Drög að stefnu um samskipti við forráðamenn og kennara. Staðfest og farið yfir skólaárið 2017 til 2018. Verður endurskoðað 2021 eða fyrr ef þurfa þykir. 

 

Umsjónarkennari verður í samskiptum við foreldra um þau mál er snerta einstaka nemendur, heimanám og annað sem eingöngu snýr að starfi bekkjarins. Boðið er upp á foreldraviðtöl svo oft sem þurfa þykir en slík viðtöl eru a.m.k. tvisvar á skólaári. Koma foreldrar þá í skólann á fund umsjónarkennara. Umsjónarkennari og foreldrar hafa einnig samband símleiðis eða með tölvupósti eftir atvikum. Í upphafi skólaársins verður kynning á starfsáætlun skólans og á starfinu í hverjum bekk. Nám og gleði er námskynning kennara og er haldið í september ár hvert. Fleiri fundir kunna að verða þar sem rætt er um ákveðin málefni. Annað foreldrastarf er sem hér segir: 

●         

●        Kennarar og skólastjórnendur eru með símaviðtalstíma daglega. 

●        Namfús er upplýsingasíða skólans fyrir foreldra

●        Kennarar senda upplýsingar um starfið í bekknum á Námfús og foreldrar þurfa því að fylgjast vel með þar 

●        Heimasíða skólans er fyrst og fremst upplýsinga- og fréttasíða skólans fyrir foreldra. 

●        Facebooksíða skólans er hugsuð til að koma skilaboðum af ýmsu tagi fljótt til foreldra.

●        Foreldrar eiga að geta sinnt sem flestum erindum sínum við skólann í gegnum námfús 

●        Foreldrar geta, í samráði við kennara, heimsótt skólann og fengið að taka þátt í skólastarfinu.  

●        Ýmsar skemmtanir verða sem foreldrum er boðið á. 

●        Sérstök fræðsla um skólamál er fyrir foreldra yngstu barnanna vorið áður en börnin koma í skólann. 

 

Foreldri getur óskað eftir fundi með kennara í tölvupóst til kennarans. Þeir koma sér saman um fundartíma. Einnig geta foreldrar hringt á skrifstofu skólans og lagt fyrir skilaboð um að kennari hringi í sig. Kennari hringir samdægurs eftir kennslu ef erindið er brýnt en annars í síðasta lagi daginn eftir. Mikilvægt er því að það komi fram hvort erindið er brýnt eða ekki. Foreldrar eru beðnir um að hringja ekki í kennara utan dagvinnutíma, nema brýna nauðsyn beri til.

 

Tölvupóstur til kennara

Kennarar svara tölvupósti foreldra eftir kennslu og að jafnaði inna tveggja daga frá því hann berst. Foreldrar geta ekki treyst því að tölvupóstur sem þeir senda kennara verði lesinn samdægurs og því er betra ef erindið er brýnt að hringja á skrifstofu skólans.

 

Tölvupóstur 

Lögð er áhersla á að kennarar fái vinnufrið í kennslustundum og þurfi ekki að opna tölvupóst né svara farsíma..  Tölvupóstar eru eingöngu notaðir til að senda upplýsingar eða spyrjast fyrir um hagnýt mál. Aldrei ætti að nota tölvupósta til að ræða viðkvæm, persónuleg mál.  Hver og einn kennari ákveður sjálfur hvort hann tekur á móti vinnupósti í farsíma sinn eða ekki. 

 

Hvenær á að nota tölvupóst? 

●        Koma upplýsingum á framfæri 

●        Leita upplýsinga 

●        Hrósa kennara/skóla fyrir það sem vel er gert 

●        Gera athugasemdir um það sem þér finnst miður fara

 

Hvenær á ekki að nota tölvupóst? 

●        Ekki ræða viðkvæm, persónuleg mál í tölvupósti – hringja og panta viðtal 

●        Þegar maður er reiður og illa upp lagður 

●        Tölvupóstur er ekki öruggur - Aðrir geta lesið póstinn 

●        Pósturinn getur “óvart” farið á annað/önnur netföng 

●        Ekki er hægt að eyða bréfi sem hefur verið sent eða breyta því á nokkurn hátt

●        Þegar bréf hefur verið sent er það til, óvíst er að viðtakandi eyði því, heldur geymi það í tölvunni – jafnvel sendi það áfram til fleiri aðila eða prenti það út og sýni fleirum

●        Ekki er 100% öruggt að tölvupósturinn skili sér, frekar en sniglapóstur 

●        Bréf send í tölvupósti hafa verið gögn í dómsmáli hér á landi

●        Hafið tölvupósta ávallt hnitmiðaða og skýra 

●        Ekki senda löng skeyti. Hafðu textann hnitmiðaðan og skýran, þannig að skilaboðin komist klárlega til skila.

●        Viðtakandi getur “lesið á milli línanna” og túlkað póstinn á annan hátt en sendandi hafði ætlast til. Þess vegna þarf textinn að vera skýr og augljós. Varist hálfkveðnar vísur. Trúnaðarmál á ekki að ræða í tölvupósti 

●        Tölvupóst á ekki að nota til að ræða viðkvæm mál 

●        Aldrei senda trúnaðarmál í tölvupósti – þá er betra að hringja eða hittast augliti til auglitis

●        Viðhengi og auglýsingar 

●        Tölvupóstur er einfalt, þægilegt og fljótlegt samskiptaform 

●        Tölvupóstur er ákjósanlegur í almennum samskiptum við einstaka kennara eða skólann 

●        Tölvupóstur er fínn til að koma skilaboðum til skólans 

●        Sendið ekki auglýsingapóst eða ruslpóst á kennara

●        Sýnið alltaf kurteisi 

●        Aldrei láta hanka þig á ókurteisi, dónaskap eða ruddaskap.  Það sem þú lætur fara frá þér í tölvupósti lýtur sömu lögum og annað ritað mál. Varastu því að láta frá þér fara óhróður um fólk og stofnanir, jafnvel þó þér finnist einhver eiga það skilið

 

Facebook og aðrir samskiptamiðlar 

 

Innan skólans gilda samræmdar siðareglur um samskipti við foreldra á samfélagsmiðlum.  Kennarar skólans sem stofna sérstakan Facebook hóp eða aðra sambærilega samskiptahópa fyrir foreldra skilgreina í upphafi tilgang hópsins/síðunnar, hvað á heima þar og hvað ekki. Dæmi: Tilgangurinn með þessum hóp/síðu er að deila hagnýtum upplýsingum um nám og félagsstarf nemendanna í bekknum/árganginum. Hér er deilt upplýsinum og fyrirspurnum um heimanám, upplýsingum og fyrirspurnum um verkefni sem nemendur eru að vinna með í skólanum m.a. ljósmyndum, upplýsingum og fyrirspurnum um kennsluaðferðir. Hér birtast einnig upplýsingar frá bekkjarfulltrúum og frá foreldrafélaginu. Undir engum kringumstæðum er hér fjallað um málefni einstaklinga, hvorki nemenda, foreldra né starfsmanna skólans. 

 

Sími 

Hvenær á að hringja? Foreldrar eru beðnir um að hringja ekki á skrifstofu skólans eða í kennara með skilaboð sem ekki eru brýn t.a.m. að mamma eða pabbi bíði út í bíl, barnið megi fara heim með einhverjum eftir skóla o.s.frv. Sama gildir um tölvupóst með svipuðum skilaboðum. Ganga þarf frá öllu slíku við barnið áður en það fer í skólann. Ef upp koma ófyrirséð tilvik geta foreldrar hringt á skrifstofu skólans. Foreldrar geta ekki ætlast til þess að ná tali af kennara þegar kennslu lýkur t.d. þegar þeir eru að sækja börn sín. Ef þeir þurfa að ná tali af kennara er bent á þær leiðir sem nefndar eru hér að ofan. Kennarar eru með þéttskipaða dagskrá eftir að kennslu lýkur og eru þá að sinna undirbúningi undir kennslu, samstarfi við aðra kennara, fundum með foreldrum og sérfræðingum, kennarafundum og endurmenntun.

 

Kennarar svara almennt ekki í farsíma eða taka við skilaboðum í síma meðan á kennslu stendur.  Kennarar eru með fasta viðtalstíma á stundaskrá þar sem foreldrar geta hringt eða komið til fundar við þá.  Ef málið þolir ekki bið er hægt að óska eftir símtali eða fundi með milligöngu.

 

Heimsóknir foreldra í skólastofur 

Hvatt er til þess að foreldrar kynnist daglegu starfi barna sinna í skólanum, en heimsóknir í skólastofur skulu ávalt vera í samráði og með samþykki viðkomandi kennara.

 

Upplýsingar frá skólanum 

Samráðs- og upplýsingafundir eru haldnir í öllum árgöngum í september undir yfirskriftinni Nám og gleði. Skólinn birtir allar helstu upplýsingar um skólastarfið á heimasíðu sinni m.a. skóladagatal, skólanámskrá, starfsáætlun, samstarfsáætlun foreldra og skóla, starfsmannalista, matseðil o.fl.  Hagnýtar upplýsingar um námsmarkmið, námsmat, heimanám o.fl. eru jafnframt birtar á Námfús þar sem þær eru uppfærðar reglulega af umsjónarkennara og öðrum kennurum sem kenna nemandanum.  Umsjónarkennari sendir foreldrum reglulega helstu upplýsingar um bekkjarstarfið og það sem framundan er í bekknum/hópnum.  Í október og febrúar eru haldnir samráðsfundir/foreldraviðtöl með umsjónarkennara, foreldrum og nemenda þar sem farið er yfir markmið og stöðu nemandans. Á sama tíma gefast einnig tækifæri fyrir nemendur, foreldra og sérgreinakennara að eiga fundi um markmið og stöðu nemandans.  Frekari upplýsingar eru veittar eftir þörfum á fundum, með tölvupósti, gegnum síma eða á samskiptamiðlum.  

 

Skólasel og íþróttaæfingar

Skólasel er fyrir nemendur í 1. – 4. bekk og er eftir skóla á Hlunnó. Foreldrar þurfa ekki að greiða fyrir dvöl Skólasels. Umsjónarmaður Skólaselsins er Jóhanna Ösp Einarsdóttir (johanna@reykholar.is). Ef nemendur óska eftir að sleppa skólaseli þá verður að koma skriflegt leyfi frá foreldum.

 

Ungmennafélagið Afturelding hefur verið duglegt að vera með námskeið fyrir nemendur eftir skólatíma  og er það foreldra að hafa eftirlit með börnunum.

 

Forföll, veikindi og leyfi

Foreldrar þurfa að tilkynna veikindi barna sinna og forföll nemenda ber að tilkynna frá 7:45-8:30 í síma 434-7731 (kennarastofa), 434-7832 (leikskóladeild) eða í tölvupósti til umsjónarkennara eða til aðstoðarskólastjóra leikskóladeildar (leikskoli@reykholaskoli.is). Allar fjarvistir eru skráðar og færðar inn í Námfús. Umsjónarkennari fylgist með skólasókn nemenda og hefur samband ef þurfa þykir.

Foreldrum grunnskólabarna er sérstaklega  bent á að reyna eftir fremsta megni að halda forföllum og leyfum í lágmarki og nýta helgar í Reykjavíkurferðir ef þess er nokkur kostur.

Ef foreldrar vilja biðja um stutt leyfi fyrir nemendur í grunnskólanum (allt að 2 dögum) þá ræða þeir við umsjónarkennara en öll lengri leyfi þarf skólastjóri að veita. Eyðublöð eru á vef skólans undir liðnum skólinn. 

Á döfinni

« Mars »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Næstu atburðir
Skoða alla atburði
Vefumsjón