Fljótlegt réttarhald í Króksfjarðarnesi

Liðlega 30 manns í fyrirstöðu í Hyrnunni.
Í gær, 20. sept. var leitardagur í Geiradal og Gilsfirði, og í beinu framhaldi var venju samkvæmt réttað í Króksfjarðarnesi. Að þessu sinni kom frekar fátt fé til réttar vegna þess að heimasmalamennskur höfðu gengið vel dagana áður. Frá því síðustu kindur voru reknar inn í réttina og þar til búið var að draga upp leið tæpur hálftími. Það náði því varla að skapast nein réttarstemming, en nokkuð margt fólk kom að réttinni, enda ágætis veður.
Feðginin Gulla og Beggi kveðja sér hljóðs á réttarveggnum.
Um það leyti sem réttarhaldið hófst, kvöddu þau sér hljóðs Gróustaðafeðgin, Bergsveinn Reynisson og Guðlaug Bergsveinsdóttir. Þau höfðu tekið að sér að færa Daníel Jónssyni réttarstjóra viðurkenningu fyrir að hafa sinnt því embætti um a.m.k. 34 ára skeið, en það er helmingur þess tíma sem réttin hefur verið í notkun, hún er 68 ára. Þau semsagt færðu Daníel blóm og koníak frá einhverjum bændum hér í kring.
Gulla afhendir Daníel viðurkenninguna, mynd, Ríkarður Ragnarsson.
Daníel Jónsson, Bergsveinn Reynisson og Guðlaug Bergsveinsdóttir.
Hugmynd að þessu kviknaði eftir íbúaþing Fjársjóðs fjalla og fjarða í fyrravetur þar sem kom fram að við gætum verið duglegri að hrósa fólki sem sinnir skyldustörfum, ólaunuðum að mestu, sem lítið ber á og fáir taka eftir.
Fleira fólk en fé?