Kynning á vindorkugarði í Garpsdal fyrir verktaka
Fyrir skömmu var haldin kynning fyrir verktaka á fyrirhuguðum vindmyllugarði á Garpsdalsfjalli. Það voru fulltrúar EM orku, sem er í forsvari fyrir þetta verkefni, sem buðu verktökum úr nágrenninu til fundar í Króksfjarðarnesi.
Farið var yfir stærð og umfang virkjunarinnar, áætlað heildarafl er 94,5 MW úr 21 vindmillu sem eru á 92 m. háum turni, með 68 m. spaða. Mesta hæð er því um 160 m. Undirstöður fyrir hverja vindmyllu eru 660 m3 af steypu og stáli, sem er um 1.800 tonn.
Vegur að vindmillugarðinum, um Garpsdal, er liðlega 5 km. Tengivegir milli vindmillanna eru samtals um 8 km. Strenglögn að tengivirki í Geiradal er 9 km. Allar þessar upplýsingar og fleira má finna í matsskýrslu á umhverfisáhrifum, frá júní 2024.

Jarðvinnu og flutningaverktakar úr Dalasýslu, Stykkishólmi, af Barðastönd, Ströndum og úr Reykhólasveit komu og hlýddu á kynningu á verkefninu. Að lokinni kynningu voru fyrirspurnir og umræður.
Fulltrúar EM orku kynntu markmið um að nýta þjónustu úr nærumhverfi, t.d. flutninga, gistingu, veitingar, og verktakar í nágrenninu njóti forgangs við að bjóða í einstök verk hjá aðalverktökum verksins. Nokkrar umræður spunnust um hvað teldist nærumhverfi og kom fram að það hefur ekki verið skilgreint sérstaklega, en þetta fundarboð gæfi til kynna hvaða hugmyndir væru um það.
Fundargestir voru að lokum hvattir til að bera upp spurningar til EM orku síðar, ef einhverjar kæmu upp. Í kynningunni var meðal annars þetta:
„Við höldum öllum samskiptalínum opnum. Skortur á upplýsingum í byrjun veldur spennu og fólk fyllir í eyðurnar með röngum upplýsingum ef þeim er ekki svarað. Það er afar mikilvægt að allir nágrannar fái að segja sitt frá byrjun. Jákvæðar eða neikvæðar skoðanir fólks verða að vera virtar. Heimsóknir og opnir fundir eru mikilvæg skref til að byggja upp traust. Góð fyrstu kynni eru mikilvægur hluti af því að byggja upp traust“.
