Móttökuáætlun


Reykhólaskóla

 

Móttaka nemenda í 1. bekk

Foreldrar og væntanlegir nemendur í 1. bekk eru boðaðir í skólann í maí áður en skólaganga nemandans hefst og fá þá kynningu á skólastarfi Reykhólaskóla. Nemendur hitta einnig umsjónarkennara sinn á sama tíma.  Fyrsta skóladaginn sem er jafnframt skólasetning, fylgja foreldrar börnum sínum í skólann og er þeim síðan boðið í morgunkaffi með skólastjóra þar sem gefst færi á óformlegu spjalli um skólabyrjunina. Í september er foreldrum boðið á ítarlega kynningu á starfi skólans og viðfangsefnum nemenda á námskynningunni Nám og Gleði.


 Móttaka nýrra nemenda í 2. – 10. bekk

Í Reykhólaskóla er lögð áhersla á að taka vel á móti nýjum nemendum. Mikilvægt er að nemandinn og foreldrar hans fái strax í upphafi jákvæða mynd af skólanum og að foreldrum og nemendum finnist þeir velkomnir í skólann.

Þegar nýr nemandi er skráður í skólann er honum og foreldrum hans boðið að koma í heimsókn í skólann. Skólastjóri tekur á móti þeim og kynnir skólastarfið og sýnir þeim jafnframt húsnæðið. Ef nemandinn byrjar á miðju skólaári þá heimsækir hann umsjónarhópinn sinn en að hausti hittir hann umsjónarkennara sinn.

Umsjónarkennarar eru beðnir um að hafa samband við heimili nýrra nemenda þegar ein til tvær vikur eru liðnar af skólatímanum. Þá gefst tækifæri til að ræða líðan nemandans og upplifun hans og foreldra af skólanum.

Móttaka nemenda á vegum félagsmálakerfisins

Í Reykhólaskóla er einnig lagt mikið uppúr því að allir sem í skólann koma geti hafið skólagöngu strax og að nemandinn fái góða tilfinningu fyrir skólanum, skólastarfinu og starfsfólki. Þegar fósturbörn eru skráð í skólann tekur við fast ferli sem hefur það að augarmiði að ýta undir jákvæða upplifun nemandans af skólanum.

 

1.         Nemandi byrjar ekki skólagöngu í Reykhólaskóla fyrr en allar upplýsingar um nemandann liggja fyrir, s.s.                  námsferill, mætingar, hegðunarferli og fyrri sérúrræði.

2.         Barnið skal undirbúið eins vel og hægt er af félagsráðgjafa og fósturforeldri/fósturforeldrum þannig að það                    komi sátt í skólann.

3.         Fyrsta daginn komi nemandi með fósturforeldri/fósturforeldrum í skólann, hitti skólastjóra sem kynnir hann              fyrir bekknum, umsjónarkennara og sýnir nemanda skólann.

4.         Nemandinn leysir heimaverkefni þennan dag og skilar inn á þriðja degi. Umsjónarkennari    undirbýr komu                nemandans.

5.         Að öllu jöfnu kemur nemandinn í skólann á þriðja degi.

6.         Ef umsjónarkennari telur þörf á lengri undirbúningstíma en gefinn er hér að ofan getur hann óskað eftir því                við skólastjóra.

7.         Að öðru leiti á almenn móttökuáæltun skólans við um fósturbörn.

 

Móttaka nemenda með annað móðurmál en íslensku

Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf.

 Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.

 

Móttökuáætlun nemenda með sérþarfir

 

Í 9. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 segir:

 

Auk almennrar móttökuáætlunar samkv. 16. gr. laga um grunnskóla skulu grunnskólar útbúa móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir. Í slíkri áætlun skal m.a. gera grein fyrir samstarfi innan skólans um skipulagi kennslunnar, aðbúnaði, aðstöðu, notkun hjálpartækja, skipulagi einstaklingsnámskrá, kennsluháttum og námsmati, hlutverki umsjónarkennara, sérkennara og annarra fagaðila innan skólans og samstarfi við foreldra. Tilgreina skal áform skólans um stuðning við nemendur með sérþarfir við nemendur til félagslegrar þátttöku og virkni í skólasamfélaginu, svo sem í félagslífi og tómstundastarfi skólans. Í slíkri áætlun skal einnig gera grein fyrir samstarfi við aðila utan skólans.

 

Samstarf og skipulag kennslunar, einstaklingsnámskrár,

kennsluhættir og námsmat.

Umsjónarkennari hefur umsjón með móttöku nemenda með sérþarfir í skólann og ber ábyrgð á samstarfi við sérkennara og foreldra, ef nemandi sækir kennslu til sérkennara 50% eða meira hlutfall er sérkennari valinn sem umsjónarkennari barnsins.

Umsjónarkennari, sérkennari og þroskaþjálfi bera sameiginlega ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár þar sem tekið er mið af greiningum/þroskamati viðkomandi nemenda, óskum foreldra og mati starfsmanna á hverjum tíma. Í einstaklingsnámskrá skal tiltekið um námsmarkmið, námsaðstæður, námsefni, námsmat og aðrar aðstæður í skólanum s.s. frímínútur og matartíma Kennslan getur farið fram með eða án stuðnings í almennum bekk, sérkennslu í litlum hópi eða einstaklingskennslu utan bekkjar. Námsmat er til þess að fylgjast með hvernig nemanda tekst að mæta markmiðum einstaklings­námskrár og örva nemendur til framfara. Vitnisburður getur verið bæði með tölum og orðum en umsögn þarf að fylgja með til hvatningar og stuðnings. Nemendur með sérþarfir fá vitnisburð birtan með svipuðum hætti og aðrir nemendur skólans.

 

Notkun hjálpartækja

Ef nemandi þarf á hjálpartækjum að halda við nám sitt verður leitað allra leiða til að hafa þau tiltæk til náms. Hér getur verið um að ræða tölvur og ýmis jaðartæki fyrir tölvur, lestrarforrit, ýmis gagnvirk forrit og fl.

 

Stuðningur til félagslegrar þátttöku og virkni

Sérkennari hefur forystu um samstarf við félagsstarfið.Sérkennari kynnir nemendur með sérþarfir fyrir starfsmönnum félagsstarfsins og leiðbeinir þeim varðandi sérþarfir nemenda. Í vettvangsferðum og lengri ferðum s.s. ferðum í skólabúðir er sérstaklega gætt að því að allir nemendur viðkomandi árgangs geti tekið þátt.

 

Aðbúnaður og aðstaða

Aðstaða og aðbúnaður til sérkennslu er  í samræmi við lög og reglugerðir. Leitast er við að hafa fjölbreytt úrval námsgagna og nýta tölvur og tölvuforrit til náms.

 

Samstarf við aðila utan skólans

Samstarf er við félagsþjónustu Reykhólahrepps, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Barna- og unglingageðdeildina,  og aðra þá sem vinna með viðkomandi börn. Skólastjóri, umsjónarkennari, serkennari, þroskaþjálfi og stuðningsfulltrúi sitja skilafundi og samstarfsfundi eftir þörfum. Sérkennari tekur að sér formennsku í þeim teymum sem eru mynduð vegna nemenda með sérþarfir. Samstarf við foreldra utan teyma eru hefðbundin foreldraviðtöl, samskipti gegnum Námfús, með tölvupósti og/eða símleiðis auk samstarfsfunda eftir þörfum og/eða áætlunum sem gerðar eru.

 


 

Á döfinni

« Mars »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Næstu atburðir
Skoða alla atburði
Vefumsjón