Tenglar

20. janúar 2009 |

Annáll fluttur á þorrablóti Reykhólahrepps 2008

Sveinn á Svarfhóli beitir orðsins ljá á sveitungana á þorrablótum.
Sveinn á Svarfhóli beitir orðsins ljá á sveitungana á þorrablótum.

Það er þetta venjulega - veðurfar, skepnuhöld, drepsóttir, atvinnulíf, útlend skip, hreppaflutningar, höfðingjaheimsóknir og margt fleira. Veðurfarið var í stuttu máli mildur vetur, kalt vor, feikilega gott sumar, sem flestir misstu nú af, því það var of þurrt, of hvasst, og of eitthvað, en svo kom haust sem var alveg fáránlega blautt og vindasamt. Skepnuhöld með lakara móti, drepsóttir engar, atvinnulíf blómlegt, útlend skip komu fá, og skiptir raunar ekki máli, því engar skipamellur eru starfandi sem stendur.

 

En helst er samt frásagnarvert það sem er allt í senn venjulegast, skemmtilegast, skrítnast, veldur mestri hamingju, óútreiknanlegast, endalaust vesen með, stöðugt áhyggjuefni - já, hverju er hægt að lýsa svona? Jú, okkur sjálfum!
_____

 

Við erum alltaf að verða meðvitaðri um að við búum í fallegri sveit, og gjarnan viljum við að fólk komi og dáist að sveitinni með okkur og þeim sem hér búa. Við viljum líka nota tækifærið þegar gestirnir eru í hrifningarvímu, og ná af þeim peningum, en komum að því aðeins síðar.

 

Til þess að fólk leggi leið sína hingað, frekar en eitthvert annað, verðum við að minna á okkur með öllum tiltækum ráðum. Eitt af þeim er að búa til slagorð, samanber Dalirnir heilla, Bónus, ekkert bruðl, Sparisjóðurinn fyrir þig og þína, Sóley og Ingunn ávallt til þjónustu reiðubúnar, og svo mætti lengi telja.

 

Slagorð eiga að minna mann á það sem þau vísa til um leið og maður heyrir þau eða sér.

 

Í sumar var auglýst eftir slagorði fyrir Reykhólasveit, einföldu, þjálu og hentugu í margs konar samhengi. Tumi sýndi þessu strax mikinn áhuga og taldi þetta bráðsnjallt, en sagði jafnframt að oft ynni svona samkeppni algerlega heilalaust fólk. Þessi yfirlýsing varð nú ekki til að hvetja nærstadda til að skila inn tillögu. Hann sjálfur þóttist ekki ætla leggja inn hugmynd, þegar í ljós kom að verðlaunin fyrir slagorðið sem valið yrði var eyjasigling með Bjössa.

 

Margar frábærar tillögur bárust, og fyrir valinu varð tillaga Svavars Garðars - ég treysti mér nú ekki til að halda því fram að hann sé heilalaus: Reykhólahreppur, unaður augans! Ekki slæmt!

 

En nú verð ég að játa að fegurð Reykhólasveitar var ekki það allra fyrsta sem mér datt í hug, þegar ég heyrði þetta fyrst, Reykhólahreppur, unaður augans - heldur var það Zetorinn hans Finns á Skerðingsstöðum.

 

Þetta þarfnast auðvitað skýringa. Fyrir u.þ.b. 20 árum keypti Finnur sér nýjan traktor. Þetta var Zetor með fjaðrandi framöxli, sem var nýjung þá, og vélin því mun mýkri í akstri en aðrar. Finnur var að vonum stoltur af nýju dráttarvélinni, og sagði að það væri hreinasta unun að keyra hana.

 

Eftir það kallaði Sigurgeir heitinn Zetorinn hans Finns aldrei annað en Unað.

_____

 

Efalítið hafið þið tekið eftir því, að ef eitthvað er skrítið eða átakanlegt, þá fara kvikmyndagerðarmenn á stúfana að festa það á filmu. Hér dvaldi rúman mánuð í sumar kvikmyndagerðarlið við tökur á myndinni Heiðin. Þetta var allstór hópur og lagði undir sig allt gistirými héraðsins, Miðjanes, Höllustaði, skólann, Bjarkalund og e.t.v. víðar. Þetta fólk kom vel fyrir og reyndu margir að koma sér í mjúkinn hjá þeim, útvega leikmuni o.fl. Til dæmis lét Lóa þau hafa dautt lamb - það var keyrt á lamb í myndinni - og Tumi hjálpaði þeim að veiða lifandi skógarþröst, Bjarki og Eiríkur byggðu hús sem nú er aðeins til á mynd, Bjarki smíðaði líka kjörkassa sem lék eiginlega aðalhlutverkið í myndinni, og svo lánaði Jón kaupmaður þeim heila verslun í Nesi sem leikmynd, og sjálfan sig og Kollu sem leikara.

 

Tökur fóru líka fram hér fyrir vestan, á Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi og víðar. Meðan á öllu þessu stóð átti Þórólfur sýslumaður leið hér austur um. Á Hjallahálsi sá hann bíl utan vegar, og athugaði hvort eitthvað væri að. En enginn var í bílnum og engin merki um slys, svo hann ætlaði að halda áfram, en tekur þá allt í einu eftir að í bílnum er kjörkassi. Og það er ansi hreint alvarlegur hlutur að taka þannig ílát ófrjálsri hendi, svo hann hringir umsvifalaust í lögregluna og tilkynnir þennan glæp, sem verði að upplýsa þegar í stað.

 

     Sýslumannsvaldið þar gáði inn um gluggann,

     gerast hér lögbrot - skal lækka í þeim drambið.

     Hollyvoodgengið var horfið í skuggann,

     og hélt bara áfram að keyra á lambið.


     (Vísan er eftir Guðlaug Höskuldsson á Miðjanesi).

Atriði í myndinni voru tekin úr þyrlu. Meðal annars fylgdi þyrlan bíl vestur alla sveit og vakti þetta töluverða athygli. Hörður var að vinna í girðingu rétt við veginn, og þegar þyrlan flaug hjá hvessti svo, að Hörður dreif sig í skjól. Þar sem nýja girðingin á Tindum endar var Hörður staddur þegar þyrlan flaug hjá.

_____

 

Eins og margir vita, þá er Hlynur Gunnars bæði útgerðarmaður og skipstjóri, og í sumar vantaði hann spil á bátinn. Hann var svo heppinn að frétta af spili á Hólmavík. Á Miðjanesi spurði Gústi Lóu hvort hún vissi eitthvað um Hlyn, en hún hélt að hann hefði farið norður á Hólmavík að skoða eitthvert spil.

 

Líður nú fram undir haust, og Gústi þarf að ná í bróður sinn en nær ekki sambandi við hann. Hann spyr Lóu, og hún segir að Hlynur hafi farið norður á Hólmavík, sposk á svip. Er hann enn að skoða þetta spil? varð Gústa þá að orði.

_____

 

Einhverju sinni í sumar bilaði smáhlutur um borð í m.s. Karlsey og þurfti að redda nýjum í hvelli. Svo heppilega vildi til að Gunna var í Reykjavík og ætlaði að koma heim þennan sama dag. Haft var samband við Gunnu og hún náði í varahlutinn og kom með hann vestur. Karlsey komst í lag og var klár í næstu sjóferð, og þá sagði Villi: Nú var gagn að Gunnu!

_____

 

Eitt af því sem ráðist var í af miklum myndarskap var gerð sparkvallar, hann er bara hér við hliðina, fullur af snjó. Gunnbjörn og hans menn sáu um jarðvinnu og malarflutning. Hluti af efninu var sóttur í Seljanes, mokað þar úr barði. Heiðar var á mokstursvélinni, og allt í einu sér hann glitta í eitthvað torkennilegt í stálinu, sem við nánari athugun reyndist vera feiknastórt bein. Fyrst töldu menn að þetta væri lærleggur úr Dagnýju, en þar sem hvorugan fótinn vantaði undir hana var frekar álitið að beinið væri úr risaeðlu. Svo kom í ljós að þetta var bara ómerkilegt hvalbein, 10.000 ára eða svo.

_____

 

Hvað var líkt með Eggerti, Torfa og manni sem er rammvilltur í eyðimörk?

 

Já, sjálfsagt margt, en vatnsleysið er hér til umræðu. Þeir Eggert og Torfi voru svo óheppnir að byggja í svonefndu Vatnsendahverfi. Það heitir svo vegna þess að vatnsleiðslan endar áður en komið er í hverfið.

 

Eitthvað var frárennslismálum áfátt líka en það gerir minna til þegar ekkert er vatnið.

_____

 

Þegar kaupfélagið var í andarslitrunum, hætt að slátra, Jón hættur að versla í Nesi, kaupfélagsstjórahúsið selt, og allt í stuttu máli að fara til helvítis, ákvað Bergsveinn að bretta upp ermar og hóf undirbúning kræklingaeldis. Þeir sem störfuðu við undirbúninginn höfðu aðsetur í Gömlu búðinni, og þá kom sem betur fór í ljós að andi hússins var sá sami og meðan slátrað var, nefnilega vínandi, sem tók sér bólfestu í þeim sem þar voru.

 

Hingað kom kanadískur kræklingabóndi til að kanna aðstæður og kenna. Hann furðaði sig á því að nokkrum manni skyldi detta í hug að hefja kræklingaeldi og byrja ekki á að útrýma æðarfuglinum. En sem kunnugt er lifir hann mikið á krækling.

 

Beggi reyndi að skýra fyrir honum að hér væri æðarfuglinn nytjafugl og alfriðaður. Í því heyrast háir hvellir, og glaðnaði þá yfir kalli, sem benti Begga á að þarna væri einhver hygginn maður að skjóta endur, en fékk þá skýringu að þetta væru gasbyssurnar hjá Daníel og Kalla, og þær væru notaðar til að fæla örninn frá æðarvarpinu. Þá áttaði sá kanadíski sig á því að örninn væri mesti nytjafugl, en ekki Daníel eða Kalli.

_____

 

Þegar fólksfjölda í héraðinu ber á góma fer umræðan oft í sömu átt og þegar talað er um hálffullt glas eða hálftómt. Sumir telja að byggð leggist bráðlega af hér vegna fólksfæðar, aðrir að þetta sé allt á góðu róli.

 

Við skulum vera sammála þeim, því barnsfæðingar hafa verið óvenju margar undanfarið. Hér hefur skapast sú regla, að byggt er nýtt hús fyrir hvert nýtt barn sem fæðist. Það er vegna þess að hér á Reykhólum býr yfirleitt bara einn í hverju húsi.

 

Ef þeirri reglu væri fylgt úti í sveit styttist nú í byggðakjarna í Djúpadal.

 

Þeir sem eru afkastamestir við að framleiða fólk, eins og Eygló og Bjarki, Ásta og Guðmundur, lenda þó í því að hafa ekki undan að byggja og verða að kaupa hús, þótt þau séu bæði með blokkir og parhús í smíðum.

_____

 

Hér hefur fjölgun nýbúa verið allmikil og sumir byrjað á að eignast barn eins og þau í Gufudal. Landnám færist í vöxt, má nefna Svavar Gestsson í Hólaseli, Hafrahlíðarbændur og Snæbjörn í Krossnesi, og svo er Sigurður í Tungu að leggja undir sig helstu gæsalendur héraðsins, Klukkufell, Tungu og Grund. Á Grund er langmest af gæs. Þar flugu yfir svo þéttir hópar að hann lagði ekki í að skjóta, því hann reiknaði með að kafna undir hrúgunni þegar þær dyttu.

 

Snæbjörn í Krossnesi er landnámsmaður við Þorskafjörð og óttast margir að það sé aðeins byrjunin, hann muni sölsa undir sig nærliggjandi jarðir og lönd. Mun þá einu gilda hvort vegarlagning í Þorskafirði verður samþykkt eða ekki, hann kemur til með að ákveða það allt að lokum.

_____

 

Á Stað var uppbygging af fjölbreyttu tagi. Þar var endurbyggt torfhús, byggt sláturhús og settur upp frystir. Ari Jóhannesson sá um endurgerð torfhússins ásamt Dalla og fleirum. Ari taldi ákaflega gott að vinna á Stað, þar væri t.d.ekki drukkið bara vatn við þorsta.

 

Þegar kaupfélagið hætti að reka frystigeymslu brugðu margir á það ráð eins og Staðarbændur að útbúa frystiklefa heima. Í Árbæ er einn, Tumi og Gústi fengu líka svona klefa, og sjálfsagt fleiri, en Eiríkur á Stað benti á að klefarnir þeirra Tuma og Gústa væru nú frekar kælar en alvöru frystar.

 

Margir tóku eftir að mótin í parhúsinu hans Bjarka stóðu lengi tóm í haust. Ástæða þess var fyrst sú að Guðlaugur átti ekki sement, enda stutt í mánaðamót, en sement er aðeins pantað snemma í hverjum mánuði, og mánaðamót koma ekki eftir pöntun. En síðan þegar mánaðamótin komu og sementið, þá snarkólnaði og ekki viðlit að steypa fyrir frosti. Bjarka fannst það fjandi hart, því að samkvæmt veðurspánni átti að vera hiti. Um svipað leyti voru þeir að setja hurð fyrir nýja frystinn á Stað. Hún var frá Sigurði Bjarnasyni og passaði þar af leiðandi ekkert. Því var það, að dálítill kuldi slapp út með hurðinni, með þeim afleiðingum að Bjarki gat ekki steypt. Hann varð því að hringja í Stjána og biðja hann að slökkva á frystinum svo hægt væri að steypa.

_____

 

Erfiðlega hefur gengið að manna Þörungaverksmiðjuna eins og oft áður. Ekki bætir úr skák þegar lykilmenn eins og Ragnar flytjast til útlanda. Hann fór til Danmerkur með allt sitt hafurtask, og elliæran og farlama kött, en skildi Kobba eftir á Klakanum. Raggi starfar nú við að hreinsa kamra við strendur Danmerkur.

 

Eina svarið við þessu mannahallæri er að flytja inn starfsmenn, og komu fjórir í verksmiðjuna frá Eystrasaltslöndunum. Flestum gekk afar illa að muna frá hvaða landi þeir komu. Gylfi kom sér upp kerfi til að átta sig á því, hann byrjaði alltaf: Eistland, Lettland, Litháen, ok, það er í miðjunni, Lettar!

_____

 

Jón Árni hefur sem kunnugt er framleitt alls konar töflur handa gæludýrum. Nú er ýmislegt sem bendir til að hann sé farinn að búa til eitthvert samheitalyf með Viagra, þó ekki sé hann farinn að auglýsa, því Steina hefur verið svo kát upp á síðkastið.

_____

 

Þær raddir sem vilja færa Kinnarstaðarétt út á Reykjanes gerast nú æ háværari, aðeins Nóri á Hofsstöðum og Steinunn á Kinnarstöðum vilja hafa réttina þar sem hún er, jú, og Árni í Bjarkalundi, þangað til hún fer á kaf í Berufjarðarvatnið. En nákvæmlega hvar á Reykjanesinu réttin á að vera eru menn alls ekki sammála um. Eiríkur smiður kom með þá tillögu, að Eiríki á Stað og Tuma yrði falið að skera úr um það. Það færi þannig fram, að Eiríkur færi inn að Grund og Tumi út að Stað, síðan hlypu þeir af stað, og þar sem þeir mættust væri réttin byggð.

_____

 

Meðal annara hefur Bjössi Samúels unnið ötullega að því að vekja áhuga fólks á svæðinu hér, með ferðaþjónustu, fornleifarannsóknum o.fl. Hann beitti sér fyrir því að sett var upp gjafagrind á öðrum Hellishólnum. Í henni á að fóðra ferðamenn á upplýsingum. Útsýnisskífa er þar og á henni ítarleg örnefnaskrá fyrir Höllustaði, annað rúmast eiginlega ekki á henni.

 

Útsýnið úr gjafagrindinni er óviðjafnanlegt - Snæfellsjökull, Skarðsströndin og innsveitin fjær, og ruslasvæðið, fjárhúsin hennar Indu og hundarnir þeirra Gylfa og prestsins nær. Þegar fólk hefur virt þetta fyrir sér dálitla stund borgar það fúslega gjald til að sleppa úr grindinni.

 

- Höfundur og flytjandi: Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í Geiradal.

 

Atburðadagatal

« Jl 2022 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31