Gæðasalt framleitt á Reykhólum

Vörur frá fyrirtækinu Norður & Co ehf. sjást víða í matvöruverslunum undir vöruheitinu Norður salt. Það er lífrænt vottað og numið úr sjó við Reykhóla þar sem fimm manns starfa við fram leiðsluna.
Skessuhorn fræddist um fyrirtækið hjá Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins og fyrrum sveitarstjóra Reykhólahrepps.
Sjórinn er hrein auðlind
Ingibjörg er nýtekin við starfi framkvæmdastjóra en hefur reyndar áður unnið sem framleiðslustjóri hjá Norðursalti til tveggja ára. Hún hefur búið á Reykhólum síðan haustið 2010 en til stendur að hún flytji suður og verði þar með skrifstofu.
Norður & Co á einnig dótturfyrirtæki í Árósum í Danmörku og er í eigu Søren og Söndru Rosenkilde. Søren er danskur en Sandra íslensk. Þau segjast sem eigendur afar stolt af því að njóta starfskrafta Ingibjargar Birnu við daglegan rekstur. Hún sé hæfur leiðtogi með mikil tengsl við heimamenn og leggi sig fram um að skapa gott og jákvætt vinnuumhverfi á staðnum.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, mynd frá greininni í Skessuhorni
Betra salt en Maldon
Það var árið 2013 sem 540 fermetra verksmiðjuhús var reist við höfnina á Reykhólum eftir hugmynd tveggja ungra manna, Sørens Ros enkilde og Garðars Stefánssonar sem kynnst höfðu í háskólanámi í Árósum og ákveðið að skella sér saman út rekstur sprotafyrirtækis. Saltvinnslan nýtti sér sambýlið við Þörungaverksmiðjuna og fékk frá henni heitt affallsvatn en fær nú heitara vatn beint frá borholu. Þeir sögðu fyrirmyndina vera breska Maldon-saltið en stefndu að því að gera ennþá betra salt.
Matargerð á nýtt stig
Í dag starfa að jafnaði fimm manns við framleiðsluna en í byrjun voru það aðeins tveir. Umsvifin hafa aukist jafnt og þétt ár frá ári. Ingibjörg segir að það sé ótrúlega áhugavert að geta sótt í þá hreinu og miklu auðlind sem sjórinn er. Með aðstoð heita vatnsins á Reykhólum sé hægt að búa til úrvals flögusalt og það sé afar ánægjulegt að það geti skapað störf fyrir fólk í leiðinni. Hún segir að það sem geri Norðursalt einstakt sé einmitt hreini sjórinn við Íslandsstrendur. Hún nefnir líka þá staðreynd að þetta sé eina saltið hér á landi sem er lífrænt vottað með vottun frá vottunarstofunni Túni. „Vottunin tryggir að engin óheilnæm efni séu notuð við framleiðsluna og að farið sé eftir stífum verkferlum hvað varðar hreinlæti og gæði.
Svo vita kaupendur nákvæmlega hvaðan saltið kemur og úr hvaða hreina umhverfi það er unnið auk þess sem það er afar bragðgott og skemmtilegt í notkun, bæði við matargerð og bakstur.ׅ Það er sérstök tilfinning að nota flögusaltið við matargerð,“ segir hún. „Það lyftir henni upp á annað stig.“
Vöxtur í framleiðslunni
Ingibjörg segir að fyrirtækið hafi aldrei setið uppi með lager, varan hafi alltaf selst strax. Framleiðslan hefur aukist mikið síðustu árin en helsti markaðurinn er í Danmörku og nágrannalöndunum. Um 20% af framleiðslunni eru þó seld inn anlands, helst til Bónuss og Hag- kaupa en saltið fæst einnig í ferða mannaverslunum og er alltaf til staðar í versluninni á Reykhólum og Handverksmarkaðnum í Króksfjarðarnesi.
Að baki framleiðslunni er gömul dönsk saltvinnsluaðferð. Nokkrar bragðtegundir eru í boði eins og bláberja,- lakkrís,- rabarbara- og reykt salt og eru vörur fyrirtækisins nú seldar í tíu löndum. Hafin er stækkun á húsnæði þess og gert er ráð fyrir að bæta enn við fram leiðsluna næstu árin. Núverandi húsnæði er nánast sprungið utan af fyrirtækinu.
Pökkunin
Norður & Co er með samning við Fjöliðjuna Akranesi um pökkun á Norðursalti fyrir innanlandsmarkað. Ingibjörg mærir samskiptin við Fjöliðjuna og fólkið sem þar starfar. „Okkur þykir afar vænt um að njóta þjónustu þeirra við pökkunina og samstarfið hefur gengið afskaplega vel,“ segir hún.
Svo er það framleiðslan sjálf, en þess má geta að verið er þessa dagana að aug lýsa eftir tæknistjóra. „Framleiðslunni fylgja ýmsar áskoranir,“ segir hún. „Við vonumst til þess að ráða til okkar eldkláran aðila sem getur starfað við fjölbreytt verkefni. Til að mynda notumst við við heitt vatn og saltan sjó og það tvennt fer ekki vel með tæki og tól og á því þarf að finna góðar lausnir.“ Ekki er annað að sjá en að Nordur & Co muni leitast við að halda áfram stöðugum vexti og þróa frekari vörur.
gj