Fara í efni

Flatey á Breiðafirði

26.04.2023
Fréttir

Fulltrúar Umhverfisstofnunar, Reykhólahrepps, íbúa og framfarafélags Flateyjar hafa undanfarið unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið í Flatey á Breiðafirði.

Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og er þar fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði, miklum fjörum og takmörkuðu aðgengi rándýra að svæðinu. Í friðlandinu verpa fuglategundir sem eru sjaldgæfar á landsvísu, á válista og ábyrgðartegundir Íslendinga, s.s. þórshani, kría og lundi. Auk þess er þar mikið æðarvarp. Búsvæði og lífríki í fjörum og í sjó er afar fjölbreytt og mikilvægt fæðusvæði margra fuglategunda. Náttúrufegurð svæðisins er einnig mikil. Gróðurfar einkennist af túnum, grasmóum, gulstararmýrum og sjóflæðagróðri.

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun.

Áætlunin er sett fram í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Hægt er að kynna sér drög að áætluninni og aðgerðaáætlun sem henni fylgir hér fyrir neðan og skila inn ábendingum.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum er til og með 29. maí 2023.

 Friðland í Flatey

Senda athugasemd (island.is)

Af vef Umhverfisstofnunar