Fuglaflensa greinist í refum
Nú á dögunum greindist H5N5 afbrigði fuglaflensu í tveimur refum af Reykjanesinu (nærri Keflavíkurflugvelli – þriðji veiki refurinn fannst einnig þar en var ekki prófaður fyrir flensu) og einum frá Þingeyri. Um er að ræða sömu gerð skæðrar fuglainflúensu greindist í fuglum á Norðvesturlandi í september sl. og í fuglum og spendýrum hérlendis síðasta vetur (þ.á.m. ref úr Skagafirði).
Fuglaeigendur eru hvattir til að gæta ítrustu smitvarna við umgengi á sínum fuglahópum. Óljóst er hversu mikið veiran er útbreidd í villtum fuglum um þessar mundir því greiningar í þeim hafa verið fáar. Á Suðvesturlandi liggur einungis fyrir greining í hrafni sem fannst veikur í Reykjavík og því er óljóst frá hvaða fuglategundum refirnir hafa smitast.
Matvælastofnun hvetur almenning til að tilkynna stofnuninni um veika og dauða fugla og villt spendýr sem það finnur. Það er gert með því að smella á „ábendingar og fyrirspurnir“-hnappinn á forsíðu www.mast.is. Mikilvægt er að lýsa staðsetningu vel, helst með hnitum, og láta mynd fylgja með.
Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar fyrir veiðimenn um meðhöndlun allra veiddra fugla á tímum fuglainflúensu.
Ítarlegri upplýsingar eru á heimasíðu mast.