Fara í efni

Í skóginum stóð kofi einn

13.01.2026
Fréttir

Nú er árið 2025 liðið og langar okkur til að gefa ykkur smá innsýn í hvað gerðist í Skógræktarfélaginu Björk og hvaða drauma við eigum um framtíð skógræktarinnar á Barmahlíð.

Í vor ákváðum við að leggja áherslu í ár á að gera fallega skóginn okkar aðgengilegri og sinna frekar grisjun og að laga stíga en að planta meira í bili.

Það af leiðandi fengum við skógfræðing í heimsókn, sem gaf okkur nokkur góð ráð og var hann mjög hrifinn af Barmahlíð, „Hlíðinni fríðu“.

Hann var ekki frá því að sum trén okkar væru með þeim hæstu á landinu og lagði sérstaka áherslu á hvað við erum með mikið af skógarfuru, sem er frekar sjaldgæf á hér á landi.

Í vor héldum við gróskudag með ratleik fyrir börnin og smá tálgun fyrir alla og áttum mjög skemmtilega stund saman. Eftir vinnuna við að grisja og reyna að finna efri leiðina, til að geta búið til hring, var gott að fá sér pylsur saman.

Þennan dag komum við líka fyrir nýja fallega ruslatunnuskýlinu okkar sem Guðjón Dalkvist smíðaði. Kannski hafið þið tekið eftir brosandi ruslatunnunum á leiðinni framhjá. Núna rétt fyrir jólin héldum við aftur skemmtilega uppákomu, þar sem við vorum með varðeld, hituðum kakó og bjuggum til vetrarskreytingar, notuðum við í föndrið eingöngu lífrænt efni úr fallega skóginum okkar. Þátttaka var vonum framar og ætlum við svo sannarlega að halda í þessa hefð á komandi árum.

En hvað er framundan? Hverjir eru draumarnir okkar?

Draumalistinn okkar:

  • Góðir göngustígar - (ekki bara hringurinn í miðjunni)
  • Jógapallar – (í Japan fer fólk í svokölluð skógarböð Shinrin-yoku með uppáskrifaðan lyfseðil, þar sem það er mjög heilsubætandi. Þetta tengist engan veginn vatni, heldur bara íhugun og láta líkamann skynja umhverfið allt í kring í skóginum, hljóðin, lyktina, hitastigið, .... o.s.frv.......)
  • Garðbekkir
  • Skilti með örnefnum – (við erum komnar með gott tilboð í falleg skilti. Ef þið lumið á örnefnum á svæðinu, endilega látið okkur vita)
  • Skilti með ljóðinu Barmahlíð – ( „Hlíðin mín fríða“)
  • Skilti með korti af svæðinu
  • Lýsing á völdum stöðum - (með sólarpanel)

Við gerum okkur alveg grein fyrir að þetta er margra ára verkefni, en við erum byrjaðar að láta draumana rætast og ætlum að halda því áfram, þó það gerist í hænuskrefum. Allir eru velkomnir að aðstoða okkur við það.

Eitt í viðbót sem við ákváðum á árinu, þú getur orðið bakhjarl í skógræktinni á Barmahlíð, alveg eins og í Björgunarsveitunum. Það þýðir að þú getur stutt okkur fjárhagslega án þess að skuldbinda þig til að vinna á svæðinu.

Við óskum ykkur öllum farsældar á nýja árinu!

Með þökkum fyrir liðna árið,

Skógardísirnar þrjár

(Ásta, Bettina og Þórdís)