Tenglar

28. mars 2012 |

Selaveislur 2001, 2005, 2006 og 2007

Léttar vísur og fleira

frá hendi Eysteins G. Gíslasonar (Eysteins í Skáleyjum)

 

Hér á vefnum var fyrir nokkru auglýst eftir kveðskap eftir Eystein í Skáleyjum. Neðangreinda bragi og fleira sendi Árni Snæbjörnsson frá Stað á Reykjanesi, frkvstj. Bjargráðasjóðs og Landssamb. veiðifélaga, ásamt inngangsorðunum sem hér fylgja.

 

Þann mæta mann Eystein G. Gíslason í Skáleyjum hef ég þekkt frá barnæsku. Hann er ótrúlega fjölhæfur og er einn af okkar bestu hagyrðingum og á vel skilið að bera heitið skáld. Hann sat um árabil í stjórn Samtaka selabænda og var þar, sem annars staðar, mikils metinn. Nú þegar elli kerling sækir hann heim, þá finnst mér vel við hæfi að reynt sé að halda til haga vísum hans og ljóðum, ásamt öðru efni sem hann stóð að.

 

Fyrir u.þ.b. tuttugu árum var farið að halda svokallaðar Selaveislur í Reykjavík. Þær hafa verið vinsælar og vel sóttar og eru enn. Á meðan Eysteinn hafði tök á, þá mætti hann og var gjarnan kallaður til með vísur og gamanmál um sel og fleira. Þessu hefur ekki verið haldið til haga.

 

Þegar ferðum hans suður tók að fækka orti hann að minni beiðni vísur í allmörg ár sem fluttar voru í Selaveislunni. Sendi þær sem ég á tiltækar.

 

- ÁS

 

_____________________________________________

 

 

Vísur um sel

 

Frásögn Eysteins G. Gíslasonar í Skáleyjum

 

Selur hefur löngum verið vel þegin lífsbjörg, ekki síst fyrr á tímum. Kristín Jónsdóttir afasystir mín mun hafa sagt mér eftirfarandi sögu:

 

Þormóður í Gvendareyjum (galdramaður) var fátækur og eitt sinn er kona hans lá á sæng var búið svo allslaust að hvorki var til matur né ljósmeti, en þetta var að vetrarlagi. Þormóður gekk þá út og kvað:

 

          Mýk þú Drottinn mína raun,

          mæni ég til þín hjálpin væn.

          Send mér þína bjargarbaun,

          bænheyr mig lífs eikin græn.

 

Síðan gekk hann til sjóar og hitti þar í fjöru stóreflis útsel sem hann gat lagt að velli. Þar með hafði hann fengið ríkulegan forða af mat og ljósmeti. Slík gæði lögðu selir til um liðnar aldir, að ógleymdum húðunum, til skjólfatnaðar og skógerðar sem hafa löngum verið verðmæt útflutningsvara.

 

Nýr selur þykir mörgum lostæti, en ekki að sama skapi eftir langa geymslu, illa saltaður eða sótugur ofan úr eldhúsrjáfri. Þess vegna hefur varðveist vísa sem breiðfirskur piltur á fermingaraldri á að hafa tautað yfir mat sínum, fyrir margt löngu.

 

          Selur þrár og súldaður,

          Sótugur, fúll og þefslæmur,

          morkinn, úldinn, myglaður,

          mannaskíti líkastur.

 

Þess bera að geta að saltaður selur og einnig reyktur getur verið prýðismatur, rétt meðhöndlaður.

 

- Selaveisla 2001, ÁS flutti.

 

_____________________________________________

 

 

Selaveisla 12. nóvember 2005

 

Vísur í tilefni dagsins

 

eftir Eystein G. Gíslason í Skáleyjum

 

          Bragðlaukar braggast í okkur,

          þá bera sig hungraðir vel,

          þegar garpurinn Guðmundur kokkur

          gestrisinn framreiðir sel.

 

          Garnirnar gleðjast í kviðnum

          en gaulinu hætta um sinn

          þegar nýdáinn selur úr Sviðnum

          syndir á matborðin inn.

 

          Af ánægju andlitin geisla

          og áfergjan sindrar af þeim.

          Hin árlega útselaveisla

          er eftirsótt mörlandageim.

 

          Það er blómlegt á breiðfirskum skerjum

          og búsældin dafnar þar vel

          og nú skal þess krafist af hverjum

          að kyngja hér miklu af sel.

 

          Þá lifnar hver daman og delinn

          og dauðyfli bregða á leik

          þegar borða þau blessaða selinn

          þá bragðmiklu hormónasteik.

 

- ÁS flutti og sendi EGG kveðjur og þakkir fyrir vísurnar.

 

_____________________________________________

 

 

Selaveisla haustið 2006

 

          Á Íslandi forðum var selurinn sagður

          sæla í búi hins vinnandi manns,

          ketið og spikið og skinnið í skóna

          skiluðu aurum í budduna hans.

 

          Og nú, þó að landsbúar lifi á öðru,

          langar þá stundum í nýdauðan sel.

          Því ketið og spikið og súrsuðu sviðin

          sultinum eyða svo ljómandi vel.

 

          Því höldum við árlega vinsæla veislu

          á völdum og hentugum kræsingastað.

          Og þegar af tilhlökkun garnirnar gaula

          gómsætu krásirnar lagfæra það.

 

          Hvalir og hákarlar synda í sjónum,

          soltnir og gráðugir dafna þeir vel.

          Við skulum meðbræður eftir þeim apa

          og innbyrða talsverðan slatta af sel.

 

- Eysteinn G. Gíslason, Skáleyjum.

- ÁS flutti við setningu Selaveislunnar, ásamt kveðjum frá EGG.

 

_____________________________________________

 

 

Selaveisla 2007

 

Selaveisluborðsálmur

 

eftir Eystein G. Gíslason, Skáleyjum

 

          Lag: Ég langömmu á ...

 

          Það kólnar í veðri þá komið er haust,

          en kópunum slátrað er miskunnarlaust.

          Í bólinu spikfeitir bylta þeir sér

          en borðaðir dauðir í veislunni hér.

 

          Sá matur var áður ein uppáhalds krás,

          af aumingja kobbunum stútað var glás,

          svo nóg var af sel til að setja á disk,

          - en selurinn étur frá góðbændum fisk.

 

          Kópurinn verður þá stinnur og stór,

          já stæltur og feitur, með kafloðinn bjór.

          Í bólinu makráður byltir hann sér,

          - en borðaður dauður í veislunni hér.

 

          Já, fátækum sjóurum getum við gert

          þann greiða að éta nú öll töluvert!

          - Við fádæma ósköpum kyngjum í kvöld

          og komumst sem hetjur á sögunnar spjöld!

 

          Í útlöndum drekka sig ýmsir í hel.

          Á Íslandi snæða menn bráðhollan sel

          í árlegri veislu, og eftir þá törn

          þeir eignast svo ljómandi myndarleg börn!

 

 

Hverjir luma á kveðskap eftir Eystein í Skáleyjum?

Limrur eftir Eystein í Skáleyjum

Myndlist og ljóðlist í stigagangi í Barmahlíð

Gátan: Svarendur og handrit Eysteins sjálfs

 

Atburðadagatal

« September 2022 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30