Hópslysaæfing í Reykhólahreppi

Í gærmorgun voru viðbragðsaðilar í Reykhólasveit, Strandasýslu og Dalasýslu boðaðir til æfingar við hópslys.
Líkt var eftir árekstri tveggja bifreiða á svonefndum Oddamel í Reykhólasveit, við gatnamót Vestfjarðavegar og vegar um Þröskulda.
Æfingin miðaðist við að 9 einstaklingum í þessum tveimur bifreiðum þyrfti að bjarga og hlúa að og flytja á sjúkrahús.
Slökkviliðsmenn í sameiginlegu slökkviliði á Hólmavík, Reykhólum og Búðardal tóku þátt í æfingunni. Einnig sjúkraflutningafólk á Hólmavík og Búðardal sem og læknar á þessum tveimur stöðum. Þá tók björgunarsveitafólk á þessu svæði þátt í æfingunni og lögreglumenn frá Hólmavík.
Alls tók á fimmta tug fólks þátt í æfingunni.
mynd, Sveinn Ingimundur Pálsson
Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar tók einnig þátt í æfingunni og var flutningur á slösuðu fólki af vettvangi æfður. En vegna mikilla vegalengda að næstu sjúkrahúsum, miðaðist æfingin við að þyrla myndi flytja slasaða af vettvangi, annað hvort á Gjögurflugvöll eða Stykkishólmsflugvöll, þangað sem sjúkraflugvélar myndu sækja slasaða og flytja til Reykjavíkur og/eða Akureyrar.
Unnið var skv. hópslysaáætlun almannavarna á Vestfjörðum og eftir SÁBF skipulaginu. Þannig var samhæfingamiðstöð almannavarna í Skógarhlíð virkjuð, sem og aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum, á Ísafirði, og loks vettvangsstjórn á vettvangi.
Æfingastjórn og ráðgjafar komu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og slökkviliði Ísafjarðarbæjar.
Auk ofantalinna kom að æfingunni fólk frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Það var mat allra þátttakenda, æfingastjórnar og ráðgjafa að æfingin hafi tekist afar vel og viðbrögð og samvinna viðbragðsaðila hafi gengið mjög vel.
Æfingavinna sem þessi miðar að því að viðbragðsaðilar séu tilbúnir til útkalla og samvinna sé fagleg. Þessi æfing þótti sýna að öll viðbrögð hefðu verið til fyrirmyndar.
Öllum viðbragðsaðilum eru færðar þakkir fyrir æfinguna, en ekki síður leikurum sem léku ökumenn og farþega.
Loks eru aðstandendum handverkshússins í Króksfjarðarnesi færðar þakkir fyrir að hýsa og þjónusta viðbragðsaðila og leikara.
Þátttakendur í æfingunni við handverkshúsið í Króksfjarðarnesi, mynd, Hugrún Reynisdóttir.
Þessi grein er unnin upp úr fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.