Tenglar

22. mars 2009 |

Annáll fluttur á þorrablóti Reykhólahrepps 2000

Frá alþjóðaflugvellinum á Grund.
Frá alþjóðaflugvellinum á Grund.

Ágætu drykkjufélagar. Ég vona að allir séu í góðu skapi og ætla því hvorki að nefna hreppsnefndina né Kaupfélagið og þaðan af síður yfirtökuna á Bjarkalundi.

 

Jón herforingi og Tumi brenndu í vor arnarhreiður sem síðast var orpið í um 1820. Varð af þessu svo mikið bál að brennuvargarnir áttu fótum fjör að launa. Bæði brann sjór og land og kveikti meira að segja í Náttúruverndarráði. Einnig kviknaði í á Skerðingsstöðum og svo fuðruðu þeir upp sveitarstjórinn og slökkviliðsstjórinn.

 

Finnur Ingi þénaði vel um tíma í haust við að bílhreinsa skurði á morgnana. En þegar Eiríkur fór að ágirnast það líka var sjálfhætt, enda var Finnur þá kominn í aðra aukabúgrein á kvöldin svo hann var ekki eins árrisull.

 

Álftaland var selt í vor og fengu færri en vildu. Jónas hlaut hnossið en til hvers hann ætlar að nota það er ekki enn komið í ljós. Hann ætlar kannski að hafa þar í seli.

 

Flugvél hlekktist á í lendingu á alþjóðaflugvellinum á Grund vegna ójöfnu á aðalflugbrautinni og er hann því lokaður þar til viðgerð hefur farið fram.

 

Stofnuð var hér Lionsdeild á árinu og var það vonum seinna miðað við hve mikil ljónagryfja hér er.

 

Haldið var plæginganámskeið og var það fjölmennt. Vonuðust fjárbændur eftir bættum afköstum í fjárplógsstarfseminni.

 

Þörungaverksmiðjan var seld með manni og mús í haust og virðast nýir eigendur lítinn áhuga hafa á eigninni því ekki hafa þeir enn skoðað gripinn.

 

Keyptur var nýr og fallegur krani til verksmiðjunnar. Hann er frekar lítið ryðgaður og bilar ekki mikið oftar en sá gamli. Stjáni er að springa úr monti og Raggi hækkaði um fet þegar hann fór inn í kranann og strukust þá síðustu hárin af skallanum á honum.

 

Arnhóli var lokað í haust. Það var mikið áfall fyrir miðbæjarlífið. Við misstum lottóið, spilakassann og pöbbinn. Ljósi punkturinn er að Máni er að byrja að braggast.

 

Alltof margir hafa flutt burt frá okkur á árinu. Maggi Sveins var sendur í tölvupósti til Ólafsfjarðar og Rut í faxi stuttu seinna. Bræðurnir á Seljanesi, Gústi og Jói fóru í sollinn suður en þegar ég frétti að Jón Atli væri farinn að vinna í Hafnarfirði fattaði ég að sennilega hefði hann alla tíð verið Hafnfirðingur inn við beinið.

 

Allt virðist með kyrrum kjörum í skólanum en Gróa sagði mér að kennararnir væru að reyna að hætta að reykja og við getum sennilega séð það hér í kringum okkur hvernig það hefur tekist. En aumingja krakkarnir.

 

Mikið hefur verið að gera hjá iðnaðarmönnunum okkar þeim Agli og Gústa í Dölunum síðustu mánuði. Má því fara að kalla Milljónafélagið Margmilljónafélagið, Milljarðafélagið eða einhverju öðru góðu nafni.

 

Ýmsum fannst Stjáni bjartsýnn þegar hann fór að grafa eftir gulli í Berufirði, en viti menn, hann fann gullnámu. Reyndar aðeins fyrir þá sem áttu einhvers konar dráttartæki.

 

Gylfi og Halli á Skerðingsstöðum fóru í einhvers konar kynlífsferð til Kúbu. Hafði ferðin undraverð áhrif á þá báða. Halli yngdist um tuttugu ár en Gylfi var ákaflega þreytulegur við heimkomuna en þó kátur og tilkynnti að Karlseyingar gætu nú riðlast á fleiru en skerjum.

 

- Höfundur og flytjandi: Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum (Dalli í Mýrartungu).

 

Atburðadagatal

« Jl 2022 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31