Verksvið starfsmanna - starfslýsingar

Erindisbréf kennara

1.gr.

Kennari, sem ráðinn er til starfa í grunnskóla, skal gegna því samkvæmt lögum, reglugerðum, aðalnámskrá grunnskóla, erindisbréfi og kjarasamningum.

Kennari skal ráðinn til starfa af hlutaðeigandi skólayfirvöldum í samræmi við samþykkt um stjórn sveitarfélags. Ráðning skal einnig vera í samræmi við lög nr. 66/1995 um grunnskóla, lög nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og lög nr. 48/1986 um lögverndun starfsheita og starfsréttinda grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

2. gr.

Á kennara hvílir sú skylda að miðla þekkingu til nemenda og veita hverjum nemanda tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði nemenda og frjóa hugsun. Kennara ber að sjá til þess að sérhver nemandi fái viðfangsefni við hæfi, aðstoða hvern og einn í náminu, hvetja til sjálfstæðra vinnubragða, hjálpa hverjum og einum að meta stöðu sína í náminu og stuðla að því að hver nemandi tileinki sér heilbrigðar lífsvenjur.Kennari skal leitast við að vera nemendum sínum til fyrirmyndar um háttvísi, stundvísi og reglusemi og gæta trúnaðar við nemendur og virða þann trúnað sem þeir sýna honum. Kennari gæti þagmælsku um þau einkamál er hann fær vitneskju um í starfi og þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

3. gr.

Kennara ber að annast kennslu og nauðsynlegan undirbúning samkvæmt stundaskrá og sinna öðrum störfum við grunnskólann sem honum eru falin af skólastjóra enda samræmast þau starfssviði hans.

4.gr.

Í starfi kennara felst meðal annars:

- Að annast kennslu samkvæmt meginmarkmiðum aðalnámskrár og stefnu skólans.

- Að skipuleggja kennslu sína í samræmi við markmið grunnskólalaga og með hliðsjón af þörfum og þroska nemenda hverju sinni.

- Að fylgjast með ástundun, framkomu og líðan nemenda og gera skólastjóra og forráðamönnum nemenda viðvart ef hann telur þörf á.

- Að fylgjast með aðbúnaði til náms og kennslu og gera skólastjóra viðvart ef umbóta er þörf.

- Að færa dagbækur reglulega, nemendaskrár, einkunnabækur og aðrar nauðsynlegar skýrslur.

- Að veita umsjónarkennurum og námsráðgjöfum upplýsingar um námsgengi einstakra nemenda.

- Að veita foreldrum sem gleggstar upplýsingar um skólann, skólastarfið og gengi viðkomandi nemanda.

- Að hafa hagsmuni nemenda að leiðarljósi og sýna hverjum og einum virðingu, áhuga og umhyggju.

- Að hafa jafnrétti nemenda í öllu skólastarfi að leiðarljósi.

5. gr.

Kennara er heimilt að víkja nemanda úr kennslustund ef nemandinn veldur verulegri truflun á kennslu og lætur ekki skipast við áminningu. Komi til slíks skal kennari tilkynna skólastjóra það og leita eftir samvinnu við foreldra og sérfræðinga skólans um lausn á málinu.

6. gr.

Erindisbréf þetta er sett samkvæmt 6. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

 

Starfslýsing þroskaþjálfa


Yfirmaður þroskaþjálfa er skólastjóri.  Þroskaþjálfi er samstarfsaðili kennara og annarra starfsmanna skólans eftir því sem við á.  

Ábyrgðarsvið

- Þroskaþjálfi er samstarfsaðili kennara og annarra starfsmanna skólans eftir því sem við á. Mikilvægt er að þroskaþjálfi og kennari/kennarar starfi náið saman og gæti þess að verkskipting þjóni sem best öllum einstaklingum bekkjarins/deildarinnar.

- Ber ábyrgð á og annast þroskaþjálfun og umönnun nemenda með fötlun.

- Ber ábyrgð á samskiptum við fjölskyldur nemenda sinna.

- Stendur vörð um réttindi nemenda sinna og stuðlar að því að þeir njóti bestu þjónustu sem möguleg er á  hverjum tíma.

- Tryggir svo sem kostur er og stuðlar að jafnrétti og jákvæðum viðhorfum til fatlaðra einstaklinga.

- Eflir og viðheldur fagþekkingu sinni með reglubundinni endur-og símenntun.

Helstu verkefni:

- Þroskaþjálfi gerir einstaklingsáætlun í samráði við umsjónarkennara, sér¬kennara, foreldra og aðra eftir því sem við á.

- Gerir færni og þroskamat.

- Skipuleggur þjálfunaraðstæður, velur/útbýr þjálfunar- og námsgögn og fylgir eftir settum markmiðum.  Metur árangur og endurskoðar markmið í samstarfi við samstarfsaðila. Skilar skriflega niðurstöðum til næsta yfirmanns og foreldra.

- Tekur þátt í kennara og starfsmannafundum.

- Veitir foreldrum nemenda sinna ráðgjöf og leiðbeiningar.

- Annast  upplýsingagjöf og upplýsingaöflun vegna sérþarfa nemenda sinna.

- Miðlar sérþekkingu til kennara, annarra starfsmanna skólans og foreldra.

- Ber, ásamt deildarstjóra sérkennslu, ábyrgð á upplýsingagjöf og upplýsinga¬öflun vegna flutninga nemenda milli skóla.

- Ber ábyrgð á reglulegu sambandi við umsjónarkennara viðkomandi bekkja.

- Ber ábyrgð á að trúnaðargögn nemenda hans berist til deildarstjóra sér¬kennslu til varðveislu.

- Vinnur önnur þau verkefni sem skólastjóri felur honum og eðlilegt getur talist að rúmist innan verksviðs hans.


Þátttaka í vinnuhópum og /eða teymisvinnu og hlutverk

- Situr nemendaverndarráðsfundi þegar fjallað er um skjólstæðinga viðkomandi ef óskað er eftir því.

- Miðlar upplýsingum varðandi sérþarfir nemenda til kennara, annarra starfsmanna skólans og foreldra.

- Er í samstarfi við kennara, aðra starfsmenn skólans og foreldra.

- Er ráðgefandi aðili vegna móttöku nýrra nemenda með fötlun ef deildarstjóri sérkennslu óskar eftir því.


Samskipti

- Þroskaþjálfi er í samskiptum við aðrar stofnanir s.s. Greiningar- og ráðgjafarstöð, Fræðslumiðstöð, Barna og unglingageðdeild, félags¬þjónustu, o.fl. í samráði við deildarstjóra sérkennslu, skólastjóra eða aðra stjórnendur skóla.


Starfslýsing iðjuþjálfa


Iðjuþjálfi vinnur að þjálfun, hæfingu og endurhæfingu nemenda með skerta líkamlega, andlega eða félagslega getu:

  • Fær skjólstæðinga til meðferðar eftir tilvísun;

  • Metur líkamlega, andlega og félagslega getu þeirra til þess að bjarga sér í daglegu lífi;

  • Setur meðferðarmarkmið í samráði við skjólstæðing og aðra starfsmenn skólans;

  • Skipuleggur og annast einstaklingasmeðferð til að bæta aðlögun nemanda, starfshæfni og sjálfsbjargargetu;

  • Velur verkefni sem henta þörfum getu og áhugamálum viðkomandi;

  • Þjálfar m.a. hreyfigetu, vöðvastyrk, samhæfingu, skynúrvinnslu, starfsgetu, einbeitingu, úthald, tjáningu og félagsleg samskipti;

  • Notar vinnu, leikræna tjáningu, handíðir og önnur verkefni til að auka andlega og líkamlega hæfni;

  • Útvegar eða útbýr hjálpartæki og þjálfar nemanda í notkun þeirra;

  • Lagar umhverfið að nemandanum með því að leggja til breytingar í skólaumhverfi;

  • Skráir framvindu meðferðar, hefur samvinnu við annað starfsfólk skólans og aðstandendur nemandans.

Starfslýsing stuðningsfulltrúa


Næsti yfirmaður er skólastjóri

Markmið:   Að taka þátt í því uppeldisstarfi sem fram fer skólanum

þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda.

Starfslýsing

Stuðningsfulltrúi er kennara til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð.  Starfið miðar fyrst og fremst að því að auka færni og sjálfstæði þessara nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum.  Starfið tekur mið af þar til gerðri áætlun sem hefur það að markmiði að draga smám saman úr þörf nemanda/nemenda á stuðningi í þeim tilvikum þar sem það er hægt.


Stuðningsfulltrúi:

- Aðstoðar nemanda/nemendur við daglegar athafnir og virka þátttöku í skólastarfi.

- Vinnur eftir áætlun sem bekkjarkennari hefur útbúið í samráði við fagstjóra sérkennslu, sálfræðing eða annan ráðgjafa.

- Aðstoðar nemanda/nemendur við að ná settum markmiðum samkvæmt aðalnámskrá/einstaklingsnámskrá undir leiðsögn kennara.

- Aðlagar verkefni að getu nemandans samkvæmt leiðbeiningum kennara.

- Ýtir undir færni og sjálfstæði nemenda í námi og daglegum athöfnum t.d. með því að hvetja þá til að gera sem mest sjálfir og hrósa þeim fyrir viðleitni í þá átt.

- Aðstoðar nemendur við að fylgja settum reglum um hegðun, umgengni og vinnubrögð.

- Styrkir jákvæða hegðun nemenda samkvæmt umbunarkerfi og vinnur gegn neikvæðri hegðun, t.d. með áminningum og með því að fylgja nemanda tímabundið afsíðis.

- Fylgist með og leiðbeinir um rétta líkamsbeitingu nemenda, notkun skriffæra o.s.frv.

- Aðstoðar nemanda/nemendur við að klæðast, matast og aðrar athafnir daglegs lífs ef þeir eru ófærir um það sjálfir.

- Leitast við að styðja nemendur í félagslegum samskiptum innan og utan kennslustofu.

- Veitir nemendum félagslegan stuðning með því að hlusta á frásagnir og reynslu þeirra og spjalla við þá þegar aðstæður leyfa.

- Fylgir einum eða fleiri nemendum á ferðum þeirra um skólann, í frímínútum og vettvangsferðum og aðstoðar þá eftir þörfum.

- Situr fag- og foreldrafundi eftir því sem við á.

- Getur eftir aðstæðum einnig sinnt öðrum nemendum í bekknum, m.a. til að kennari geti aðstoðað nemanda sem þarf séraðstoð og til að draga úr sérstöðu nemenda með sérþarfir.

- Annast önnur þau störf sem honum kunna að verða falin af yfirmanni og falla innan eðlilegs starfssviðs hans.

Starfslýsing Skólaliða


Markmið; Skólaliði er þátttakandi í uppeldisstarfi skólans þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda..

- Hann er á frímínútnagæslu.

- Aðstoðar nemanda/nemendur við daglegar athafnir. Ýtir undir færni og sjálfstæði nemenda í námi og daglegum athöfnum t.d. með því að hvetja þá til að gera sem mest sjálfir og hrósa þeim fyrir viðleitni í þá átt.

- Fylgir nemendum með sérþarfir eftir við ýmsar aðstæður, aðstoðar í matsal.

- Er við gæslu og eftirlit á göngum skólans. Aðstoðar nemendur við að fylgja settum reglum um hegðun, umgengni og vinnubrögð.

- Vinnur við ræstingar og annast önnur þau störf sem honum kunna að verða falin af yfirmanni og falla innan eðlilegs starfssviðs hans.


Uppfært í sept 2018
Á döfinni

« Mars »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Næstu atburðir
Skoða alla atburði
Vefumsjón