Fara í efni

Embla Dögg í vikuviðtali BB

03.10.2025
Fréttir
Embla Dögg Bachmann
Embla Dögg Bachmann

Útungunarvélin sem eltir drauma, ævintýri og ný tækifæri!

Ég heiti Embla Dögg Bachmann og er 27 ára. Ég er fjögurra barna móðir og svokölluð útungunarvél eins og vinir mínir segja, verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu, framkvæmdastjóri Reykhóladaga og fyrrverandi sauðfjárbóndi. Lífið hefur tekið mig í allskonar áttir og árið 2025 hefur verið einstaklega viðburðaríkt: ég lauk námi í viðburðastjórnun, fékk nýja vinnu, hélt Reykhóladaga með trompi, ævintýrið í Þjóðleikhúsinu – og var valin íbúi ársins í Reykhólahreppi. Ég fann loksins farveginn sem hentar mér best.

Rætur mínar

Ég fæddist 22. júní 1998. Fyrsta árið bjó ég með mömmu minni, Dísu Ragnheiði Tómasdóttur, á Reykhólum áður en við fluttum til Reykjavíkur. Þegar hún fór af stað í fæðingu með mig fór hún sína fyrstu ferð í gegnum Hvalfjarðargöngin – sem sýnir vel hvað þau hafa breytt lífsgæðum fólks vestanmegin.

Mig dreymdi alltaf um að búa á Reykhólum. Ég var svo heppin að fá að vera þar reglulega sem barn – og lét drauminn rætast 18 ára þegar ég flutti vestur.

Nýtt starf og verkefni í samfélaginu

Í janúar var ég ráðin sem verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu og hóf störf í febrúar. Ég vinn sem verkefnastjóri Brothættra byggða í Reykhólahreppi, sem heitir nú verkefnið því fallega heiti Fjársjóður fjalla og fjarða. Þetta er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Vestfjarðastofu og Reykhólahrepps sem miðar að því að efla samfélagið, styrkja íbúa, virkja fólk í hugmyndarvinnu og nýsköpun. Mér finnst það bæði spennandi og dýrmætt að fá að taka þátt í þessu. Fyrsta úthlutun úr framkvæmdasjóði verkefnisins verður, ef allt gengur upp, í október. Ég er rosalega þakklát og stolt af því að fá að vinna hjá Vestfjarðastofu með öllu frábæra fólkinu sem starfar þar, og almennt í kringum alla vinnuna mína starfa ég með frábæru fólki!

Ásamt þessu tók ég þátt í Vestfjarðasýningunni Gullkistan sem var algjörir töfrar, og hélt Ungmennaþing Vestfjarða með samstarfskonu minni, Ernu Leu. Við eigum svo sannarlega glæsileg ungmenni sem eru framtíð Vestfjarða.

Ég er líka framkvæmdastjóri Reykhóladaga og stýrði hátíðinni annað árið í röð. Í ár sáum við tvöfalda aukningu í flestum viðburðum – það var ótrúlegt að upplifa hvað hátíðin getur sameinað samfélagið.

Námið sem breytti öllu

Ég lauk námi í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum árið 2025. Þar fann ég mig eins og aldrei fyrr. Ég var ein af þeim sem fann sig ekki í hefðbundna skólakerfinu, vissi lengi ekki hvert ég stefndi – en styrkleikar mínir lágu annars staðar: í hugmyndum, framkvæmd og sköpun. Það var ótrúlega frelsandi að finna nám sem hentaði mér og þar sem ég gat blómstrað.

Í náminu fékk ég að takast á við fjölbreytt verkefni: ráðstefnu, styrktartónleika og ýmsa viðburði. Starfsnámið mitt tók ég sem kosningarstjóri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi – einstök upplifun sem gaf mér innsýn í stjórnmál, skipulag og tengslanetið sem fylgir því að stýra svo stóru verkefni.

Mér bar líka sá heiður að ávarpa nýnemendur við Háskólann á Hólum í ár, og ég var beðin um að hitta gæðaeftirlit háskólanna fyrir hönd ferðamáladeildarinnar. Það var bæði mikill heiður og falleg staðfesting á því að ég væri á réttri leið.

Fjölskyldan mín og rætur

Ég er fyrst og fremst móðir þeirra Elmars (2017), Kára (2019), Dísu Eyglóar (2021) og Hrafn Leons (2022) Bachmann, og er ég heldur betur rík kona. Ættir mínar liggja bæði í Reykhólahreppi, Kópavogi, Vestmannaeyjum og á Selfossi. Móðir mín er dóttir Svanhildar Sigurðardóttur og Tómasar Sigurgeirssonar sem stunda búskap á Reykhólum. Uppeldisfaðir minn, Ragnar Símonarson, ólst upp í Kópavogi og rak ásamt afa mínum, Símoni Ragnarssyni, verslunina Jón Sigmundsson bæði á Laugaveginum og í Spönginni, þar sem amma mín heitin, Halldóra Kristín Arthúrsdóttir, hélt utan um reksturinn. Sjálf vann ég þar í jólatraffíkinni sem krakki og man það sem mjög skemmtilegan tíma með fjölskyldunni.

Faðir minn Jóhann Bachmann eða Hanni, er frá Vestmannaeyjum en ólst upp á Selfossi. Hann er trommari og hefur spilað með Skítamóral í áratugi, auk þess að hafa leikið með Írafár á stærstu árum þeirra. Tónlistin á sér djúpar rætur í föðurætt minni – afi minn, Ólafur Bachmann, var trommari í hljómsveitunum Mánum og Lögunum. Amma mín, Hrafnhildur Jóhannsdóttir, eða Habbó amma, kveikti svo ástríðuna mína fyrir thrifting þegar ég var aðeins sjö ára. Það varð að okkar sameiginlega áhugamáli og er eitthvað sem ég held áfram að sinna hvar sem ég er stödd.

Áhuginn minn á tísku og stíl kviknaði snemma og varð mér mikil útrás. Ég klæddi mig gjarnan á sérstæðan hátt og naut þess að prófa mig áfram með fatnað og útlit. Einu sinni var ég til dæmis með bláar augabrúnir – daglega – og hef einnig prófað aflitaðar augabrúnir fyrir alveg 11 árum síðan. Ég hef prufað margar útfærslur af sjálfri mér – verið bæði hippi, rokkari og ýmsar aðrar „týpur“ – en komst að því með árunum að það mikilvægasta er einfaldlega að klæðast bara því sem mér finnst fallegt og töff.

Ég var líka algjör týpa á þessum árum og fannst kúl að reykja – svo ég þóttist gera það. Ein fyndnasta lýsingin sem ég hef fengið á sjálfri mér var frá þessum tíma: „Já, ertu að tala um Emblu, sem klæðir sig eins og Grímhildur Grámann og reykir sígarettur?“

Ég og æskuvinkona mín, Ragnheiður, vorum mikið á lagernum í Spútnik þegar við vorum í 5.–6. bekk. Þura, góð vinkona mín og frænka Ragnheiðar, rekur og á verslunina. Í þessu umhverfi kviknaði enn sterkari áhugi minn á tísku og við Ragnheiður klæddum okkur oft upp í hin ýmsu vintage-dress úr Spúútnik. Við töldum okkur ansi töff – og raunar var það engin lygi. Ég vann þar einnig um tíma, sem var einstaklega skemmtilegur tími.

Ég á mörg systkini, samtals tíu með stjúpsystkinum, og þau eru mér öll afar kær. Sérstaklega systir mín Ísabella sem er með Smith-Magenis heilkenni – hún hefur kennt fjölskyldunni meira um lífið en flest annað.

Hvatvísin og grínið

Ég er hvatvís og hugrökk. Ég hefði líklega aldrei endað hér ef ekki væri fyrir það – eins og þegar ég mætti í skólann á Hólum án þess að hafa fundið mér gistingu. En hvatvísin hefur alltaf leitt mig á rétta staði.

Ég hef líka gaman af gríni. Afi minn var nýlega að grínast með hvort hann ætti ekki að auglýsa mig með jörðinni sinni í Bændablaðinu ef ég færi ekki að ganga út – alveg eins og einn gerði nýlega þegar hann auglýsti eftir tengdasyni. Mér fannst það frábær hugmynd. Aldrei að vita nema amma og afi hendi í auglýsingu bráðlega.

Áhugamál og lífsstíll

Ég elska að skapa. Ég elska að thrifta – hefð sem byrjaði með ömmu Habbó – og að klæðast öðruvísi. Ég breyti húsgögnum, finn fegurð þar sem aðrir sjá drasl og lít á það allt sem skapandi tækifæri.

Ég elska líka fólk – að hitta það, kynnast því og vinna með því. Það er í raun helsta áhugamálið mitt. Ferðalög gefa mér líka orku og fjölbreytileika, hvort sem þau tengjast vinnu eða einkalífi.

Leikfélagið og ævintýrið í Þjóðleikhúsinu

Ég byrjaði í leikfélaginu af hvatvísi, þó ég hefði ekki tíma til að leika í ár. En svo var ég beðin um að stökkva inn í sminkuna fyrir sýninguna 39 þrep hjá Leikfélagi Hólmavíkur, vegna forfalla. Ég hafði aldrei sminkað áður – en af hverju ekki! Með góðu fólki er allt hægt!

Ég varð hluti af teyminu í kringum sýninguna og þetta varð að ótrúlegu ævintýri sem toppaði sig þegar við enduðum í Þjóðleikhúsinu, þar sem við sýndum 39 þrep þegar við unnum Áhugaleiksýningu ársins hjá Þjóðleikhúsinu. Að standa þar í salnum með hópnum mínum, fyrir nánast fullan sal, var ógleymanlegt. Fyrir litlu Emblu sem dreymdi alltaf um að verða leikkona, æfði söng og leiklist í mörg ár í Söng- og leiklistarskóla Borgarleikhússins – þá er þetta svona það sem ég hef komist næst þeim draumi að sminka og vera hluti af heildinni!

Framhaldið

Árið 2025 hefur kennt mér að dreyma stærra, treysta ferlinu og stökkva óhrædd í ný tækifæri. Ég hef upplifað margt á þessum stutta tíma: setið í sveitarstjórn, rekið sauðfjárbúskap, stýrt hátíðum, verið kosningarstjóri, fengið að vinna að samfélagsverkefnum og farið með leikfélagi á svið í Þjóðleikhúsið. Má eiginlega segja að ég hafi lifað á við 50 ára konu, eða þannig!

En það sem stendur alltaf upp úr er fólkið: fjölskyldan mín, vinirnir mínir og samfélagið sem hefur alltaf stutt mig. Ég er þakklát, forvitin og spennt fyrir framtíðinni – og ætla að halda áfram að blómstra hér á Vestfjörðum með mínu fólki.