Fara í efni

Keppendur Aftureldingar stóðu sig vel í bogfimi

11.03.2024
Fréttir
mynd, Bára Borg
mynd, Bára Borg

Ungmennafélagið Afturelding tók þátt í sínu fyrsta Íslandsmóti barna og ungmenna í bogfimi laugardaginn 9. mars.

Á þessu ári fagnar ungmennafélagið 100 ára afmæli og mun þetta vera fyrsta sinn sem Afturelding tekur þátt á Íslandsmóti, öðru en landsmótum UMFÍ.

Það er tæpt ár, eða 360 dagar síðan forystufólk frá Bogfimisambandi Íslands kom færandi hendi með búnað til bogfimiiðkunar og kenndi meðhöndlun hans. Þörungaverksmiðjan h/f styrkti Aftureldingu myndarlega við kaupin á bogunum og tilheyrandi búnaði.

Í ljósi þess hve stutt er síðan að æfingar hófust, er afburða góður árangur að ná 2 Íslandsmeistaratitlum og skemmtilegt að það skuli hitta á afmælisár Aftureldingar.

Ítarlegri frásögn og myndir eru í tenglum hér neðar í fréttinni.

Keppendur stóðu sig vægast sagt frábærlega og árangurinn fór langt fram úr björtustu vonum.

Keppendur kepptu allir í flokki berboga U16 og var félagið með 4 keppendur.

Niðurstöður keppninnar voru framúrskarandi.

Í drengjaflokki sigraði Ingólfur Birkir Eiríksson og Svanur Gilsfjörð var í öðru sæti.

Í stúlknaflokki var Ásborg Styrmisdóttir í öðru sæti og Rakel Rós Brynjólfsdóttir í fjórða sæti.

Í heildarkeppni stúlkna og drengja var Ásborg í öðru sæti og Svanur í þriðja sæti.

Í liðakeppni sigruðu Svanur og Ásborg, og Rakel og Ingólfur voru í þriðja sæti.

Svo keppendur komu heim með 3 gull, 3 silfur og 3 brons af sínu fyrsta stórmóti í bogfimi.

Góð og ítarleg umfjöllun er á archery.is um árangur keppenda Aftureldingar.

Bogfimisamband Íslands hefur veitt okkur mikinn stuðning við að koma greininni upp á Reykhólum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir gott samstarf. Ljóst er að þessir keppendur eiga framtíðina fyrir sér í bogfimi og við hlökkum til að fylgja þeim eftir.

Styrmir Sæmundsson formaður

Fyrir þá sem vilja sjá lifandi myndir, þá er linkur hér á  Íslandsmót í bogfimi