Tenglar

13. febrúar 2015 |

Þorrablótsannáll 2015 með ívafi

Atkvæðatalningin: Ólafur Einir, Herdís Erna og Lóa á Kambi.
Atkvæðatalningin: Ólafur Einir, Herdís Erna og Lóa á Kambi.
1 af 9

Annállinn var fluttur á blótinu á Reykhólum 24. janúar. Höfundur og flytjandi var Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli, fyrir utan leikþáttinn Atkvæðatalninguna sem Svanborg Guðbjörnsdóttir á Kambi (Lóa á Kambi) samdi og braginn um nýju sveitarstjórnina sem Einar Hafliðason í Fremri-Gufudal orti. Leikendur í Atkvæðatalningunni voru Ólafur Einir Smárason og Herdís Erna Matthíasdóttir á Reykhólum og Lóa á Kambi. Bragina um gömlu sveitarstjórnina og þá nýju sungu Þráinn Hjálmarsson á Hríshóli og Einar Hafliðason í Fremri-Gufudal, auk þess sem hann lék undir á gítar. Myndirnar sem hér fylgja frá undirbúningi og æfingum tók Sveinn á Svarfhóli.

 

________________________________

 

Það hefur seinni árin verið plagsiður hér í Saurbænum að sækja fólk í þorrablótsnefnd vestur fyrir Gilsfjörð. Í fyrra tók þó steininn úr því þá vorum við tilnefnd  tvö. Bára á Gróustöðum var harðari af sér en ég, og aftók með öllu að koma nálægt þessu, en nóg um það.

 

Arnar í Stórholti er með stærri - haaa?

 

Úps - hef ég nú farið annálavillt - eða húsavillt? Gerir það annars nokkuð til? Þið komið bara í Tjarnarlund til að heyra Reykhólasveitarannálinn.

 

Jæja, hann er víst hérna.

 

Þetta verður eins og venjulega, þið þekkið þetta, ekki í neinni tíma- eða atvikaröð og ekkert sérstaklega verið að elta ólar við það sem sannara reynist.

 

Maður heyrir og sér stundum í opinberri umræðu, að menntunarstig á landsbyggðinni sé lægra en í þéttbýlinu, og þá helst á Vestfjörðum, og þar eru sunnanverðir Vestfirðir fyrst nefndir, austurhlutinn, og sérstaklega er tekið fram að menntun sé áfátt meðal kvenna. Þetta eru sem betur fer kyrfilega úrelt vísindi. Hér hefur fólk verið duglegt að afla sér menntunar af ýmsu tagi, og konur þar í meirihluta. Á annan tug kvenna hafa nýverið lokið prófum eða eru í námi.

 

Sem dæmi má nefna að Guðrún Guðmunds er að læra til þjófs, og fékk sérstakt bréf upp á að hún væri ekki tossi, undirritað af Vilhjálmi Egilssyni. Aldís er að læra til kennara, Agnes er útskrifaður sjúkraliði.

 

Malla er með próf upp á vasann í fótaaðgerðafræði, hún semsagt heflar tréfætur og sagar í rétta lengd. Það kemur sér líka vel þegar sárfættir norskir smalar koma af fjalli.

 

Anna Greta kláraði masterspróf og Áslaug er alltaf að ljúka mastersritgerð, ekki alveg ljóst hvort þær eru svona margar eða hvort það er alltaf sú sama.

 

Svana var í sjúkraliðanámi og fékk afhent skírteini ekki fyrir löngu. Mynd birtist á Facebook af Svönu stoltri með skírteinið, og þar blasti við að á skírteininu stóð stórum stöfum „landlæknir“! Hún er þá líklega nýi landlæknirinn. Það er ekki ónýtt hjá Tuma að hafa ítök bæði hjá landlækni og yfirdýralækni.

 

Ferðaþjónusta hefur einhvern veginn ekki komist á almennilegan skrið hérna þó margt gott hafi verið gert. Í vor leit út fyrir að Bjarkalundur yrði ekki opinn í sumar, en svo rættist úr því, og kannski frásagnarverðast að litlar framkvæmdir voru þar, ekki allt útgrafið eins og til stæði að reisa stóriðju á staðnum. Þannig að þarna var sæmilega aðlaðandi.

 

Því miður sá Björn Sam sér ekki fært að reka Eyjasiglingu lengur í bili og seldi Súluna í vor. Samt var búin að vera auglýsingaherferð í sjónvarpinu, þar sást Bjössi baða sig í náttúrulaugum úti í Breiðafjarðareyjum ásamt íturvöxnum konum, þar sem bókstaflega ljómaði af honum.

 

Einhver biðstaða er í Álftalandi, en það færir Lóu á Miðjanesi kannski fleiri gesti ... svo það er ekki alslæmt fyrir alla.

 

Það eru ýmsar leiðir til að fá ferðamenn til að staldra við, það er hægt að bjóða upp á afþreyingu eða dekur af einhverju tagi (eins og þaraböðin), eitthvað skrítið (eins og Grund og Seljanes), eitthvað sögutengt (eins og Báta-og hlunnindasýninguna), eða bjóða upp á aðstöðu til að sinna frumþörfum, næringu, hvíld. Og sums staðar er vakin athygli fólks á möguleikum að komast á salerni.

 

Við ferðaþjónustuna í Djúpadal hefur hingað til ekki þurft að spá sérstaklega í þetta, þar til fyrir nokkrum missirum að Leifur og Systa fóru að taka eftir hvítum - eða ljósum - veifum á réttinni fyrir utan ána. Þegar þau könnuðu málið blasti við að þarna hafði einhver gengið þarfinda sinna í réttinni. Sveitafólk kippir sér nú ekki upp við svona, hefur alveg skilning á að það getur skyndilega þurft að bjarga brók, en þegar þau veittu því athygli að rútur stoppuðu þarna til að hleypa út fólki í þessum erindagjörðum, þá minnkaði heldur umburðarlyndið. Og hvað gerir fólk þegar það kærir sig ekki um svona heimsóknir? Jú, það setur upp skilti eða bannmerki: Bannað að kúka! Hér erum við kannski komin að spurningunni Er allt leyfilegt sem ekki er sérstaklega bannað, eða er allt óheimilt þegar ekki hefur verið veitt sérstakt leyfi - frá Leifi?

 

Snemma á síðasta ári voru Hólakaup auglýst til sölu, en sárafáir sýndu áhuga. Eyva fannst umhugsunarvert að heimamenn virtust alveg áhugalausir um að fjárfesta í búðinni því þetta gæfi vel af sér.

 

Mögulega gæti verið hluti af skýringunni að hann hafði talað um að þetta væri gríðarleg vinna, mikil binding og óforsvaranlegt álag á fjölskylduna. Hver lítur við þannig vinnu?

 

Þegar líða tók á árið gaf Ólafía það út, að ef enginn tæki við yrði lokað um áramót, og sú varð raunin. Eyvi var reyndar fyrir nokkru hættur að starfa í búðinni því hann var kominn á fullt við að koma á fót ferðaþjónustufyrirtæki, VIP tours, og ætlar að bjóða upp á rútuferðir um Vestfirði. Það er bæði frjálsleg og fjölskylduvæn vinna. Svo gæti hann auðvitað boðið fólki sætaferðir til Hólmavíkur í verslun.

 

Fjallskil eru eitt af lögboðnum verkefnum sveitarfélaga og er þeim málaflokki sinnt af mikilli natni hér. Fjallskilanefnd er fjölmennasta nefndin á vegum hreppsins - í henni sitja fimm fulltrúar, í öðrum nefndum þrír. Hennar hlutverk er að funda einu sinni á ári og gefa sveitarstjóra fyrirmæli um að ganga frá fjallskilaseðli. Inga Birna hefur ekki dregið af sér við það frekar en annað, seðillinn er nærri 30 blaðsíðna plagg. Til samanburðar má geta þess að í Laxárdal í Dölum er seðillinn eitt A4 blað ... að vísu prentað beggja megin. Ástæður þess hvað seðillinn er stór og flókinn hér eru að nokkru leyti landfræðilegar. Svo eru í honum nokkrir kaflar um það hve skemmtilegt er að smala, en hvergi tekið fram að féð skuli vera í nátthaga við rétt að morgni réttardags.

 

Sveitarstjórnarkosningar voru í vor.

 

Sumir vilja eflaust meina að við höfum verið heppnari á héraðsvísu en landsvísu, ef svo má segja, því hér urðu stjórnarskipti á liðnu sumri. Af tillitssemi við sveitungana gaf enginn úr fyrri sveitarstjórn kost á sér aftur, og Egill til viðbótar. Eins og þið vitið voru engir framboðslistar hér, heldur persónukosning eða óhlutbundin kosning. Það gerir vinnu við talningu atkvæða flóknari og þarf kjörstjórn stundum að gaumgæfa kjörseðlana vel til að úrskurða um hver á að hljóta atkvæði, því kjósendur eru ekki alltaf vissir um hvað fólkið heitir sem þeir treysta best til að fara með stjórn hreppsins.

 

 

Leikþáttur: Atkvæðatalningin

Höfundur: Lóa á Kambi

Leikendur: Ólafur Einir, Herdís Erna og Lóa á Kambi

 

(Kjörstjórnin situr að talningu, Áslaug les á kjörseðlana, Steina og Dalli fylgjast með)

Áslaug: (les) Vilberg Þráinsson, Ágúst Gröndal, Bjarni túrbó.

Dalli: Já, Bjarni túrbó, það hlýtur að vera kraftur í honum!

Steina: Sem sagt Bjarni Þór. (Áslaug og Dalli kinka kolli)

Áslaug: Vilberg Þráinsson, Toggi Framsókn.

Dalli: Framsókn? Það hlýtur að vera Toggi á Höllustöðum.

Áslaug: Vilberg Þráinsson, konan í húsinu ...

Dalli og Steina: Konan í húsinu??

Áslaug: Verið þið nú róleg, konan í húsinu við hliðina á húsinu hans Mumma Sigvalda.

Steina: Hægra megin eða vinstra megin?

Dalli: Höfum það hægra megin ef við horfum á húsið. Sandra Rún. (kinkar kolli)

Áslaug: Vilberg Þráinsson, Nonni þaratafla??

Dalli: Nonni þaratafla já.

Steina: Það er hann Jón Árni minn!

(Tjaldið fellur)

 

 

Áðan minntist ég á ferðaþjónustu, en gleymdi þá að tala um hvað fagþekking á henni er nauðsynleg. Við búum nú svo vel að hafa í okkar hópi manneskju sem kann til verka þar ... og víðar. Já, ég meina Hörpu, hún útskrifaðist í vor með BS-gráðu í alþjóðlegum ferðamálastjórnunarfræðum frá Oxford Brookes á Stóra-Bretlandi.

 

Hún veitir forstöðu Báta- og hlunnindasýningunni, upplýsingamiðstöðinni, eldar stundum í Barmahlíð, er sundlaugarvörður, bókasafnsstjóri, afleysingakennari í skólanum, sér um ýmsa viðburði í héraðinu, mjólkar kýr og gefur á Stað og margt fleira tilfallandi. Svo þegar hún hefur ekkert fyrir stafni, þá skreppur hún í útreiðartúra með Indu, eða tekur myndir af hundunum. Oftast hefur hún ekkert að gera eftir miðnætti, þá tekur hún næturvaktir í Barmahlíð. Hún á líka kött sem hún fann á förnum vegi, sem er mjög gott fyrir köttinn, en það hefur sýnt sig að ungar konur sem búa einar með kött eru í nokkurri hættu að pipra.

 

Það er orðinn árlegur viðburður að það komi út bækur tengdar fólki og staðháttum í héraðinu. Seint á síðasta ári kom út bókin Hjalla meður græna, það er byggðasaga A-Barð síðustu 112 árin, eða megnið af þeim tíma sem Kalli hefur setið í hreppsnefnd. Í þessari bók stendur að hann hafi fyrst tekið sæti í sveitarstjórn árið 1886 og setið óslitið til 1987, og flest ár síðan. Bókin er hið fróðlegasta rit, eins og þið heyrið, hún vegur um það bil 1,6 kg í nettu náttborðsbroti. Þar kemur líka fram að engin landamerki eru milli Skóga og Kinnarstaða, hins vegar eru skýr landamerki milli Kinnarstaða og Skóga.

 

Sveitarinnar er getið líka í bók sem kom út um svipað leyti og heitir Íslensk bæjarfjöll. Það er svona spádómsrit, því þar erum við talin með Dalabyggð.

 

Öll munum við eftir peysunum hennar Öddu. Þegar ný hreppsnefnd tók til starfa og Kalli hafði verið valinn oddviti, þá tilkynnti hann að hann vildi ekki neinu barni svo illt að hann færi að reyna að prjóna á það. Samt vildi nú sveitarstjórnin endilega halda þeim góða sið að færa nýfæddum íbúum einhvern glaðning. Það varð úr að Áslaug og Sandra tóku málið í sínar hendur og útbjuggu að finnskri fyrirmynd svokallaðan startpakka. Hann er ákaflega heppilegur ef bíllinn verður rafmagnslaus; í honum eru startkaplar, ennisljós, vinnuvettlingar, endurskinsþríhyrningur og eldingavari á barnið. Og svo skemmtilega vildi til að fyrsta barnið sem fékk svona startpakka kom hjá Ágústi Má og Sigrúnu.

 

Svo er alltaf að bætast í hópinn; Ásta Sjöfn og Guðmundur eru orðin grandforeldrar.

 

Þegar síðasti fundur fráfarandi hreppsnefndar var haldinn gerðist dálítið skemmtilegt. Mæður allra barnanna sem Adda gaf peysur tóku sig saman og gáfu út bók með myndum af öllum krílunum í peysunum, án vitundar Andreu - að vísu bara í tveim eintökum. Bókasafnið fékk annað og svo færðu þær Öddu hitt þennan dag. Bókin heitir Prjónandi oddvitinn. Adda er nú ekki fædd í gær, en þarna varð hún gjörsamlega kjaftstopp.

 

Á þessum fundi lét sveitarstjórnin af störfum og er farin að falla í gleymskunnar dá sem slík, en hér eru smá eftirmæli. Í beinu framhaldi af þeim syngja þeir félagar Einar í Fremri-Gufudal og Þráinn á Hríshóli brag um nýju sveitarstjórnina.

 

 

Gamla sveitarstjórnin

Bragur: Sveinn Ragnarsson

Söngur: Einar Hafliðason og Þráinn Hjálmarsson

 

Hjá Öddu var vesen og voða brall,

með vankaða hægfara Sveina.

En líklega aldrei lykkjufall.

- Lengi skal manninn reyna.

 

Eiríkur hræðist ekki neitt

þó óargadýr sé að veina.

Hann fór og veiddi hreindýr feitt,

og hér vill´ann fá það að reyna.

 

Gústa finnst margt vera mjög vel fært,

þó menn sjá´ ei skynsemi neina.

Að kýla svo á það er kristaltært.

Það kostar samt helling að reyna.

 

Sveinn hefur lítið færst í fang

og fátt sem kemur til greina.

Lengi að hugsa og lengi í gang.

- Lengi skal manninn reyna.

 

Ásta Sjöfn notar ekki blað,

umhverfisvitund með hreina.

Með letur og glósur á leyndum stað.

- Lengi skal manninn reyna.

 

Ingibjörg Birna oft var klemmd,

alltaf að snýta og skeina.

En hún hefur fengið nýja nefnd,

og nú fer á hana að reyna.

 

 

Nýja sveitarstjórnin

Bragur: Einar Hafliðason

Söngur: Einar Hafliðason og Þráinn Hjálmarsson

 

Kalli er oddviti á Kambi

með kindum og hrútum og lambi.

Í eitt hundrað ár

með svita og tár

í hreppsnefnd hann situr á þambi.

 

Hún leikur sér lítið hún Lauga,

ljúf og svo aldrei með bauga.

Hún er alger nagli

er sinnir hún Agli

er gefur hún slúðrinu auga.

 

Gústi sem aldrei er æstur

oftast í nefndum er næstur.

Hann keypti sér hús

og fylgdi því bús.

En kofinn var vel út loftræstur (en kofinn var svolítið kæstur).

 

Sandra er kvenfélagskelling,

tappar af Bolla alveg helling.

Fer aldrei með fleipur,

hún prjónar og hleypur

og spriklar svo burt fari felling.

 

Að síðustu nefnum við Villa,

þennan alkunna heiðvirða snilla.

Á rússneskan máta

gerir konuna káta

og sýnir sinn glæsta tilla.

 

Í nefndinn ekkert má stirðna

og sér um það Ingibjörg Birna,

á sinn einstaka máta

gerir nefndina káta,

þrátt fyrir rósir og þyrna.

 

 

Nokkrir sveitungar fylltu tugi á afmælunum sínum; Guðmundur á Grund varð sextugur og bauð á fyllirí í skólanum í tilefni dagsins. Fríða á Stað er á svipuðum aldri og brá sér til Bretlands í útskriftina hennar Hörpu, þannig að það var tvöfalt tilefni.

 

Beggi á Gróustöðum hélt tvær veislur. Hann frestaði veislu fyrir 10 árum þegar hann varð fertugur, og hélt svo aðra til að fagna því að 10 ár voru liðin. Á þannig tímamótum eru afmælisbörnin gjarna heiðruð með ræðum, og Beggi lét ekki sitt eftir liggja þar. Systa í Djúpadal komst í fullorðinna tölu, - og Snæbjörn, sem er sem ákafast að undirbúa veisluna sem verður í sumar. Stebbi á Seljanesi hélt veglega veislu í skemmunni á Seljanesi og var ekki kotungsbragur á veitingum þar. Alveg sama hvar fólk var statt í húsinu, einungis þurfti að rétta út höndina eftir gulli. Daníel varð sextugur, og í tilefni af því var stórveisla og dansleikur. Svo skemmtilega vildi til, að þann dag var blíðskaparveður, einn besti heyskapardagurinn í sumar. Til að gæta jafnræðis með þeim nágrönnum hélt Beggi ræðu, en fyrr um daginn var hann á traktor í heyskap í Bæ og nýtti tímann til að undirbúa ræðuna, og var svo niðursokkinn við það að tók ekkert eftir þegar rakstrarvélin valt um koll aftan í traktornum og brotnaði og bognaði öll.

 

Skömmu fyrir hátíðar lýsti Herdís því yfir á Facebook að hún væri loksins komin í jólafrí. Lóa á Miðjanesi kom þá með feitletraða spurningu: En hvað með kynlífið? Herdís gaf í skyn að það mundi verða í lagi með það. En Lóa áréttaði að það yrði að sinna því, og sagði að þar mætti ekkert klikka! Herdís sagðist vera hissa á þessum skyndilega áhuga Lóu á kynlífinu hjá þeim, en Lóa sagðist hafa verið að tala um kynlífið í fjárhúsunum! - Það hlaut að vera, sagði Herdís, en við gerum það nú yfirleitt ekki þar.

 

Við höfum mikið heyrt talað um mannréttindi og tjáningarfrelsi undanfarið. Skoðanir á því hvað eru mannréttindi breytast í tímans rás, og má í því sambandi nefna reykingar. Nú þykir öllum sjálfsagt að þeir sem ekki reykja þurfi ekki að anda að sér tóbaksreyk, en fyrir svona 40 árum þóttu sjálfsögð mannréttindi að reykja alls staðar sem fólki datt í hug. Heimilisfólk í Barmahlíð ólst upp við það viðhorf og líka það að þeir sem reykja eigi að fá að sinna því þegar þeim þóknast.

 

Smám saman hefur verið þrengt að þeim sem reykja í Barmahlíð. Fyrst mátti reykja á herbergjunum. Svo var það bannað og einungis eitt herbergi sem mátti reykja í. Þegar allar rifur á veggjunum þar voru orðnar fullar af tjöru var endanlega bannað að reykja innanhúss, allir verða að fara út. Það er oft kaldsamt og því var ákveðið að útvega lítið bjálkahús sem yrði sett hjá hænsnakofanum og þar inni mætti reykja.

 

Húsið kom ósamansett og var ráðinn verktaki til að setja það saman. Hann hóf verkið inni í bílskúr hjá sér, en sá svo að það kæmist ekki út um dyrnar fullbyggt, þannig að nú er kofinn á ferðalagi um plássið hálfbyggður og ekki gott að segja hvernig það endar. En svona er staðan í dag ... við verðum að bíða fram á næsta blót til að fá að vita hvort þessi bjálkakofi hafi komist upp!

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31