Tenglar

29. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Annáll fluttur á þorrablóti Reykhólahrepps 2013

Sveinn Ragnarsson flytur annálinn á þorrablótinu á Reykhólum.
Sveinn Ragnarsson flytur annálinn á þorrablótinu á Reykhólum.

Höfundur og flytjandi var Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli - fyrir utan leikþáttinn í miðjum klíðum sem gerð er grein fyrir neðanmáls.

 

Alltaf er jafngaman að sjá fullan sal af svona hressu og skemmtilegu fólki. Ég hef svo oft staðið í þessum sporum að ég er eiginlega orðinn uppiskroppa með inngangsorð. Samt er rétt að geta þess að engin rök ráða því hvað fjallað verður um í þessum pistli, aðeins geðþótti og innræti þeirra sem að komu. Þetta verður venju fremur samhengislaust og sundurslitið, það verður fléttað inn atriðum og fíflagangi - eða eins og Ingvar sagði og var ekkert að flækja málið: Nú verður fluttur annáll.

 

__________

 

Við heyrum talað um vaxandi öfgar í veðurfari, meiri úrkomu, meiri þurrka, meiri vind og meiri hita. Og meiri lygi í veðurfræðingum.

 

Það var ekki langt liðið á árið þegar einmitt mjög öfgafullt veður gekk yfir. Hér hafði snjóað í hægviðri nokkur dægur og var kominn jafnfallinn snjór víða í hné eða meir. Veðurspáin hljóðaði upp á að það myndi hvessa verulega síðdegis þann 25. janúar og búast mætti við miklu dimmviðri vegna allrar þessarar lausamjallar. Það þarf ekki að orðlengja að kl. 16.43 þann 25. janúar var NA 3 m/sek en kl. 16.45 var komið NNA 25 m/sek og sá bókstaflega ekki milli augna, eins og einhver sagði.

 

Veðurfræðingarnir hafa oft logið meiru en þessu.

 

Hörður á Tindum var staddur nálægt Gjánum á heimleið úr búðinni þegar veðrið skall á og varð að láta fyrirberast þar í bílnum uns veðrið skánaði - 17 klukkustundum síðar. Þá var hann langt kominn með að borða alla úttektina og var mjög hugsi hvort hann ætti að leggja í að fara heim þegar Jens kom honum til aðstoðar. En Fjóla tók fagnandi á móti honum þó bananarnir og kókópuffsið væri búið og hún slæpt eftir erfiða nótt á Facebook. En nóg um það.

 

__________

 

Margir hafa verið á henni, hún tók alltaf með jafnaðargeði geðsveiflum yfirmanna sinna. Og þegar henni blöskraði kæruleysi þeirra sem hún var að vinna með, þá settist hún.

 

Aðeins einu sinni mun hún hafa lagst. Sá sem var á henni þá dreif sig fáklæddur burt - en sneri svo við til að sækja veskið sitt. Menn hafa stokkið af henni í fússi og borið því við að búið væri að setja of mikið í hana. Það var ort um hana erfiljóð á miðri starfsævi og eitt sinn var hún eini tengiliður okkar við umheiminn.

 

En nú er hún farin.

 

Hún fæddist í Hollandi 1967, dvaldi um hríð í Noregi og fluttist hingað til lands 1973. Sennilega er mörg ykkar farið að gruna hverja ég er að tala um. Þegar hún kom frá Noregi hét hún Per Knut en hér fékk hún nafnið Karlsey. Gylfi fylgdi henni síðasta spölinn burt héðan og þegar hann var spurður hvort hann sæi ekki eftir henni, svaraði hann: Nei, þetta er bara járn!

 

__________

 

Á vinnustöðum eins og verksmiðjunni er nauðsynlegt að fyrirmæli og athugasemdir berist rétt frá yfirmönnum til undirmanna. Því hefur Einar tekið upp tákn með tali, hefðbundnum fyrirmælum er gjarnan fylgt eftir með drykkjarkönnu en við sérstaklega mikilvæg atriði eru notaðir stólar. Vegna þessa er mikið lagt upp úr að starfsfólk noti hjálma og öryggisskó með stáltá. Artúr, sem er pólskur að uppruna, sagði að það væri sumt í íslensku máli sem hann ekki skildi, en þetta skildi hann.

 

Í sumar var lóð Þörungaverksmiðjunnar girt af með rammgerðri öryggisgirðingu, og gegnir hún margþættu hlutverki. Í fyrsta lagi á hún að hindra að óviðkomandi séu að þvælast á lóðinni, og það gerir hún að nokkru, því það nenna ekki allir að ganga fyrir endann á girðingunni til að komast inn á lóðina. Einnig á hún að halda starfsfólki inni á svæðinu - en það er í rauninni sama sagan þar - en síðast en ekki síst ver girðingin þá sem eru á ferli við hafnarsvæðið fyrir fljúgandi borðbúnaði og húsgögnum.

 

__________

 

Á Seljanesi er búið að leggja mikla alúð í að rækta upp æðarvarp. Maggi var í vor að búa í haginn fyrir kollurnar og tekur þá eftir að ein fuglahræðan er horfin. Þegar hann kemur heim segir hann frá þessu tjóni, og þá rekur Dagný hann umsvifalaust út til að leysa fuglahræðuna af þar til hún skili sér. Fuglahræðan fannst svo sjórekin um leitirnar og kom heim í lögreglufylgd.

 

__________

 

Almennt er hreppsnefndarfólk afskiptalítið um starfsemi hreppskontórsins, nema helst Gústi, hann kemur oft við þar á leið frá morgunmjöltum. Hann er alltaf alúðlegur við stelpurnar, lofar þeim að finna fjósalykt og klappar þeim, og notar sömu handtök og við kýrnar ef þær standa ekki rétt á básunum. Þær eru farnar að setja í herðarnar ef þær sjá hann koma.

 

Hann er líka hjálplegur ef þarf að hefta saman þykka skjalabunka eða gata, og leggur þá meira upp úr að bunkinn sé vel stór en hvort samstæð blöð eru í honum, eða í réttri röð.

 

__________

 

Það barst bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga með athugasemdum um fjárhagsáætlun hreppsins. Þá fékk kerlingaruglan á skrifstofunni flog og fór að upphugsa ráð til að laga sjóðstreymið.

 

Fyrst seldi hún Vogaland, og sagði engum frá því, því næst gamlan þvottapott sem fannst í drasli, og svo sendi hún Jón að tína dún, ofan á allt annað sem hann þarf að gera. Þetta urðu margar ferðir, og þegar Jón kom þreyttur og slæptur til baka datt kerlingaruglunni ekki einu sinni í hug að bjóða honum upp í bílinn, eins og Ólína Þorvarðardóttir bauð drengnum sem datt í Reykjavíkurtjörn.

 

Inga Birna sendi svo Eftirlitsnefndinni greinargerð um dúntínslu Jóns og nýlega barst svar frá nefndinni þar sem frekari upplýsinga er alls ekki óskað.

 

__________

 

Það var opnuð móttaka fyrir flokkað sorp hér í sumar, en það fór framhjá flestum, því að það hvarf alveg í skuggann - eða reykinn - af sorpbrennslunni á Kirkjubæjarklaustri. Móttakan er opin þrisvar í viku og þar er unnið af mikilli nákvæmni. Nú þarf fólk ekki að eyða aðfangadagskvöldinu í að róta í ruslagámunum þó eitthvað slæðist óvart í ruslið, því ítarlega er skráð hvað kemur inn, og frá hverjum.

 

__________

 

Framkvæmdir á árinu voru og eru umtalsverðar. Hafin var bygging á vegum má ekki segja hvers, á má ekki segja flugskýli, við má ekki segja flugvöllinn þið vitið, má ekki segja hvar.

 

Jón Árni byggði verksmiðjuhús - eða færði - og svo er að rísa saltverksmiðja eftir 237 ára undirbúning. Þar sem hlutfall seltu er lágt hér í Breiðafjarðarbotninum verður trúlega að blanda salti í sjóinn áður en saltvinnsla hefst úr sjónum.

 

__________

 

Boranir eftir heitu vatni hafa verið stundaðar hér, með misjöfnum árangri. Á Hofsstöðum er nógur hiti en ekkert vatn, í Mýrartungu er yfirdrifið vatn en enginn hiti.

 

__________

 

 

Sjáum nú tildrög þess að borað var í Mýrartungu (leikþáttur):

 

(Erla er í fjósinu að hreinsa hjá kúnum): Kýr eru dásamleg dýr, það er svooo mikil ró og friður kringum þær.

 

(Fer inn í bás milli kúa, önnur reynir að sparka í hana og svo klemma þær hana á milli sín): Ætlarðu að sparka í mig óbermið þitt? Færðu þig árans urtan þín, heldurðu að ég sé tannstöngull eða hvað? Ááááá - stígðu ekki á tána á mér bévítans geitgúrkan þín - færðu þig jussa, ég ætla ekki að vera hér - það er mikið að maður skuli enn vera á lífi!

 

(Fer að taka moðið): Hvað var mig ekki að dreyma í nótt, ég var að hreinsa skít úr brynningarkeri. Nú fer ég örugglega að fá stóra vinninginn, ég keypti lottó í gær, og þegar Jenni kveikti á útvarpinu í morgun var akkúrat verið að auglýsa útdrátt í Happdrætti Háskólans!

 

(Raular „ef ég væri ríkur“ og sturtar úr hjólbörunum, sér hundraðkall í moðinu): Ja, ef þetta er ekki berdreymi, þá er búálfurinn að hæðast að mér. (Kallar): Jenni, Jenni! Ég fann hundraðkall í moðinu og mig dreymdi skít í nótt!

 

(Jenni skoðar peninginn): Nei Erla, mann dreymir ekki skít fyrir hundraðkalli. Þetta hlýtur að vera happapeningur, nú fer heita vatnið örugglega að koma.

 

(Úti á hól situr Árni Kópsson og tveir starfsmenn hans eru við borinn): Bora!

 

(Þeir bora, upp kemur vatn, þeir drepa í það fingri en það er kalt).

 

Árni: Færa!

 

(Þannig gengur þetta nokkur skipti, Jens kemur gangandi til þeirra): Jæja strákar, er heita vatnið komið?

 

Árni: Nei, það er alltaf sama helvítis kalda vatnið.

 

(Nú kemur Dalli í heimsókn): Nei sjáiði til, eruð þið loksins búnir að finna vatnsleiðsluna sem ég var svo forsjáll að láta grafa niður þegar ég lét leggja vatnið í fjósið á sínum tíma!

 

(Erla og Jenni líta hvort á annað, Erla hampar hundraðkallinum): Mikið helvíti var ég heppin að finna þennan hundraðkall, nú fer ég og kaupi happaþrennu!

 

__________

 

Í sumar rættist langþráður draumur heimilisfólks og starfsfólks Barmahlíðar þegar komið var upp hænsnakofa og girðingu hjá dvalarheimilinu. Tumi gaf tvær hænur og þá var hægt að hefja hænsnarækt af fullum krafti. Strax annað kvöldið þegar átti að hýsa fiðurfénaðinn var mikið fjör. Gunni Tryggva og Kata á Skálanesi ætluðu að hleypa hænunum inn, en þær voru ekki búnar að venjast nýjum heimkynnum, og veðrið líka gott, svo þær vildu bara vera úti áfram. Skipti engum togum að hænurnar gripu til vængjanna og flugu út fyrir girðinguna og stefndu í átt til heimahaganna. En svo allt í einu virtist önnur hænan vera horfin!

 

Í ofboði var haft samband við Tuma og Eirík smið og þeir mættu með lundaháfa. Fólk var að velta fyrir sér hvað orðið hefði um aðra hænuna. Gunni taldi sig hafa séð hana skjótast undir bílinn hennar Þuríðar, en hvernig sem skimað var undir bílinn sást engin hæna. Svo heyrist þrusk, og þá hafði hún skriðið upp á varadekkið undir bílnum. Þar er mjög þröngt en hægt var að seilast upp með dekkinu og ná taki á hænunni, sem gaf til kynna með háværu gargi að henni líkaði þetta ekki. Það eina sem náðist í þeirri umferð voru nokkrar stélfjaðrir. Hina hænuna náðist að háfa, en þegar búið var að losa hana úr háfnum slapp hún aftur og flaug hingað niður í pláss.

 

Allt var þetta mikil upplyfting fyrir heimilisfólk í Barmahlíð.

 

Eitt af því sem fólki fannst sniðugt við hænsnarækt hjá Barmahlíð var að þar félli nóg til af matarafgöngum handa hænsnunum, en brátt kom í ljós að hænurnar litu ekki við matnum sem annars var talinn fullgóður fyrir heimilisfólkið.

 

__________

 

Hvort sem að það var út af því, þá voru mötuneytismál á vegum sveitarfélagsins stokkuð upp. Nýr matráður, Steinar Pálmason, var ráðinn til starfa. Hann hófst handa þegar í stað við að endurskipuleggja, hagræða og bæta. Fyrsta verkið var að steypa stétt fyrir utan dyrnar hjá Matthíasi Óla. Því næst reif hann innréttinguna úr skólaeldhúsinu, síðan seldi hann hnífapörin úr Barmahlíð.

 

Matseðillinn er fjölbreyttur, blá súpa á mánudögum, græn á þriðjudögum, brún á miðvikudögum - eða mórauð - og gul á fimmtudögum. Á föstudögum er ekki alltaf súpa, og svo er auðvitað frí um helgar. Og af því mataráhöldin voru seld situr heimilisfólkið með sogrör kringum pottinn og nýtur máltíðanna í sameiningu.

 

__________

 

Vegna endurbóta og breytinga í Þörungaverksmiðjunni var Gústi Jökull að saga niður steinvegg þar. Þá vildi ekki betur til en svo að hann sagaði í sundur rafmagnsinntakið í verksmiðjuna og allt sló út. Hann hringdi í Guðmund á Grund til að tilkynna þetta, en Gummi sagðist ekkert mega vera að því að tala við hann vegna þess að það væri rafmagnslaust í Þörungaverksmiðjunni, sagðist ekkert vita af hverju það væri og skellti á.

 

Gústi gafst ekki upp og hringdi í Munda Jó sem var að vinna með Gumma, en Mundi sagðist ekki ná neinu sambandi við hann því að hann væri með síma á báðum eyrum að reyna að finna út hvað væri að rafmagninu niðri í verksmiðju.

 

__________

 

Nokkur undanfarin ár hefur Arnarsetur Íslands verið að byggjast upp. Nú heitir það reyndar Össusetur, ekki vegna neins kynjakvóta heldur vegna þess að nafnið Arnarsetur var í notkun annars staðar, og það eru til reglur um að fyrirtæki með sams konar starfsemi mega ekki bera sama nafn. Arnarsetur er til sem endurskoðunarskrifstofa og vissulega tengist það fuglum að skoða endur.

 

Þið munið eftir vefmyndavélinni við Bjarnarhr... nei arnarhreiðrið, nú er komið að næsta kafla, það er alvöru arnarlaupur sem hægt verður að skoða, með erni og öllu saman. Þetta er í gamla kaupfélagshúsinu í Nesi. Þar var hlaðinn upp drangur fyrir laupinn, undir stjórn Hörpu. Með öðrum orðum: Það sem einu sinni var skrifstofa kaupfélagsstjóra var hálffyllt af grjóti. Mörgum þótti miður að kaupfélagsstjórinn skyldi vera farinn.

 

__________

 

(Hér var skotið inn leikþætti þar sem útskýrt var af hverju þetta nefnist Össusetur. Það er þannig til komið, að örninn sem er til sýnis er svo dýrmætur, að Magga á Gróustöðum sem sér um sýninguna setur hann inn í eldtraustan skáp á hverju kvöldi eftir lokun sýningarinnar).

 

__________

 

Áður var minnst á öfgar í veðurfari. Í fyrravetur kastaði hagléli á mjög afmörkuðu svæði - nánar tiltekið lóðina hjá Eiríki og Kolfinnu - og voru höglin á stærð við þúfutittlingsegg. Var þess vegna ákveðið á Veðurstofunni að gera Hellisbraut 8 að sérstöku spásvæði.

 

Sjálfsagt væri rétt að Miðjanes yrði sér spásvæði líka. Í rokinu um daginn þegar húsið hans Gústa lagði af stað - líklega vegna þess að stöðuleyfið er útrunnið - fór Gústi að raða betur rúllunum að því, en það var svo hvasst að honum leið eins og hann væri inni í lottóvél þegar heyrúllurnar þyrluðust í kringum traktorinn. Þá fauk líka gamla hlaðan á Skerðingsstöðum, en Jón Árni sagði að það hefði ekki verið tjón, það var bara ekki búið að koma í verk að rífa hana.

 

__________

 

Búnaðarfélögin og Bændasamtökin hafa verið í samstarfi um slysavarnir hjá bændum og var Búnaðarfélag Reykhólahrepps valið í tilraunaverkefni með sérstakan gátlista yfir Áætlun um öryggi og heilbrigði við landbúnaðarstörf. Starfsmaður Bændasamtakanna heimsótti 26 bæi í Reykhólahreppi síðla árs, og aftur mánuði síðar til að safna upplýsingum. Það er skemmst frá að segja, að eftir fyrri heimsóknina voru bændur svo annars hugar yfir væntanlegri síðari heimsókn, að þeir meiddu sig á flestu sem þeir komu nálægt.

 

Vissulega hafa bændur verið meðvitaðir um slysavarnir, eins og Kalli sem ræktar nánast eingöngu kollótt fé af því það er svo vont að fá hornin í sig.

 

__________

 

En þó menn séu gætnir og hafi hlutina í sem bestu lagi, þá verða samt slys eins og Einar Hafliðason fékk að kynnast. Hann varð fyrir því óláni að missa haugsuguna ofan á fótinn á sér og tapaði annarri stórutánni, sem er bagalegt þegar þarf að fá sér aðeins í tána.

 

En fátt er svo með öllu illt.

 

Hættu að gráta Einar H,

heyrðu ræðu mína,

ég skal gefa þér gull í tá

þó haugsugan taki þína.

 

Ekki gráta Einar H,

er það huggun meiri,

ég skal gefa þér gull í tá

þó haugsugan taki fleiri.

 

Hættu að gráta Einar H,

huggun má það kalla,

ég skal gefa þér gull (Egils að sjálfsögðu) í tá

þó haugsugan taki þær allar.

 

__________

 

Matráður smíðar skip var fyrirsögn á Reykhólavefnum. Þar var sagt frá því að Hjalti Hafþórs varði sumarfríinu sínu í að endursmíða bát frá landnámsöld sem enginn veit hvernig var og hálfgert oflæti að kalla skip því þetta var pínulítill bátur og ónothæfur til alls. En kannski hafa landnámsmenn haft báta sem ekki voru nothæfir til neins.

 

Á Reykhólavefnum var hins vegar ekki sagt frá því að Hafliði Aðalsteins og félagar í bátasafninu komu sér upp aðstöðu við Mjólkurbúið þar sem þeir geta hafst við þegar þeir eru að vinna við safnið. Þar hefði fyrirsögnin getað verið: Skipasmiður eldar graut.

 

__________

 

Harpa skipulagði kvennareið yfir Þingmannaheiði ásamt Indu, og þær höfðu Nóra með af því hann er með svo mikið hár.

 

__________

 

Það gekk fjöllum hærra í haust að fjallskilanefnd hefði sagt af sér. Þar gætti nokkurs misskilnings. Eins og áður var getið lenti Einar Hafliðason formaður nefndarinnar í slysi og þurfti vegna þess að taka lyf sem fóru illa í magann í honum. Í upphafi fyrsta fundar nefndarinnar í haust sögðu afleiðingar lyfjanna til sín hjá Einari og hann þurfti að drífa sig á wc og tautar um leið: Það er nú varla hægt að standa í þessu helvíti.

 

Svo líður og bíður og nefndarmenn fer að lengja eftir honum. Einhver þeirra hafði heyrt hvað hann var að tauta, dettur helst í hug að Einar sé búinn að fá nóg af því að vera í nefndinni og segir að hann sé líklega farinn. Þá ákváðu hinir að fara bara líka. Þegar Einar hafði lokið sér af og kom fram voru allir farnir - og þá fór hann auðvitað líka.

 

__________

 

Við lok annáls var lauslega sagt frá árangursríkum hvatningarræðum oddvitans, sem eru trúnaðarmál milli viðkomandi fólks og oddvita, og kynntur þáttur þar sem fjallað var um prjónaskap.

 

Þess skal getið að Mýrartunguleikþátturinn hér í miðjum annál styðst við eins traustar heimildir og hugsast getur því að Erla Reynisdóttir í Mýrartungu færði hann sjálf í letur.

      

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31