Tenglar

22. mars 2009 |

Annáll fluttur á þorrablóti Reykhólahrepps 1999

Hafnargarður verksmiðjunnar á sínum stað. Mynd: Árni Geirsson.
Hafnargarður verksmiðjunnar á sínum stað. Mynd: Árni Geirsson.

Síðastliðið ár hefur verið viðburðaríkt. Tvö mál bera þar af: Vegurinn yfir Gilsfjörð var kláraður og hreppsnefndin þurrkaðist út.

 

Svo mikil var vegabótin, að meira en tíundi hver íbúi hreppsins flutti burt á árinu og þó nokkrir komu nýir í staðinn.

 

Í fyrsta sinn í sögu sveitarfélagsins var enginn endurkosinn úr fráfarandi hreppsnefnd. Blessuð sé minning hennar. Ekki má tala illa um látna svo við ræðum hana ekki meir. Nú er bara að reyna að þrauka þrjú ár enn.

 

Enn eru til vel stæðir athafnamenn hér um slóðir. Tumi og Einar Hafliða byggðu reiðhallir og Stebbi og Mummi Sigvalda bílskúra. Bjarni Óskar fékk landslagsarkitekt til að hressa aðeins upp á útsýnið hjá sér, Erlingur hóf hleðslu grjótveggjar sem enn sér ekki fyrir endann á og Egill reisti varnargarð umhverfis Mávavatn til að reyna að halda Áslaugu heima. Eins og ævinlega gekk samt best hjá Matta, því þegar hann fékk skúrinn í Bæ fann hann þar dýrmæta olíulind.

 

Útgerð var í lágmarki á árinu. Jón Árni og Gylfi keyptu sér þó báta og var Gylfi það forsjálli að fá vagn með sínum og losna þar með við miklar áhyggjur og basl.

 

Utanríkisverslunin á Miðhúsum gekk vel á árinu. Allur dúnninn seldur á góðu verði og fyrsta giftingin vegna kvennainnflutningsins fór fram í sumar. Telur Jón að markaðurinn fyrir þennan aldursflokk sé nú mettaður og ætlar að flytja inn eldri hóp í sumar fyrir Grundarbræður, Unnstein og Stebba á Seljanesi. Svo lifum við Ebbi í voninni að hann hugsi til okkar seinna.

 

Til að auka hreysti íbúanna ákvað hreppsnefnd að við hefðum gott af að trimma með ruslið. Reykhólabúar þola aðeins nokkur hundruð metra en bændur hafa gott af nokkrum kílómetrum. Þetta kostar að vísu dálítið aukalega en það borgar sig fljótt.

 

Hagvon græddi drjúgan skilding á vinnu við hafnargarðinn á Reykhólum. Einnig jók það hagvöxtinn að starfsmenn Þörungaverksmiðjunnar ku hafa ýtt hluta hafnarinnar á flot og fengu bæði Landhelgisgæslan og Þórður vinnu við að færa hana að landi aftur.

 

Gott samkomulag hefur alltaf verið aðalsmerki íbúa hreppsins og öllum ágreiningi vísað burt, þ.e.a.s. til dómstólanna.

 

Maggi í Múla fékk nýja dráttarvél um daginn og mun hún vera sáttagjöf frá Kaupfélaginu.

 

Heldur þótti fólki það uggvænleg tíðindi þegar fréttist af bjarndýrasporum við vatnsból Reykhóla stuttu eftir að Gugga var þar á ferð með Bernharðshundinn. Einnig munaði mjóu að slys yrði þegar Gugga og Tóta fóru í gönguferð inni í Þorskafirði. Þar var einnig á ferð rjúpnaskytta sem hafði laumast framhjá Ebba. Þegar skyttan taldi sig vera komna með rjúpur í sigti og var að taka í gikkinn sá hún að þetta voru gæsir.

 

Nýjustu fregnir herma, að í undirbúningi sé að opna pöbb þar sem Vegagerðin var til húsa. Einnig kom tillaga til hreppsnefndar að gera samkomuhúsið að heimili fyrir vangefna. Sveitarstjórinn aftók það, ekki væri gott að hrúga öllum Reykhólabúum í eitt hús.

 

- Höfundur og flytjandi: Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum (Dalli í Mýrartungu).

 

Atburðadagatal

« Jl 2022 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31