Tenglar

14. febrúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Þorrablótsannáll (revía) 2014

Sveinn Berg Hallgrímsson.
Sveinn Berg Hallgrímsson.

Á þorrablóti Reykhólahrepps 2014, sem haldið var í íþróttahúsinu á Reykhólum laugardagskvöldið þann 25. janúar, var hinn „hefðbundni“ þorrablótsannáll með óhefðbundnu sniði. Að þessu sinni var hann ekki fluttur í einu lagi sem einn dagskrárliðanna heldur var dagskráin ofin úr honum með litlum leikþáttum og söngvum þannig að úr varð eins konar revía (orðið revía er í rauninni franska orðið revue sem merkir að litið sé til baka, rifjað upp). Aðalhöfundurinn var einn liðsmanna í blótsnefndinni þetta árið, Sveinn Berg Hallgrímsson á Skálanesi, en þar naut hann einnig framlaga frá öðrum í nefndinni. Leikur og söngur í innskotsþáttunum var í höndum nefndarfólks við undirleik Steinunnar Ólafíu Rasmus. Sveinn var kynnir og sögumaður í senn nema hvað Steinunn leysti hann af þegar hann var í öðrum hlutverkum. Handrit revíunnar fer hér á eftir.

 

 

Sögumaður / kynnir:

 • Ágætu þorrablótsgestir! Við í áhöfninni viljum bjóða ykkur velkomin í þessa ferð með okkur í kvöld. Við vonum að þið eigið eftir að hafa gaman af. Fyrst viljum við fara yfir nokkrar öryggisreglur í boði Þörungaverksmiðjunnar.
 • (Inn koma íturvaxnar flugfreyjur með venjubundna sýnikennslu við upphaf ferðar).
 • Öryggisútgangar eru tveir, á suðurgafli og austurgafli.
 • (Flugfreyjurnar benda).
 • Svæðið er reyklaust. Við viljum benda reykingamönnum á að vera vel klæddir og njóta útiveru á meðan þörf stendur yfir.
 • (Flugfreyjurnar klæða sig í úlpur og húka hálffrosnar að reykja).
 • Matur verður framreiddur af Lionsmönnum. Ef gestir borða of mikið og finna ólgur í maga, þá er hægt að losa slíkt í hvítar postulínsskálar í þar til gerðum herbergjum hérna fyrir framan.
 • (Ein flugfreyjan beygir sig niður til að gubba en hinar halda um magann).
 • Ef gestum leiðist, þá hvetjum við þá til að fylla glasið og drekka í botn. Þá er oft hægt að sjá hluti í nýju ljósi en gæti haft slæmar afleiðingar fyrir næsta dag.
 • (Flugfreyjurnar hella í glös og drekka í botn og brosa kjánalega).
 • Hvetjum alla að halda sig í fötunum á meðan á skemmtun stendur. Ef einhver þörf kemur upp, þá hvetjum við fólk til að geyma slíkt þar til komið er í annað húsnæði, hvort sem það er í einrúmi eða fleiri saman.
 • (Flugfreyjurnar losa tölur á fötum og hreyfa sig með vissum hætti).
 • Þegar þessari ferð lýkur biðjum við fólk að muna eftir vísdómsorðum fyrrverandi forstjóra Þörungaverksmiðjunnar: Eftir einn ei aki neinn.
 • (Flugfreyjurnar segja nei, nei, nei með handahreyfingum).
 • Takk fyrir og góða ferð.

 

Söngur

 

Hæ, hó, sagði bóndinn,

inn með matinn inn!

Það er að koma þorrablót

inn með matinn inn!

 

 

Sögumaður:

 

Jæja, ágætu þorrablótsgestir, verði ykkur að góðu, nú þurfum við að hefjast handa. Annállinn í kvöld verður ekki með hefðbundnu sniði heldur verður rausað óskipulega og sundurlaust meira og minna í allt kvöld með lítils háttar gauli og örlitlum leikrænum tilburðum.

 

Árið 2013 var íbúum Reykhólahrepps allgott, þrátt fyrir að veðurguðirnir væru ekki alltaf í stuði. Staðviðri í janúar, hlýindi í febrúar það mikil að stöku tún tóku að grænka og einstaka rabbabari ruglaðist í ríminu. Kalt og blautt vor, sólarlítið sumar með löngum vætuköflum, þokkalegt haust eftir að það stytti upp, síðan kvaddi árið með roktíð.

 

Þetta var veðurfarsannállinn okkar, en það hafa nú mörg ár verið verri veðurfarslega heldur en nýliðið ár, við erum bara orðin svo góðu vön.

 

Ekki verður byrjað á að rekja það sem á daga okkar dreif hér í Reykhólahreppi á liðnu ári öðruvísi en að nefna tvær „átveislur“ sem haldnar voru í júlí 2012, því að þær höfðu afdrífarík áhrif fram eftir ári 2013.

 

 • Harpa: Katla
 • Guðmundur á Grund: Styrmir

Harpa (kemur askvaðandi inn á sviðið óðamála): Af hverju er ekki dregið fyrir sviðið? (byrjar að draga fyrir) Hvar er Bolli, er hann ekki mættur? Hann átti að sjá um þetta. (flækir tjaldið utan um sig) Þetta er allt Bolla að kenna! Hvar er Bolli?

Guðmundur (kemur og hjálpar henni að losa sig): Harpa, róleg, róleg, við vorum í þorrablótsnefnd í fyrra.

Harpa (rausar óðamála): Bolli á að sjá um að draga fyrir, eða er hann kominn aftur suður að sitja yfir?

 

 

Sögumaður:

 

Þetta var nú dálítið óvænt. En höldum nú áfram þar sem frá var horfið. Fyrri veislan var haldin 4. júlí þegar sveitarstjórnin grillaði ofan í okkur á 25 ára afmæli hreppsins. Þau gerðu ráð fyrir um 200 manns. Þetta er svo sem ekki í frásögur færandi fyrir aðrar sakir en þær, að þau fólu Gústa að útvega kjötið.

 

Þegar Gústi pantaði kjötið miðaði hann við 200 Gústa. Það var bara ávísun á eitt, gríðarlegt magn af afgangskjöti þrátt fyrir að um 200 manns kæmu í grillveisluna. Öllu þessu afgangskjöti var troðið í frystigeymslu skólans. Þið getið rétt ímyndað ykkur 175 Gústamaga í litlum frystiklefa.

 

Líður svo og bíður fram yfir áramót, að nýráðinn matráður mötuneytis Reykhólahrepps segir upp. Og ástæðan, skoðum það aðeins.

 

 • Inga Birna: Sandra
 • Steinar: Hjalti

(Inga Birna situr við borð í víkingafatnaði, Steinar kemur askvaðandi inn án þess að heilsa).

Steinar: Ég vil hætta sem matráður strax!

Inga Birna: Góðan dag, Steinar, af hverju viltu hætta?

Steinar: Ég er orðinn svo þreyttur (sest).

Inga Birna: Nú, hvers vegna?

Steinar (vælutónn í honum): Ég er dauðþreyttur að klöngrast fram og aftur yfir kjötfjallið, forfærandi, gramsandi og leitandi í 175 Gústaskömmtum. Gjörsamlega orðinn uppgefinn, alveg búinn, verð að hætta.

Inga Birna: Ég legg þetta fyrir sveitarstjórnina hið bráðasta.

 

 

Sögumaður:

 

Heyrum nú dívurnar túlka vælið í Steinari.

 

Ó, ó, æ, æ, aumingja ég,

ó, ó, æ, æ, aumingja ég.

Þau eru alltaf svo vond við mig.

Ég segi ó, ó, æ, æ, aumingja ég.

 

 

Sögumaður:

 

Þess má geta að kjötfjallið entist mötuneytinu fram á vor.

 

Síðari veislan var aðhaldsveisla í boði Sauðfjárræktarfélagsins, haldin í upphafi Reykhóladaganna. Einhverjir voru lengi að jafna sig eftir þessa aðhaldsveislu. Að því verður vikið síðar.

 

Haustið 2012 kom í Reykhólaskóla ung og metnaðarfull skólastýra. Eftir margar tilraunir við að reyna að umbreyta starfsmönnunum komst hún að þeirri niðurstöðu, að orðtakið erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja átti svo sannarlega við. Stýran unga og efnilega gafst ekki svo auðveldlega upp heldur ákvað með sjálfri sér að nú skyldu breytingar eiga sér stað. Hún hefur gengið rösklega fram í breytingum á húsnæði skólans og má þar sjá ráfandi kennarauglur sem vita ekki hvort þær eru að koma eða fara. Við ætlum að líta aðeins inn með sjónvarpsmönnum Stöðvar 2 sem hafa verið duglegir að fylgjast með okkur furðufuglunum hér í hreppi.

 

 • Ásta Sjöfn: Ásta Sjöfn
 • Steinunn: Steinunn
 • Anna Greta: Sandra
 • Kristján: Styrmir

Kristján: Sæl! Ég sé að þú hefur gert gagngerar breytingar á húsnæðinu. Segðu mér, í hvaða rými erum við núna?

Anna Greta: Já, við erum stödd í aðalrými byggingarinnar. Hér var áður íþróttahúsið okkar en með nýjum gömlum húsgögnum bjuggum við hér til skólastofu og hér til hægri var bókasafnið okkar en nú er þar að finna heimilisfræðistofuna og hér fyrir aftan okkur var smíðastofan sem hefur verið breytt í slökunarherbergi fyrir kennara.

Kristján: Glæsilegt! (fyrir aftan ráfa áttavilltir kennarar og ganga á húsgögn og fleira).

Anna Greta: Hér til vinstri er ...

Ásta Sjöfn (tekur upp síma og hringir): Bjarni, við þolum ekki meiri breytingar, þú verður að barna hana, ég skal redda næsta vetri!

 

 

Sögumaður:

 

Þess má geta að það tókst hjá Bjarna.

 

Það eru alltaf einhverjir sem skera sig úr fjöldanum. Sumir virðast t.d. vera þannig að þeir verða alltaf að hafa eitthvað kraftmikið undir sér, og ef ekki undir sér, þá á milli lappanna. Bolli er einn af þeim.

 

Hann vinnur á og rekur stóra beltagröfu og vörubifreið. Þeytist um á sjóskíði sem gengur ekki undir 60 mílum. Keypti gúmmíbát í sumar með öflugasta utanborðsmótornum í sýslunni. Og er nýorðinn formaður björgunarsveitarinnar Heimamanna og rúntar um á stærsta jeppa sveitarinnar.

 

Sandra hlýtur að vera kraftmikil líka ... alla vega fór hún heim á hverju kvöldi að tappa af einhverju meðan við vorum að undirbúa blótið.

 

Kaflann hér á eftir settum við inn eingöngu til að hafa Ástu Sjöfn góða í kvöld.

 

Síðla vetrar bauð Evrópusambandið öllum sveitarstjórnum landsins út til Brüssel á sinn kostnað að skoða allar hallirnar hjá þeim. Sveitarstjórn Reykhólahrepps varð ekki ýkja fiðruð yfir þessu gylliboði, þrátt fyrir að innan hennar finnist jafnvel fleiri en einn stuðningsmaður Evrópusambandsins.

 

Ásta Sjöfn gat þó ekki sleppt því að berja augum öll herlegheitin í fyrirheitna bandalaginu. Þegar hún kom heim gekk hún um í vímu og talaði um að í Brüssel stjórnuðu bara góðu kallarnir og góðu konurnar og að Ísland yrði stórasta smáríki í heimi.

 

Heyrum nú áróðurssöng Ástu Sjafnar.

 

Í ESB er gaman,

þar tala allir saman,

bæði úti og inni

og allir eru með.

Þeir semja lög og reglur,

þið ættuð bara að vita

hvað allir eru duglegir

í sælunni þar.

 

Í Brüssel er voða gaman,

þar eru allir saman,

bæði úti og inni

og allir eru með.

Þeir gefa öllum aura,

þið ættuð bara að vita

hvað allir eru klárir

í paradísinni þar.

 

 

Sögumaður:

 

Þessi söngur var í boði Evrópusambandsins.

 

Það var á útmánuðum, að heilu fjölskyldurnar hér í hrepp fóru að leggja óeðlilega hratt af. Urðu grannar og fitt, hreystin hreinlega skein af þeim. Síðar kom í ljós að þetta hafði ekkert með eitthvað heilsuátak að gera heldur hafði debetkortasendingu til þeirra frá Landsbankanum verið stolið úr pósti. Eftir að bankinn kom nýjum kortum til skjólstæðinga sinna fengu þeir sem urðu fyrir þessu sitt fyrra útlit á ótrúlega skömmum tíma.

 

En snúum okkur nú að öðru ferðalagi, sennilega miklu skemmtilegra heldur en ESB-för Ástu Sjafnar.

 

Kvenfélagið Katla fór í sína árlegu vorferð laugardaginn 13. apríl. Þær lögðu af stað um morguninn í blíðskaparveðri og var heimferð áætluð um hádegi daginn eftir. En hvort það var dagsetningin eða eitthvað annað, þá brast á með bandvitlausu veðri um kvöldið og þær urðu veðurtepptar fram á mánudag. Þetta veður verður í annálum kallað Kötlufárviðrið.

 

Við þetta, að sextán kvenfélagskonur urðu veðurtepptar í sólarhring, fór samfélagið nánast á hliðina, skólahaldi aflýst, mjaltir á Miðjanesi féllu niður, nokkrir sem höfðu ekki jafnað sig eftir að Sauðfjárræktarfélagið hélt aðhaldsveisluna um sumarið fengu snert af anorexíu, m.a. Eiríkur Kristjáns og Karl Kristjáns (ekki bræður). Aðrir grasekklar báru harm sinn í hljóði, reyndu eftir fremsta megni að hafa ofan af fyrir krakkagríslingunum sínum og sinna öðrum verkum.

 

Þegar Eiríkur smiður mætti með börnin í leikskólann eftir þessar hamfarir þótti hann daufur í dálkinn og ræfilslegur, greinilega illa sofinn og svangur. Var drifinn í hann hafragrautur með börnunum og hresstist hann þá furðufljótt.

 

(Um leið: Eiríkur mætir á svið með börnin).

 

En hvað haldið þið að hefði gerst ef sextán karlmenn hefðu orðið veðurtepptir í viku?

 

NÁKVÆMLEGA EKKI NEITT.

 

Lífið hefði bara gengið sinn vanagang.

 

Heyrum nú hvað Kvenfélagið hefur um þetta að segja.

 

Söngur

 

Þeir eru glöðustu, glöðustu, glöðustu karlar í heimi.

Þeim er klappað á hverjum degi og þeir eru að fíla það.

Þeir eru glöðustu, glöðustu, glöðustu karlar í heimi.

Þeir fengu okkar heim og við ætlum að kyssa þá.

 

Þeir hoppa út um holt og hóla,

bæði syngja þar og góla.

Í dag ætla þeir sér bara að dóla.

 

Þeir eru frjálsir og okkur háðir,

bæði elskaðir og dáðir.

Í lífsins skóla hafa margar gráður.

 

Þeir eru glöðustu, glöðustu, glöðustu karlar í heimi.

Þeim er klappað á hverjum degi og þeir eru að fíla það.

Þeir eru glöðustu, glöðustu, glöðustu karlar í heimi.

Þeir fengu okkar heim og við ætlum að kyssa þá.

 

 

Sögumaður:

 

Það var á vormánuðum 2012 að ljóst var að í óefni stefndi með nýliðun í hreppnum. Ef engin börn fæðast fara að koma brestir í skólana okkar, sem eru hjarta samfélagsins. Og ef þar verða hjartsláttartruflanir er okkar litla samfélag ekki vel sett.

 

Oddvitinn okkar hún Adda sá að við svo búið mátti ekki sitja. Fór hún að hvetja unga menn til dáða. Lofaði hún öllum að hún skyldi prjóna peysu á barnið þegar það væri fætt. Villi á Hríshóli varð fyrstur fyrir barðinu á henni. Hann lét ekki segja sér þetta tvisvar og sjúddirallirey, og fór í fjárhúsin. Síðan hefur barnsfæðingum ekki linnt í sveitarfélaginu.

 

Ekki nóg með að börnum rigni niður heldur stjórnar hún líka kyni barnsins með því hvaða lit hún hefur í munstrinu á peysunum. Og svo kynngimögnuð er hún að konur sem hafa ekki getað orðið þungaðar eftir hefðbundnum leiðum eru orðnar óléttar. Nú er ekki öruggt að vera kominn úr barneign eða hafa farið í svokallaða karlaklippingu. Svona kvendi hefði á miðöldum verið brennt á báli fyrir galdra.

 

Kvenfélagið hefur líklega einhverja skoðun á þessu.

 

Söngur

 

Þeir eru gröðustu, gröðustu, gröðustu karlar í heimi.

Þeim er strokið á hverjum degi og þeir eru að fíla það.

Þeir eru gröðustu, gröðustu, gröðustu karlar í heimi.

Þeir heimtu sínar konur og við ætlum að taka þá.

 

 

Sögumaður:

 

Viku fyrir þorrablótið í fyrra fékk Adda meldingu á feisbúk frá Torfa um að ef hún prjónaði einhvers konar fimm arma stjörnugalla, þá stæði ekki á honum að koma með barn. Ha? Stæði ekki ...?

 

Jæja, hvað um það, hún fékk samstarfskonur sínar í lið með sér. Var nú heklað og prjónað í öllum kaffitímum og gallinn afhentur á þorrablótinu þar sem Harpa lék aðalhlutverkið. Rifjum það upp.

 

 • Harpa: Katla
 • Adda: Ásta Sjöfn
 • Torfi: Torfi sjálfur

Harpa (rífur peysuna af Öddu, lyftir henni upp og gólar): Sjáið þið! (hendir peysunni í Torfa) Farðu nú heim með konuna þína og drífðu í þessu og hananú!

 

 

Sögumaður:

 

Allavega svínvirkaði þetta, Björk er komin vel á leið, hvernig sem Torfi fór nú að.

 

Það hendir oft einhverja í hverri þorrablótsnefnd að verða svolítið sjálfhverfir! Frá þorrablótinu í fyrra munum við öll eða flest sem vorum hérna eftir því þegar Erla í Mýrartungu fór að moka fjósið út í haug af mikilli innlifun. Margir sem höfðu verið í sveit á unga aldri stukku út á gólf eða upp á borð og görguðu.

 

(Tveir sitja við borð, annar stekkur upp á borðið, hinn út á gólf, og garga I LOVE IT!).

 

En við hin sem höfum staðið lengi í þessu striti fengum bara í bakið.

 

(Leikararnir skjögra út af sviðinu).

 

En fjóshaugurinn stækkaði, og eftir því sem hann stækkaði varð Jens brúnaþyngri og er hann nú nægjanlega brúnaþungur fyrir, blessaður. Og þegar haugurinn var kominn upp á þak höfðu augabrýnnar sigið ískyggilega langt niður.

 

En lítum nú vestur að Skálanesi og heyrum hvað Kvenfélaginu fannst um vandræðaganginn þar í upphafi heyskapar í sumar.

 

Söngur

 

Aha, ó nei, bara að hann hangi þurr,

aha, ó nei, bara að hann hangi þurr,

aha, ó nei, bara að hann hangi þurr.

Því flekkirnir okkar eru marflatir

og allar vélarnar ónýtar inní skúr.

 

Hvar er legan mín?

Hvar er skinnan mín?

Hvar eru gömlu slitnu fjagra gata dekkin mín?

Hvar er bandið mitt?

Hvar er þetta og hitt?

Hvar er græna greipin, rúllarinn og drifskaftið?

Ég er viss um að það var hér allt í gær.

GÚ, GÚ ...

 

 

Sögumaður:

 

Okkur hefur borist ákall til Hríshólsbænda þar sem bændur og aðrar sólsleikjur biðja þá vinsamlegast að losa sig við vökvunargræjurnar sem þeir fjárfestu í á liðnu vori og stilltu upp á harðbalatúnum sínum. Síðan hefur varla stytt upp.

 

Og í framhaldi af þessu ákalli hafi þeir Villi og Þráinn beðið fyrir svohljóðandi auglýsingu:

 

TIL SÖLU VÖKVUNARDÆLA, svo gott sem ónotuð, selst helst austur á land.

 

Reykhóladagarnir voru haldnir með pompi og prakt dagana 25.-28. júlí og virðist þessi tími sumars henta vel. Var þátttaka íbúanna afar góð, sem sást meðal annars í auknum skreytingum víðs vegar um hreppinn ásamt öðrum uppákomum. Var þetta hin besta skemmtun. Sannast þar máltækið að Guðmundur er manns gaman.

 

Öll höfum við þörf fyrir að hreyfa okkur, bara mismikla. Hrefna Hugós hefur mikla hreyfiþörf. En það getur verið þreytandi að hreyfa sig án sjáanlegs tilgangs, blátt áfram hundleiðinlegt. Hrefna ákvað því að prófa eitthvað nýtt, eða svokallað fríhjólahlaup. Hún stillti bílnum upp í brekku við gamla húsið á Miðjanesi í hlutlausum. Þegar bíllinn var kominn á góðan skrið niður brekkuna ætlaði hún að hlaupa hann uppi. Það tókst ekki og mátti sjá það bæði á hennar bíl og Lóu. Ekki verður mælt með þessari hlaupaaðferð þrátt fyrir sjáanlegan tilgang og adrenalínkikk.

 

Þá eru það feisbúkkfærslur Herdísar, þarf að útskýra það eitthvað frekar?

 

Herdís: Ásta Sjöfn

 • Nóg að gera í dag fórum í fjósið
 • Og mössuðum einn hornstaur
 • Fór með Þórgunni í afmæli
 • Síðan í skírnarveislu og aftur í fjósið
 • Kíkti á girðingargengið
 • Kvöldið endaði á matarveislu hjá tengdó
 • Á morgun verður girt meira og meira og meira
 • Þá er sjöundi kálfurinn kominn og fyrsta lambið
 • Fór í fjósið í morgun, rákum fé á fjall
 • Nú eru allir í sundi og ég að grilla oní liðið
 • Fór í sturtu
 • Karlinn útskrifaður af sjúkrahúsinu
 • Verð að vera góð við hann í kvöld
 • Hann langar að krumpa lakið með mér
 • Endurnærð eftir nóttina og skipti um lak
 • Ætla að skella okkur í sviðaveislu á föstudaginn
 • Þá er það Akranes á laugardaginn með fullan bíl af krökkum á íþróttaæfingu rosa fjör
 • Best að skella sér í fjósið
 • Þá er maður búinn að gera bjúgu
 • Farin að pakka niður
 • Ætla í helgarferð með kalli og dætrum til Akureyris
 • Það verður svaka fjör
 • Fórum í gönguferð
 • Fórum í leikhús sjá Emil í Kattholti
 • Kíktum í kaffi
 • Um kvöldið út að borða á Greifanum með fullt af fólki
 • Kallinn í Borgarnesi og börnin út um allt
 • Á Akureyri, Köben, í partý og hjá ömmu og afa
 • Fór í fjósið, þurrkaði af, ryksugaði og skúraði fyrir hádegi
 • Við erum búin að hafa það rosa gott um jólin
 • Borða og borða svo þess á milli skellt sér í fjós og fjárhús
 • Og borða meira það er bara næs
 • Allavegana stór hluti af okkur búinn að hafa það gott
 • Gústi búinn að vera drepast í bakinu og höfðinu og rassgatinu og bara alls staðar held ég núna í nokkra daga
 • Þórgunnur fékk magapestina rétt fyrir jól
 • Og litla matarlyst öll jólin
 • Og síðan eru þau Gústi komin með magapestina
 • Hvar endar þetta eiginlega
 • Sem betur fer er þetta ár að verða búið og vonandi það næsta betra með þetta heilsufar á liðinu
 • Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir þau gömlu
 • Nýja árið kom með stæl til mín
 • Ælu og niðurgang

 

 

Sögumaður:

 

Ónefndur aðili gaukaði að okkur slitrum af vinnuseðli frá hreppurunum þeim Jóni og Agli sem fannst í eiturefnagámnum. Svohljóðandi texti var læsilegur á honum:

 

Keyrði niður í skóla, kíkti á bilaðan ofn, skrúfaði fyrir hann, sparar heitt vatn. Keyrði niður að sundlaug, sandur í heitupottunum undir meðallagi. Fór upp í Barmahlíð, alltaf á löglegum hraða.

 

Næsta lesanlega efni var eftirfarandi:

 

Óeldaður tófudilkur fannst í moltutunnunni. Sennilega hefur húsmóðirin á Hellisbraut 8 neitað að elda hann.

 

Meira var ekki læsilegt á þessum snepli. En ekki er að spyrja að nákvæmninni hjá Agli. Greinilegt er að allt sem á daga þeirra drífur er skráð samviskusamlega.

 

Gústaf Jökull hefur afskaplega gaman af að segja frá og eru sveitarstjórnarfundir þar engin undantekning. Hafa sumar sögurnar byrjað á orðum eins og þessum: Það var einu sinni maður sem hét Jakob, sem hefðu getað verið upphaf að langri sögu í Gamla testamentinu.

 

Lítum nú inn á sveitarstjórnarfund á liðnu hausti.

 

 • Ingibjörg Birna sveitarstjóri (í víkingafatnaði í þvottabala og með ár): Sandra
 • Gústi: Adda
 • Ásta Sjöfn: Katla
 • Eiríkur: Styrmir
 • Adda: Ásta Sjöfn
 • Sveinn: Hjalti

Krakkar mínir, krakkar mínir,

þegar ég á Karlsey var

komst ég oft í krappan dans,

og eitt sinn hljóp ég beint til lands.

 

Þú ert bara að gabba okkur, þú varst aldrei sjómaður,

í mesta lagi fjósmaður, og hættu svo að ljúga.

Þú ert bara að gabba okkur, þú varst aldrei sjómaður,

í mesta lagi mathákur, og hættu svo að ljúga.

 

Krakkar mínir, krakkar mínir,

þegar ég var að saga út

sló ég rafmagninu út í Kína

og það var alveg rosa stuð.

 

Þú ert bara að gabba okkur, þú varst aldrei sjómaður,

í mesta lagi fjósmaður, og hættu svo að ljúga.

Segðu frekar eins og er, þegar þú varst að tína ber,

og Herdís greyið kasólétt heyrði þessa frétt.

 

 

Sögumaður:

 

Staðsetning flotbryggju á Reykhólum olli deilum innan stjórnsýslu Reykhólahrepps. Skipulags- og bygginganefnd samþykkti staðsetningu bryggjunnar, en í sveitarstjórn var Gústi ósammála þeirri staðsetningu, vildi færa hana um 15 cm og 4 mm til suðvesturs með tilheyrandi brauki og bramli. Lítum nánar á þetta.

 

Gústi (syngur): Krakkar mínir, krakkar mínir, þegar ég á Karlsey var ...

Adda: Stopp stopp Gústi, nú er sögustundinni þinni lokið og við verðum að fara að vinna.

Ingibjörg Birna: Já strákar, getið þið ekki farið að ákveða ykkur svo ég geti lagst að bryggju?

Sveinn: Jú, ég held að ég sé sammála Gústa.

Adda: Sveinn, ætlar þú að fella eigin tillögu?

Sveinn: Já, nei, jú annars, ég held að hún lúkki betur þar sem Gústi vill hafa hana.

Gústi: Frá mínum bæjardyrum séð er þetta alveg kristaltært í mínum huga.

Adda: Er þá komin niðurstaða í staðsetninguna hjá okkur? Eiríkur ... Eiríkur ... HREINN ...

Eiríkur: Já.

Adda: Ertu sammála Gústa og Sveini?

Eiríkur: Nei, ég ætla að halda mig við tillöguna hans Sveins.

Adda: Eiríkur, þú hefur alltaf allt á hornum þér. Björk ... nei ég meina Ásta Sjöfn, eigum við ekki bara að sitja hjá svo Ingu Birnu reki ekki til Noregs?

Ásta Sjöfn: Já, jú, endilega.

Ingibjörg Birna: Má ég þá koma að landi núna? Áður en knörrinn sekkur ...?

Allir: Já komdu strax.

 

 

Sögumaður:

 

Langvinsælasti sjálfstæðismaður landsins kom í heimsókn til okkar í haust. Fékk að borða, rölti um helstu stofnanir, klippti á borða í nýju saltverksmiðjunni og fór í burt. En opnunarhátíð Norðursalts hélt áfram og hlýtur að hafa verið skemmtileg því fáir muna nokkurn skapaðan hlut eftir henni nema helst af myndum. Þó er eitt víst, að undir morgun voru gestir og gangandi farnir að tala tungum og eru ennþá talaðar ýmsar tungur þar á bæ.

 

En þeir Garðar og Sören munu hafa gert ein reginmistök í haust þegar þeir fóru fram á að Margrét Þórhildur Danadrottning efndi ævafornt loforð frá konungsveldinu um styrk til saltverksmiðjunnar. Þeir báðu Egil á Mávavatni að semja bréfið.

 

Fjallskilanefnd og sveitarstjórn Reykhólahrepps funduðu um fjallskil án átaka þetta árið. Fjallskilanefnd kom leitarseðli saman á einum stuttum fundi og líklega hefur formanninum ekki orðið brátt í brók að þessu sinni. Sveitarstjórn samþykkti hann án mikilla pústra, þrátt fyrir fáa stuðningsmenn sauðfjárræktar í hreppnum.

 

Leitir gengu almennt vel fyrir sig, þó sváfu sumir smalarnir hans Nóra á Heiðum uppi en hefðu betur sofið heima og sparað öðrum smölum leitina að þeim. Einnig hefði Nóri betur skilið hrossið sitt eftir heima en hann dró það á eftir sér alla fyrri leitina en gafst ekki upp og hélt uppteknum hætti í seinni leit með hrossið í eftirdragi. Hvort Jesúlúkkið á bóndanum hefur gert hann svona meyran að hann hafi ákveðið að hlífa hrossinu skal ekki lagt mat á hér.

 

En þá daga sem veiða mátti rjúpur í haust var í mörg horn að líta hjá Stjána á Stað í rjúpnaveiðieftirlitinu. En eftir að Eiríkur smiður tapaði byssunum sínum ákvað Stjáni að kenna Eiríki hvernig á að ná sér í rjúpur án mikillar fyrirhafnar. Heyrum nú eftirlitssönginn hans Stjána.

 

 • Stjáni: Hjalti
 • Eiríkur: Styrmir
 • Rebekka: Adda
 • Veiðimenn: Sandra og Katla

Úúú ...

Hér mætir Stjáni á Stað

sem góðan kíki á,

með mjúkan belg og mektarsvip

sem allir vilja fá.

Ég ligg í leyni þétt

við lágan runn og klett.

Ef lykt ég finn af rjúpnaskyttu,

hún er löngum illa sett.

 

Ha, ha ...

En usss, usss ... í mosa skrjáfið heyri,

sjá veiðikarlinn læðist þar hjá steini,

hver hafi hljótt um sig

en hérna fel ég mig.

Hinn litli montni veiðikarl nú mætti vara sig.

Ha, ha ...

 

Rebekka: Farðu nú að draga björg í bú Stjáni minn (slær hann í bakið). 

Stjáni: Úúú ... Látið ekki eins og þið séuð ekki þarna, ég sé ykkur vel ... (rjúpnaskytturnar fara niður á hnén með spenntar greipar) Heyrðu Eiríkur, þegar búið er að ná rjúpnaskyttunni, þá tekur þú rjúpurnar af veiðimanninum og rukkar hann því næst um fimm þúsund krónur fyrir stykkið. Ha, ha, ha ... Síðan getur tengdapabbi selt rjúpurnar reyktar, nýjar eða saltaðar á uppsprengdu verði. Ha, ha, ha ... Þannig getur þetta orðið fín þénusta. Ha, ha, ha ... En ef grimmu rjúpnaræningjarnir hlýða ekki, þá hótarðu að siga löggunni á þá, það bregst aldrei. Ha, ha, ha ... (Stór ávísun læðist inn á sviðið og Stjáni tekur við. Á henni stendur SÁTTARGREIÐSLA).

Eiríkur: Já, þessi veiðimennska gæti stytt biðina eftir hreindýrunum mínum.

Stjáni: Eiríkur, þú heldur á rjúpunum, ég tek tékkann. Ha, ha, ha ...

 

 

Sögumaður:

 

Því miður varð bruni hér á Reykhólum í haust en sem betur fer urðu ekki slys á fólki þó að umtalsvert eignatjón yrði. En það getur tekið sálartetrið einhvern tíma að jafna sig. Frammistaða slökkviliðsins var með ágætum þrátt fyrir nokkra hnökra. Fyrst heyrum við smá söngskýringu hjá Kvenfélaginu en síðan verður atburðarásinni lýst í grófum dráttum að hætti hússins.

 

Söngur

 

Það voru

Gummi á Grundinni

og Bjarni á krananum

og Steini af brautinni

og Artúr Pólverji

og Ágúst úr saltinu

og Torfi á Björkinni

og allir ruglaðir

en ekki ég.

 

 • Steini: Svenni
 • Bjarni: Hjalti
 • Guðmundur: Styrmir
 • Gústi: Adda
 • Eldkveikir: Sandra

(Bjarni er heima hjá Steina).

Steini: Heyrðu Bjarni, finnst þér ekki að við þyrftum að halda æfingu?

Bjarni: Jú alveg endilega (síminn hans hringir) Halló? (smáþögn) Kviknað í? Ertu að meina útkall?

Steini (stynur upp): Er þetta æfing?

Bjarni: Nei, þetta er alvöru!

Steini: Þá verðum við að sækja slökkvibílinn (hlaupa út af sviðinu, koma strax aftur á slökkviliðsbílnum með brunahana og slöngubút).

Bjarni: Tengdu slönguna við brunahanann með þessu tengi.

Steini (prófar að tengja slönguna við hanann): Ég þarf ekki þetta tengi, slangar passar beint á hanann (hendir stykkinu út af sviðinu).

Steini: Vatnið er að koma! (Guðmundur sprautar vatni framan í sig með vatnsbyssunni, einhver kveikir á kveikjara og heldur á honum, Gústi kemur með slökkvitækið og blæs á logann).

Steini: Hjúkkett, það var eins gott að Gústi kunnti á slökkvitækið.

Bjarni: Annars hefði allt þorpið brunnið til kaldra kola.

 

 

Sögumaður:

 

Þörungaverksmiðjan hélt árshátíðina að þessu sinni úti í Glasgow, sem er frábær upplyfting fyrir starfsfólkið. Við reiknum með að allir hafi ætlað að hafa gaman og skemmta sér, en misbrestur getur orðið þar á og þá öðrum oft til ama. Heyrum fréttina af djamminu úti þar í flutningi Kvenfélagsins.

 

Ekki fara að vola, Artúr minn,

því ég er ekki að drekka í fyrsta sinn.

Þó Beggi þurfi að djamma

þá getur þú sofið rótt.

 

Ekki fara að sofa Jói hér,

því ég vil bara að þú komir með mér.

Því Beggi þarf að djamma,

Beggi þarf að djamma í nótt.

 

Þarf að hitta þjónana

og klípa og bíta í rassana

og láta þá henda sér svo út.

Beggi þarf að djamma í nótt.

 

Farðu nú að sofa í koddann þinn,

já farðu strax að sofa í hausinn þinn.

Þó allir séu fullir,

þá getur þú sofið rótt.

 

Þó Eggert sé sem algert þrumuský

er óþarfi að gera mál úr því.

Þó Beggi þurfi að djamma,

Beggi þurfi að djamma í nótt.

 

Þarf að hitta þjónana

og klípa og bíta rassana

og láta þá henda sér svo út.

Beggi þarf að djamma í nótt.

 

 

Sögumaður:

 

Þá er það kaffivélin. Sko, þetta er engin venjuleg kaffivél, nei, þetta er nefnilega kaffivélin í Barmahlíð. Stýrurnar ákváðu að afþakka jólagjafirnar frá sveitarfélaginu til handa starfsfólkinu, nú skyldi keypt kaffivél fyrir hýruna, og ef einhver drekkur ekki kaffi þarna innandyra, þá er bara að byrja á því eða vera í fýlu. Var nú keypt flottasta og fullkomnasta kaffivélin sem fannst á landinu. En þegar átti að fara að nota hana kom babb í bátinn, því það var ekki nokkur leið að láta hana virka eðlilega, bara alls ekki nokkur leið. Nú voru góð ráð dýr, eiginlega rándýr. Eftir ótal uppáhellingar með köldu, römmu og ógeðslegu kaffi var ekkert annað að gera en að ræsa út SAS-liðið.

 

Var nú haft samband við rafeindavirkja og tölvuforritara. Og viti menn, eftir langar kennslustundir og strangar æfingar virkaði kaffivélin loksins eðlilega og eftir þúsund og eina uppáhellingu kom heitt og ilmandi kaffi. En þá voru kaffibaunirnar búnar.

 

Vegna kostnaðar var stofnuð kaffiterían Kaffitár og er sú nafngift tvíþætt. Sjá má enn þann dag í dag tár á hvarmi hjá einstaka starfsmanni, eðlilega, þegar séð er á eftir góðum bita af feitu svíni. Hins vegar eru baunirnar svo dýrar að það verður bara sett eitt lítið tár í hvern bolla.

 

Einhverjir kunna að muna eftir gömlu konunni með göngugrindina sem kom með jólakortin sín fyrir nokkrum árum í póstkassann í Hólakaupum og leysti það á snilldarhátt þrátt fyrir að búið væri að flytja jólakortapóstkassann í Barmahlíð. Þetta getur ennþá vafist fyrir gömlum og gleymnum körlum. Lítum nánar á það.

 

 • Gamall maður með staf: Svenni
 • Eyvi (bograr við hillu með plömmer í óléttubuxum og smellir þeim upp áður en gamli maðurinn getur troðið kortinu í rifuna): Ásta Sjöfn
 • Harpa (situr í kaffihorninu): Katla

(Spuni).

 

 

Sögumaður:

 

Fólk hefur fullan rétt á að flytja í burtu, en það er alltaf eftirsjá í góðu fólki og tilfinnanlegra er það í jafnfámennu sveitarfélagi og okkar. Heyrum nú harmagrátinn í flutningi Kvenfélagsins.

 

Það var á þessu ári

í mesta vætufári

þegar allir héldu áfram að dunda sér.

Allir vildu slugsa,

þá fór ég að hugsa:

Hva býr bara enginn lengur hér?

Koddu aftur Kjarri stóri,

koddu aftur Einar stjóri,

hér vantar meiri mannskap strax!

Koddu aftur Silla bredda,

koddu aftur Ebba gredda,

er enginn hérna nú til taks?

Nú er ég eftir aleinn

þarf að vera kafteinn

og líka heyja fyrir bændurna

klippa í sundur hárið,

eiga allt barnafárið.

Öllu í verksmiðjunni umturna.

Koddu aftur Hrefna Steinu,

ekki fara öll í einu,

mig vantar einhvern mér til taks.

Koddu aftur Bjössi dúkka,

koddu aftur Hafdís hjúkka,

og Elísabet, komið strax!

 

(Svo breytist takturinn eins og í laginu). 

 

Svo ég bað um að fá prjónapeysur en þá

varð hún Adda rosa hress:

Ég ætla ekki meira að segja bless.

Oddvitinn kemur inn

með prjónakassann sinn

fjölgun fær hreppsbúinn

hvítvoðunginn sinn,

afkvæmin arðinn sinn

setja á bankareikninginn.

 

 

Sögumaður:

 

Ný nefnd kölluð upp! Í henni eru:

 • Málfríður Vilbergsdóttir
 • Svanborg Guðbjörnsdóttir
 • Herdís Erna Matthíasdóttir
 • Guðrún Guðmundsdóttir
 • Einar Valgeir Hafliðason
 • Karl Kristjánsson
 • Eyvindur Svanur Magnússon
 • Ólafur Einir Smárason

 

Ef einhverjum finnst að framhjá sér hafi verið gengið viljum við biðja hlutaðeigandi afsökunar. En aftur á móti ef einhverjir eru sárir við okkur yfir útreiðinni í kvöld verða þeir að láta reiði sína bitna á næstu nefnd. Við erum hætt!

 

 

__________________________________________

 

Þorrablótsnefndina 2014 skipuðu (í stafrófsröð):

 • Andrea Björnsdóttir
 • Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir
 • Hjalti Hafþórsson
 • Katla Ingibjörg Tryggvadóttir
 • Sandra Rún Björnsdóttir
 • Steinunn Ólafía Rasmus
 • Styrmir Sæmundsson
 • Sveinn Berg Hallgrímsson

 

Sjá einnig:

Myndir frá þorrablótinu 2014

Blaðið Þorri og myndbandið Tveir vinir

 

Athugasemdir

Vilhjálmur Arnórsson, fstudagur 14 febrar kl: 21:36

Þetta var skemmtileg lesning. Gaman að geta lesið þetta með söngtextum og atriðunum fyrst maður hafði ekki tök á að mæta á Þorrablót þetta árið.

Jenný Bára Sigurðardóttir, sunnudagur 08 september kl: 16:35

Fáðu fyrrverandi elskhuga þinn aftur brýn Ekki missa hann! Drigbinovia hefur hjálpað þúsundum kvenna og karla við að fá hjónaband sitt aftur með raunverulegum árangursríkum ástum sínum. Ég er Jenný Bára Sigurðardóttir frá Akureyri, en ég flyt til Sviss. Eftir 12 ára hjónaband hefur ég og maðurinn minn lent í einni deilu / baráttu eða hitt þar til hann loksins yfirgaf mig og flutti til Kaliforníu til að vera með annarri konu. Ég fann að lífi mínu var lokið og börnin mín héldu að þau myndu aldrei sjá föður sinn aftur. Ég reyndi að vera sterk bara fyrir börnin en ég gat ekki stjórnað sársaukanum sem kvelur hjarta mitt, hjarta mitt fylltist sorgum og sársauka vegna þess að ég var virkilega ástfanginn af manninum mínum. Á hverjum degi og nótt hugsa ég til hans og vildi alltaf að hann gæti komið aftur til mín, ég hafði virkilega áhyggjur og ég þurfti hjálp, svo ég leitaði eftir hjálp á netinu og ég rakst á vefsíðu sem benti til að Drigbinovia gæti hjálpað til við að fá Ex eiginmann aftur hratt aftur . Svo að mér fannst ég ætti að prófa hann. Ég hafði samband við hann og hann sagði mér hvað ég ætti að gera og ég gerði það þá gerði hann Love spell fyrir mig. tveimur dögum seinna hringdi maðurinn minn í raun til mín og sagði mér að hann sakni mín og krakkanna svo mikið, svo magnað !! Svo var það hvernig hann kom aftur sama dag, með miklum kærleika og gleði, og hann baðst afsökunar á mistökum sínum og sársaukanum sem hann olli mér og krökkunum. Síðan frá þeim degi, hjónaband okkar verður nú sterkara með hverjum deginum en áður, allt þökk sé Drigbinovia. hann er svo öflugur og ég ákvað að deila sögu minni á internetinu að Drigbinovia er raunverulegur stafsetningarstjóri sem ég mun alltaf biðja um að lifa lengi til að hjálpa börnum sínum í vandræðum, ef þú ert hérna og þú þarft fyrrverandi elskhuga þinn eða bjargaðu hjónabandi þínu hratt. Ekki gráta lengur, þú getur líka haft samband við Drigbinovia Sendu honum tölvupóst á netfangið doctorigbinovia93@gmail.com eða WhatsApp honum
 í síma +2348144480786 góðvild þín gleymist aldrei.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31