Tenglar

SKOT SOFFÍU FRÆNKU

 

Náttúruvernd er mikilvægust heimsmála.

Þar sem hlúð er að auðlindum heima fyrir nást betri lífsgæði og stöðugleiki.

Hér birtast pistlar Maríu Maack

um umhverfi nær og fjær, spurningar, tillögur, umræður.

 

miðvikudagur 14. nóvember 2018

Skógrækt, já takk!

Fyrir stuttu var skógræktarfélagið Björk vakið úr dvala. Í nýrri stjórn sitja meðal annarra María Maack og Halldóra Játvarðardóttir. Okkur langar mikið til að blása lífi í félagið og fá fleiri með í að gróðursetja og sjá um jólatré og skoða hvernig best verður komið upp skjóli og meiri rækt í mannlíf og trjágróður. Til upprifjunar um fyrri grósku má nefna að um aldamótin var heilmikil starfsemi í gangi, ýmist á vegum skógræktarfélagsins eða einstaklinga.


Á þessari öld hafa verið gróðursett skjólbelti og tilraunareitur með aspir var settur á laggirnar í túni vestur af Maríutröð í landi Tómasar Sigurgeirssonar. Einnig fékkst styrkur til að girða spildu austan við þorpið og er þar land til að rækta skjólbelti sem myndi hlífa þorpinu gegn NA átt. Sumarið 2018 plantaði vinnuskólinn á nokkrum blettum innan þéttbýlisins. Skógræktarfélagið kom þar ekki nærri. Þar sem aspir og víðir í tilraunareitnum eru nú 10 ára gamlar má sjá hvernig mismunandi klónum hefur reitt af. Í fyrra bað ég Tuma um leyfi til að sækja stiklinga af þeim sem hafa komið best út og setja niður víðar við Reykhóla.  Lóa hefur mikla trú á klóninum ,,Keisara“ því hann hefur staðið sig vel á Vesturlandi.


Erindi Brynjólfs Jónssonar


Á fundinn um daginn kom Brynjólfur Jónsson sem ættaður er úr Dýrafirði en er nú framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands (SkÍ). Hann sagði frá helstu verkefnum Skógræktarfélags Íslands og nefndi að nokkur svæðisfélög á Vestfjörðum væru öflug til dæmis á Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði, Ísafirði og í Steingrímsfirði. Væri vert að kanna samtakamátt allra þessara félaga til að vinna meira markvisst á öllum Vestfjörðum.


Brynjólfur sagði tækifæri liggja í nýrri stefnu ríkisstjórnar í loftslagsmálum þar sem aukið fé væri að koma til skógræktar miðað við undanfarin ár. Eftir fall bankanna hefði verið skorið mikið niður og bændur sem voru komnir af stað innan eyrnamerktra verkefna  á vegum Skógræktarinnar (áður Skógræktar ríkisins) hefðu ekki fengið afhentar plöntur í samræmi við óskir. Gróðurstöðvum var lokað á nokkrum stöðum og er auðsætt að hætta er á skorti á plöntum nema þarna sem bætt úr af myndarskap.


Óskandi væri að nú kæmi meira fé til kolefnisbindingar. Nokkrar mismunandi áætlanir eru í gangi. YRKJU er sérstaklega ætlað að veita skólum árlega tækifæri til að gróðursetja, til dæmis einum aldurshópi. Skynsamlegt er að taka ekki of mikið fyrir í einu (2-3 tré á hvert barn) til að drepa ekki áhugann með of langri vinnu.  KOLVIÐUR er annar sjóður sem útvegar plöntur til gróðursetningar til að binda kolefni. LANDGRÆÐSLUSKÓGAR er enn ein áætlunin. Skógræktin og SkI vinna saman með áhugafélögum en bændur græða landið er stærsta áætlunin, Skógarbændur fá námskeið, leiðbeiningar og  plöntur til að gróðursetja í eigin landi. Mælt er frekar með að gróðursett sé í jaðra túna, t.d. í fjallshlíðar frekar en unnin tún.  SkI veitir fræðslu og getur aðstoðað með skipulag og ráðgjöf miðað við aðstæður og skaffað vinnuhópa t.d. við grisjun.


Vinnuhópar á vegum SkÍ leggja stíga í þeim skógum sem ákveðið er að opna, gera uppdrátt og undirbúa leiðbeiningar. Innviðir til skiltagerðar fást hjá SkÍ. Þá eru sett upp kort og leiðarvísar um svæðið og fólki boðið að njóta útivistar, oft með fræðslu. Á Vestfjörðum vantar opna skóga og væri heillaráð að koma Barmahlíðarskóginum inn í þá biðröð að sögn Brynjólfs þó svo að sitthvað hafi verið grisjað á undanförnum árum. Hæsta tré Vestfjarða ætti að draga að. Þá koma sjálfboðaliðar í gegnum ERASMUS styrk, sköffuð er möl og viður í tröppur og stíga. Hópurinn fær verkefni sem skilgreind eru í samráði við skógræktarfélag svæðis, auk þess aðgang að gistingu og eldhúsi sér að kostnaðarlausu. 


Skógræktarfélög hafa á undanförnum árum verið að færast frá því að gróðursetja í fjarlægum reitum og í það að setja niður skjólbelti nær byggð og inni í þéttbýli. Stærst er svæðið í kringum þéttbýli höfuðborgarsvæðisins (græni trefillinn). Er það orðið myndarlegt skóglendi sem borgarbúar nota mikið til útivistar. Þetta virkar sem skjól, jarðvegsbinding og heilsueflandi svæði. Þar eru notaðar fjölbreyttar tegundir, útivistin verður eftirsóttari þar sem mynduð eru skógarrjóður og fjölbreytni gleður augað. Yfirleitt er hægt að sækja um 6 tegundir í blöndu bæði barrtré og lauftré. Í Reykhólasveit ætti að vera hægur vandi að safna birkifræi í Barmahlíðarskógi á haustin og sá þeim strax.


Skógrplöntur eru pantaðar í janúar fyrir næsta sumar. Ekki er ráðlegt að taka of mikið í einu, einungis svo mikið sem gefur félagsmönnum ánægju við gróðursetningu. Svo það fer eftir fjölda í félagatali hve mikið ætti að panta hingað. Ef gróðursett er í graslendi þarf að setja ofan í plastdregla sem kæfa grasið og velja stærri plöntur. Annars vilja þær kafna og mygla í grasi. Ef gróðursett er í mólendi mega plöntur vera minni. Plantað er í maí-júní eða sept-nóvember eftir árferði.


Kom fram að Þörungaverksmiðjan er tilbúin til að setja úrgangsmjöl til skógræktar en safnhaugar (molta) verða að vera aðgengilegir í rýru landi, einnig fyrir sjálfboðahópa. Áburður þarf að vera köfnunarefnisríkur (blákorn).


Mikilvægt er að samningur um land fyrir skógtækt liggi fyrir og fylgi umsókn þannig að ljóst sé að plönturnar fái samastað innan svæðis skógræktarfélagsins. Nú vil ég gjarna heyra í ykkur sveitungar hvort ekki eru fleiri sem hafa áhuga á að vera með. Dæmigerð dagskrá ársins er ein heimsókn í skóglendi, einn dagur í plöntun, samskipti við sjálfboðaliða og grisjun. Við viljum að sjálfsögðu fá börnin með.

 

  

fimmtudagur 3. maí 2018

Verum virk

Um daginn var haldinn íbúafundur í Reykhólasveit. Þar voru rædd ýmis málefni sem falla undir nefndir sveitarfélagsins. Einnig tillögur að nýjum framkvæmdum og hugmyndir handa nýrri sveitarstjórn til þess að fegra mannlífið. Frétt þar um birtist fyrir skemmstu á vefnum okkar.


Íbúakannanir geta líka gefið innsýn í hugarheim fólks og álit þess á heimabyggð og væntingar til framtíðarinnar. Í vetur hafði háskólinn á Akureyri samband við íbúa allra sveitarfélaga á Vestfjörðum og bauð þeim að taka þátt í íbúakönnun á vegum Sambands Sveitarfélaga á Vesturlandi/Vestfjörðum. Niðurstöðurnar voru reifaðar á Fjórðungsþingi en skýrslan er ekki komin út.

 

Þar kemur þó fram að þeir íbúar Stranda- og Reykhólahrepps sem svöruðu könnuninni voru ekki nægilega margir til þess að mark sé takandi á þeirra skoðunum. Þetta er afar bagalegt því að þar með er ekki hægt að bera saman hug fólks í mismunandi sveitarfélögum til sveitarfélagsins og rýna á ástæður óánægju eða ánægju. Erum við sátt við þjónustu stofnana í nærumhverfi eða hvar við viljum sjá framfarir á næstunni. Það eru vísbendingar í Reykhólasveit um að fólk sé almennt ánægt með heilsugæslu og náttúruna en síður ánægt með húsnæðismál og framhaldsskólaþjónustu.


Þar sem ég er ætíð upptekin af boðun sjálfbærrar þróunar vil ég af þessu tilefni rifja upp að öflug þátttaka í lýðræði og jafnræði þegnanna, gott tillit til barna og ungs fólks, virðing gagnvart elstu kynslóðinni og traust milli þeirra sem hafa breiðustu bökin til stjórnkerfisins er ein af þremur undirstöðum hennar. En þá er líka búist við að hver og einn þekki bæði frelsi sitt og ábyrgð og leggi sitt af mörkum til að skapa gott samfélag. Það búa ekki allir við lýðræði, skoðanafrelsi eða óháða fjölmiðlun, þannig að gagnrýni ætti að fylgja nokkur ábyrgð.


Ég velti fyrir mér hvers vegna þátttakan á okkar svæði var miklu minni en annars staðar á Vestfjörðum. Getur verið að fólk veigri sér við að nota tölvur og vefþjónustu, nenni ekki að sinna svoleiðis stússi? Hefðu þeir hinir sömu gefið sér tíma fyrir 30 mín símtal? Að nota tölvur er miklu ódýrara í framkvæmd, tekur styttri tíma og það er hægt að svara tölvu-könnun þegar hentar.  Þá fæst líka stærra úrtak á styttri tíma og niðurstöðurnar verða nær því sem má teljast rétt. Þátttaka í að svara könnunum er nefnilega mikilvæg. Niðurstöður eru nothæfar. 


Tölvutengingar á svæðinu hafa nú ekki verið afleitar, þótt nú horfi til enn betri vegar. Lýðræðið hefur breyst eftir að samfélagsmiðlar komu í stað kaffitíma, sms komu í stað símtala og vefsíður komu í stað funda. Í starfi mínu fyrir atvinnu-þróunarfélagið og núna Vestfjarðastofu hef ég orðið þess vör að fólk á aldri við mig (um sextugt) notar minna tölvusamskipti en ég hef vanist af höfuðborgarsvæðinu. Ef til vill ætti yngri kynslóðin að þjálfa, hvetja og kenna sér eldra fólki tölvulipurð svo að samskipti milli okkar alla gangi snurðulaust og allir geti auðveldlega verið með í uppbyggjandi umræðu ...  ja til dæmis fyrir sveitarstjórnarkosningar.

 

  

miðvikudagur 2. ágúst 2017

Fíni rafmagnsbíllinn minn hefur líka galla

Upplýsingar á skjá
Upplýsingar á skjá
1 af 2

Ég keypti mér blendingsbíl. Þetta er fallegur Volvo (V60) sem keyrir á rafmagni og dísli. Hann nefnist Maríulaxinn því þetta er fyrsti bíllinn sem ég kaupi og er svo gott sem nýr. Ég vildi einmitt svona bíl sem notar rafmagn innanbæjar og er að öðru leyti afar sparneytinn (notar hann 3,7-4.6 L/100km og innanbæjar 0). Tölva stýrir því hvernig rafgeymirinn og vélin skipta með sér verkum og það er unun að ferðast á svona kraftmiklum og mjúkum bíl. Auðvitað eru nútímagræjur í honum, stýrishitari og kortaleiðsögn, tenging við i-pod osfrv. Ég get hringt með því að tala við bílinn og hann sýnir nákvæmlega hvernig orkunotkuninni er háttað.  Handbók bílsins þurfti ég að prenta út af netinu og það er mikið lesefni. Ég er koimn á bls 132.


EEEEN ég hef líka orðið hissa

Ég var í Kringlunni á tannlæknaslóðum og ætlaði að tengja bílinn minn við hleðslustöð á meðan. En viti menn, tenglar á hleðslustöðinni passa ekki í innstak bílsins. Hann passar ekki í neina hraðhleðslustöð á öllu landinu. Þær eru nefnilega aðeins fyrir hreina rafgeymabíla. En búandi á Reykhólum þori ég ekki að fara á hreinan rafbíl þar til vetnið kemur inn.

Vissu allir nema ég að ekki er hægt að tengja blendingsbíla við núverandi rafhelsðlustöðvar fyrir almenning?. Ef ég er að heiman þarf ég sem sagt alltaf að biðja um leyfi til að fá að setja í samband við t.d. þvottahúsinnstungunahjá húsráðendum. Spæling.

 

Er þetta bara sumarbíll?

Nú er kominn ágúst. Það hefur kólnað hérna fyrir vestan og hitinn á morgnana er um 7°C. Svolítið of snemmt. Ég get klætt mig betur, en bílnum kólanar með sérstökum hætti. Upplýsingar frá honum breyttust í: Nú er blandaður akstur ekki tiltækur. Ha?

Ég hef reyndi að stilla eitthvað en sé að einungis dísilvélin er að vinna. Rafgeymirinn er ekki hafður með og ekkert gengur á hleðsluna. Þessu átti ég ekki von á.

Í handbók bílsins las ég síðan að blöndun orkugjafa í akstri er háður hitastigi. Vinnsla rafgeymisins er auðvitað háð hitastigi og ég skil ef dregur af honum í frosti til að mynda.. Bíllinn stendur í upphituðum bílskúr á nóttinni og samt er þetta melidingin strax í upphafi ferðar.. Í umhverfiskulda virkar kerfið ekki.  Og núna, af fenginni reynslu sýnist mér að rafgeymirinn og blendingskerfið nýtist ekki ef hitastigið fer niður fyrir 10°C, sem er meðalsumarhitastig á Íslandi. Og þar með ek ég eingöngu á dísli, sama hve ferðalagið er stutt. Sumir eiga frúarbíl, aðrir eiga sumarbíl.

 

Mér sýnist að ég þurfi að lesa alla handbókiina, til dæmis um stillingar á forhitun vélarinnar og vonandi finn ég út úr þessu vandamáli því ætlunin var að spara eldsneyti til að setja upp í kaupverð bílsins. 

 


Eltingaleikur við skógarkerfil rétt hjá Grundaránni
Eltingaleikur við skógarkerfil rétt hjá Grundaránni

Nú þegar gróðurinn er í fullum blóma er svo auðsætt hvað hann auðgar líf okkar með allri grænkunni, blómlitum, gljáa, silfurlitri loðnu, lykt og formum. Það fæst aldrei nóg af skjóli og grænku. Ég ætla að halda áfram að stinga niður birki og stiklingum af ýmsu fallegu.


Á leið úr vinnunni um daginn var mér þó brugðið. Það eru ekki aðeins óþarflega mörg njólastóð í kringum byggðina, ég fann skógarkerfil í vegkantinum (sjá mynd). Þessi yfirgangsplanta hefur fylgt þétt á eftir lúpínubreiðunum upp eftir Esju til dæmis. Ég hef líka séð skógarkerfil breiðast hratt út í Elliðaárdal og við Skóga og aðrar plöntur komast ekki á legg. Þess vegna reyni ég að bregðast við og uppræta þessa ágengu plöntu þar sem hún þarf ekki að vera. Ég þekki vel hvað lúpína getur verið hjálpleg en ágeng í landgræðslu og hef sjálf reynt að nýta aðrar tegundir í sama tilgangi í ræktun. Smári er fínn til að auðga túnbletti, fuglaertur þrífast best í sandi, umfeðmingur er ágætur í þéttum flögum og gömlum túnum, rauðsmári er góður í grænmetisgarðinn. Engin þessara tegunda kæfa annan gróður en glæða jarðveginn af köfnunarefni. Þarfir þjónar enda af ertublómaætt. – Ef þið þekkið þær ekki þá er alltaf hægt að leita á www.floraislands.is


Njóli mun hafa verið fluttur inn með landnámsmönum. Njólablöð voru notuð á svipaðan hátt og við notum spínat nú, í stöppu, í jafninga og sem hrámeti. Ég man eftir því að hafa fengið njólajafning með grjúpáni sem barn á Ferjubakka. Njólablöð gefa góðan keim emð öðru í salati. Eins er með arfa, fíflablöð og hundasúrur. Allt miklir vítamingjafar. Njóli er þeirri náttúru gæddur að geta brotist í gegnum hörð jarðlög og komast þannig í fjölbreyttari steinefni neðar en aðrar plöntur. Þess vegna þrífst hann víða og sáir sér hratt. Aðrar plöntur geta síðar leitað með rótum niður eftir þessum glufum.


Almenningsálitið er ekki hliðhollt njóla enda getur hann yfirtekið nær hvaða gróðurlendi og garðrækt sem er. Ég reyni að skera hann áður en fræ þroskast og kem í veg fyrir að fræin berist út út. Best finnst mér að þurrka hann í keri og brenna hann síðar um haust og fræin með. 

 

 

Það er nóg af tilvonandi trjám þarna
Það er nóg af tilvonandi trjám þarna
1 af 3

Flýtið ykkur í kolefnisbindinguna.

 

Nú stendur til að ljósleiðarinn verði plægður niður í nágrenninu. Allir gleðjast mikið NEMA litlu sjálfsáðu grenitrén neðan við skóglendið í Barmahlíð.

 

Í vegarbrúninni eru hundruðir grenitrjáa sem hentar að taka upp með rótum og gróðursetja á betri stað.

Allir sem vettlingi geta valdið ættu því að taka að sér eins og 10 tré og koma þeim í jörð svo þau geti vaxið og dafnað. Þetta eru 2-4 ára gamlar hríslur sem hafa spjarað sig hingað til.

 

Til að ná þeim upp þarf að hafa meðferðis stunguskóflu og fötu.

Allir í kolefnisbindinguna í hvelli.

 

 

Með rjúkandi Reykhólakveðjum,

María Maack

Verkefnastjóri hjá ATVEST

S 863 6509

mánudagur 13. febrúar 2017

Hin yndislega náttúruorka

Við hverinn Einireyki neðan við Reykhólaþorp. Ljósm. Árni Geirsson.
Við hverinn Einireyki neðan við Reykhólaþorp. Ljósm. Árni Geirsson.

Nú standa yfir kerfisbreytingar í Þörungaverksmiðjunni. Skrúfað hefur verið fyrir heita vatnið og á meðan þetta tækifæri gefst munu Íslenskar orkurannsóknir freista þess að mæla hve mikið heitt vatn fæst úr öllu jarðvarmakerfinu á Reykhólum. Það er nokkuð merkilegt, að jarðhitinn hefur verið notaður á Reykhólum, í iðnaði og til húshitunar, í meira en 40 ár án þess að heildarmagn sjálfstreymandi heitavatns hafi verið þekkt.

...
Meira
föstudagur 16. september 2016

Ferðaskot

1 af 2

Ferðafólk hefur áhrif á náttúruna og manngert umhverfi. Aðeins með því að koma og njóta á svipaðan hátt og við sjálf. Verst (og best) að allir ferðamenn þurfa líka að borða, hægja sér og spræna stöku sinnum. Margir haga sér eins og þeir séu aleinir í heiminum, og hneyksla okkur. Setjum okkur í þeirra spor. Margir koma frá milljónaþjóðum hingað í fámennið og fá þessa tilfinningu að vera þeir fyrstu til að sjá landið og vera aleinir í heiminum.

...
Meira
laugardagur 9. júlí 2016

Þörungar – heimafengnir og hollir

Bóluþang (Fucus vesiculosus). Mynd: Vefur Hafró / Karl Gunnarsson.
Bóluþang (Fucus vesiculosus). Mynd: Vefur Hafró / Karl Gunnarsson.
1 af 2

Um allan heim er mikill uppgangur í notkun sjávarþörunga á matar­borðið. Ekki síst veisluborðið. Þeir sem aðhyllast norræna eldhúsið eru þar í fararbroddi. Þar sem margar tegundir vaxa við Breiðafjörð eru hér birtar uppskriftir að sjávarfangi sem gætu hentað okkur á Reykhólum. Ég læt latnesku heitin fylgja ef þið viljið leita að fleiri myndum á netinu.

...
Meira
föstudagur 3. júní 2016

Góður jarðvegur

1 af 2

Í lóðinni minni á Reykhólum er undirlagið aðallega kísilhrúður sem hefur myndast við hveri. Ef nú stendur til að fá rósarunnana til að blómstra, trén til að vaxa og mynda skjól og sumarblómin til að dafna, þarf að efla jarðveginn svo hann næri betur gróðurinn og haldi betur vatni. Moldin heldur næringarefnum sem gróður nýtir sér við vöxt og viðhald.Ég bý til mold úr afgöngum eldhússins, skít og þörungamjöli. Ég sem sé jarðgeri lífrænan úrgang.

...
Meira
miðvikudagur 27. apríl 2016

Rafbíl eða bíða?

1 af 2

Langar okkur ekki öll í rafmagnsbíl? Svona hljóðlausa kerru sem skýst niður í verksmiðjur og til Hólmavíkur án þess að eyða dropa? Það eina sem þarf er góð og örugg innstunga, ýmist í bílskúrnum eða snúra út um þvottaherbergisgluggann. Ég ætla ekkert að auglýsa nein merki hér, en núna hafa þessir bílar líklega náð því markaðsverði sem búast má við.

...
Meira
Fyrri síða
1
2Næsta síða
Síða 1 af 2

Atburðadagatal

« Febrar 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28