Tenglar

20. janúar 2012 |

Myndlist og ljóðlist í stigagangi í Barmahlíð

Konan ...
Konan ...
1 af 3

Umsjónarmaður þessa vefjar hefur komist yfir ljósrit af handskrifuðu blaði með vísum og skýringum eftir Eystein G. Gíslason (betur þekktur sem Eysteinn í Skáleyjum) með yfirskriftinni Myndlist og ljóðlist í stigagangi í Barmahlíð veturinn '05-'06. Ljósritið er á tveimur blöðum en á því fyrra stendur neðst snú þannig að upprunalega blaðið hefur verið eitt. Undirritunin er E.G.G. og staðfestir Jóhannes Geir bróðir Eysteins að þetta sé vissulega rithönd hans þó að hann tali þarna um sjálfan sig í þriðju persónu. Neðst á síðara blaðinu (bakhliðinni) undir aðgreiningarstriki er vísa sem tengist ekki efninu að öðru leyti en því, að þar er líka um mynd að ræða. Fyrir ókunnuga er þess að geta, að Barmahlíð er dvalar- og hjúkrunarheimili á Reykhólum.

 

Allt sem á blaðinu / blöðunum stendur fer hér á eftir. Myndir af myndunum umræddu fylgja hér með.

 

 

Myndlist og ljóðlist í stigagangi í Barmahlíð veturinn '05-'06

 

Hengdar voru upp glæsilegar, útsaumaðar, innrammaðar myndir undir gleri. Önnur af ungri konu en hin af ungum manni, sitt hvoru megin í ganginum. Bæði liggja nakin í rúmum sínum, dreymandi á svip. Skömmu síðar var Svavar Garðarsson smiður að setja upp handrið í stiga og gangi og fékk þá andann yfir sig vegna nærveru konunnar á veggnum. Hann kvað:

 

        Allt sem í lífinu langaði mest

        liggur hér saumað í strigann,

        en örmagna hvatirnar kunna því best

        að ég hverfi á braut niður stigann.

 

Eysteinn býr á efri hæð, skammt frá stigagangi, og lagði orð í belg:

 

       En taki hún ofan úr ramma á rás

       og rati að dyrunum næstu

       og skjótist þar inn, mun ég skella í lás,

       ef skríkjandi biður hún: Læstu!

 

Svavar:

 

       Hér byrjaði spotti að skapa þá mynd

       er skyldi við huganum hreyfa.

       Ég bar hana augum, en samviskan blind

       bauð mér þá glerið að þreifa.

 

       Hér liggur þú nakin og mænir til mín,

       sem máttvana eftir þér sækist.

       Með ljóðinu varpa ég lífi til þín

       og lofa svo guð ef það tækist.

 

Eysteinn, sem þykist vera jafnréttissinnaður, vildi ekki að gert væri upp á milli kynja og gerði unga manninum á hinum veggnum upp orðin:

 

       Karli fer að kólna hér

       með kroppinn alveg beran,

       því leiðin mér svo örðug er

       yfir ganginn þveran.

 

Og um myndlistina í heild sagði hann:

 

       Margt er fólki leyfilegt,

       lífs á þrönga básnum.

       Sumir flagga sinni nekt,

       - sínum aðaldjásnum.

 

Reyndar má segja, að á myndunum séu aðaldjásnin lauslega hulin.

 

______________________________

 

Um mynd sem Jón Atli keypti á uppboði hjá Lions:

 

       Lífsins til að auka yndi

       ýmsar myndir hlutverk fá.

       Til að mynda mörgum myndi

       myndin þessi gleði ljá.

 

                                                    E.G.G.

 

 

Sjá einnig:

13.12.2011  Limrur eftir Eystein í Skáleyjum

 

Atburðadagatal

« September 2022 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30