Dreifing á körfum og bréfpokum fyrir lífrænan úrgang
Í dag átti að fara fram dreifing á bréfpokum og körfum til íbúa í Reykhólahreppi. Ákveðið hefur verið að bíða með dreifinguna til laugardags, þar sem fólk er almennt ekki heima til að taka á móti körfunum og pokunum.
Því verða starfsmenn Íslenska gámafélagsins á ferðinni laugardaginn 16. mars.
Þeir sem ekki verða heima á laugardaginn geta sótt sína poka og körfur á endurvinnslusvæðið þegar þeim hentar en á milli kl. 8 og 17,
Hafa skal samband við Jón Kjartansson s. 8923830 sem mun afhenda gögnin.
20. mars verða brúnar tunnur losaðar eftir þann verður að nota bréfpokana.
Meðfylgjandi bréf er dreifibréf sem kemur á hvert heimili með pokunum og körfunni.
Reykhólahreppur
reykholar.is
Kæri íbúi
Breyting hefur verið gerð á söfnun matarleifa við heimili, fyrirtæki og stofnanir og má nú ekki lengur nota maíspoka undir matarleifar. Eingöngu má nota bréfpoka. Þetta á við um allt sem fer í brúnu tunnuna eftir losun 20. mars. Maíspokana er tilvalið að nota undir blandaðan úrgang og takmarka þannig enn frekar plast sem fer til urðunar.
Lífrænn úrgangur sem er safnað í Reykhólahreppi fer í GAJA, gas- og jarðgerðarstöðina í Álfsnesi. Bréfpokarnir brotna betur niður og festast síður í vélbúnaðinum sem þar er.
Reykhólahreppur hefur ákveðið að dreifa einu búnti af bréfpokum og körfu á öll heimili í sveitarfélaginu. Í búntinu eru 80 pokar sem duga í 6 – 9 mánuði og eiga að vera fáanlegir í verslunum í kjölfarið.
Til upprifjunar eru flokkunarleiðbeiningar á bakhlið bréfsins.
Góð ráð frá Íslenska gámfélaginu um notkun bréfpoka og körfu:
Flokkun á matarleifum.
Söfnun á matarleifum eða lífrænum úrgangi er mikilvægt skref í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Úr lífrænum úrgangi sem safnast við heimili er framleitt metangas og molta. Metangas nýtist meðal annars sem bifreiðaeldsneyti og molta nýtist til landgræðslu.
Matarleifum er safnað í þar til gerða bréfpoka. Pokarnir eru sérstaklega hannaðir með þessa notkun í huga og eru mun sterkari en hefðbundinn bréfpoki, eins og t.d. pappírsburðarpokar í verslunum. Þessir pokar hafa verið notaðir í áraraðir á Norðurlöndunum með góðum árangri.
Mikilvægt er að það lofti vel um pokana til að þeir endist betur. Ef ekki loftar um pokana þá verða þeir mjög fljótt rakir og byrja að leka. Karfan undir bréfpokana er einmitt til þess gerð að tryggja góða loftun um pokana. Körfurnar passa í flestar flokkunareiningar í eldhúsinnréttingum.
Þá þarf að gæta þess að troðfylla ekki pokann heldur aðeins upp að punktalínunni. Best er að skipta um poka á a.m.k. þriggja daga fresti.
Leiðbeiningar um notkun pokanna er einnig að finna á pokunum sjálfum.
Gangi ykkur vel að flokka!