Geiradal og nýja íbúðarbyggð og þjónustusvæði í Króksfjarðarnesi fyrir hótelrekstur, verslunarsvæði og samgöngu- og þjónustumiðstöð auk tjaldsvæðis. Breytingin felur einnig í sér skipulag svæðis undir samfélagsþjónustu og aðstöðu heilsugæslu og viðbragsaðila og nýja staðsetningu smábáta og ferjusvæðis vestar á nesinu. Öðrum atriðum núgildandi skipulags á svæðinu er haldið að mestu óbreyttum og breyta í engu skipulagi þeirrar starfsemi sem nú er á Króksfjarðarnesi.
Alls mættu 20 manns á fundinn og urðu góðar umræður að lokinni kynningu þar sem handverksfélagið ASSA bauð upp á góðar veitingar fyrir fundargesti meðan á fundi stóð.
Íbúar Reykhólahrepps og nærsveita eru hvattir til að kynna sér vinnslutillöguna sem er aðgengileg á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og öllum frjálst að koma þar fram með athugasemdir en athugasemdafrestur rennur út 14. maí næstkomandi. Vinnslutillögu aðalskipulagsbreytinganna og athugasemdarvettvang er að finna á eftirfarandi vefslóð:
https://skipulagsgatt.is/issues/2024/1049