Tenglar

Verkefnastjóri og starfsfólk óskast í vaktavinnu í skammtímavistun hjá 15 ára stúlku á Reykhólum. Mjög skemmtilegt og krefjandi starf í fallegu og rólegu umhverfi. Umsóknarfrestur er til og með 27. maí 2022.

 

Einnig vantar tvo sumarstarfsmenn í liðveislu með sömu stúlku í júní, júlí og ágúst. Sá möguleiki er fyrir hendi að sumarstarfsmennirnir verði áfram á Reykhólum eftir sumarið og vinni á skamtímavistuninni í framhaldi. Umsækjendur geta fengið hjálp við að finna hentugt húsnæði á staðnum, sé þess óskað.

 

Umsóknir ásamt fylgigögnum sendist Soffíu Guðmundsdóttur, félagsmálastjóra, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík.

 

Upplýsingar eru veittar í síma 451-3510 og fyrirspurnir og umsóknir má einnig senda á felagsmalastjori@strandabyggd.is.

 

 

Til kattaeigenda á Reykhólum.

 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti vorið 2020 bókun þess efnis að lausaganga katta væri bönnuð í þéttbýlinu Reykhólum yfir varp- og uppeldistíma fugla frá 1. apríl  - 1. september ár hvert.

 

Sveitarstjórn telur brýnt að vernda fuglalíf á Reykhólum sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og fuglaskoðara.

 

Athygli er vakin á grein eftir Magnús Ólafs Hansson hér undir Sjónarmið.

 

1 af 5

Nú er hafinn undirbúningur endurbyggingar stálþilsbryggjunnar á Reykhólum, sem hefst í sumar. Síðasti farmurinn af stáli í þilið kom í dag og meira efni er væntanlegt á næstunni. Einhverjar tafir hafa orðið á afhendingu efnis að utan, eins og margir hafa lent í.

 

Rob Kamsma verkfræðingur hjá Siglingasviði Vegagerðarinnar sagði að þetta væri með flóknari verkefnum af þessu tagi. Ástæða þess er að bryggjan verður í notkun allan tímann sem framkvæmdir standa yfir og verktakarnir þurfa sitt athafnapláss. Þörungaverksmiðjan landar öllu sínu hráefni þar og það er flesta daga, það þarf að skipa út í mjölskip og Vegagerðin mun skipa þarna upp efni til búargerðar í Þorskafirði, auk þess sem þangskurðarmenn þurfa að athafna sig í höfninni annað slagið.

 

Þetta er framkvæmd upp á liðlega 300 millj. og verður lokið næsta sumar. Verktakar eru Hagtak hf. sem sér um að undirbúa botninn fyrir stálþilið, og Borgarverk ehf. rekur niður stálþilið, en þessi fyrirtæki hafa yfir að ráða sérhæfðum tækjakosti til þessara verka.

 

Bryggjan verður stækkuð jafnframt, lengd í N-A. svo að Grettir kemur til með að fá betra skjól inni í höfninni, og ytri viðlegukanturinn verður lengdur í S-V. þannig að stærri flutningaskip geta lagst að bryggju án vandræða.

 

Vésteinn Tryggvason, mynd Skessuhorn
Vésteinn Tryggvason, mynd Skessuhorn

Í Skessuhorni er þáttur sem kallast Dagur í lífi... síðast var forvitnast um dag í lífi Vésteins Tryggvasonar.

 

Nafn: Vésteinn Tryggvason.

 

Fjölskylduhagir/búseta: Einhleypur og barnlaus.

 

Starfsheiti/fyrirtæki: Öryggis- og gæðastjóri hjá Þörungaverksmiðjunni.

 

Áhugamál: Ferðalög, matargerð og tónlist.

 

Dagurinn: Þriðjudagurinn 12. apríl 2022.

 

Klukkan hvað vaknaðirðu og hvað var það fyrsta sem þú gerðir? Vaknaði klukkan 6:50 og slökkti á podcastinu sem var búið að vera í spilun alla nóttina.

 

Hvað borðaðirðu í morgunmat? Borða vanalega ekki morgunmat en stalst samt í litla sneið af gulrótarköku þegar ég var kominn í vinnuna.

 

Hvenær fórstu til vinnu og hvernig? Keyrði til vinnu klukkan 7:20.

 

Fyrstu verk í vinnunni? Halda morgunfund með starfsfólki og skoða tölvupóstinn.

 

Hvað varstu að gera klukkan 10? Fylgjast með löndun úr skipinu okkar Gretti.

 

Hvað gerðirðu í hádeginu? Fór út á hráefnisplan og tíndi ferskan krækling úr þarahrúgunni.

 

Hvað varstu að gera klukkan 14? Vinna uppi á skrifstofu við skýrslugerð og fleira.

 

Hvenær hætt og það síðasta sem þú gerðir í vinnunni? Rétt fyrir fimm tók ég einn hring niðri í verksmiðju og lét mig svo hverfa.


Hvað gerðirðu eftir vinnu? Fór í sund. Fer alltaf í sund eftir vinnu þá daga sem er opið í lauginni. Er vanalega fyrstur ofan í og næ þannig nokkrum mínútum í friði og ró, fljótandi eins og rekaviður í djúpu lauginni.

 

Hvað var í kvöldmat og hver eldaði? Ég eldaði mér kræklingapasta með kræklingnum sem ég tíndi í vinnunni.

 

Hvernig var kvöldið? Rólegt og fallegt eins og flest kvöld í sveitinni.

 

Hvenær fórstu að sofa? Leið út af upp úr klukkan 11.

 

Hvað var það síðasta sem þú gerðir áður en þú fórst að hátta? Stillti vekjaraklukkuna á hæfilegan tíma.

 

Hvað stendur upp úr eftir daginn? Hvað það var fallegt veður og hvað ég gat verið mikið úti í sólinni.

 

 

2. maí 2022

Hjólað í vinnuna 2022

Nú styttist í að vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2022 hefjist í tuttugasta sinn en að þessu sinni fer keppnin fram frá 4. - 24. maí. Opnað var fyrir skráningu þann 20. apríl og við hvetjum alla til að skrá sig strax til leiksHægt er að skrá sig allan tímann á meðan keppni stendur yfir eða fram til 24. maí. Hjólað í vinnuna er fyrir marga vorboðinn ljúfi og ávalt mikilvægat að huga vel að heilsunni og sinni daglegu hreyfingu. Fyrirtæki og stofnanir eru nú hvött til drífa í því að skrá vinnustaðinn til leiks og hvetja þannig allt starfsfólk til að vera með. Nauðsynlegt er fyrir vinnustaði landsins að huga vel að starfsandanum og er verkefnið góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman.

 

Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu ásamt því að vekja athygli á virkum ferðamáta og eru hjólreiðar bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Hjólreiðar eru frábær útivist, hreyfing og líkamsrækt. Með því að taka þátt í þessu verkefni er ekki einungis verið að bæta skemmtilegri hreyfingu inn í sitt daglega líf, heldur lækkar maður kolefnissporin í leiðinni og sparar peninga sem færu annars í eldsneyti. Það er semsagt ENGIN ástæða til að taka ekki þátt! Nú er um að gera að drífa í að skrá sig til leiks á heimasíðu Hjólað í vinnuna


Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland hvetur landsmenn til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.

 

Við óskum hér með eftir ykkar liðsinni við að hvetja aðila innan þíns sambands til þátttöku í verkefninu þetta árið. Við hvetjum ykkur til að segja frá verkefninu á ykkar heimasíðum og samfélagsmiðlum og í viðhengi eru myndir sem má nota að vild. Í gegnum árin hefur myndast gríðarlega góð stemmning á vinnustöðum meðan á átakinu stendur. Von okkar er sú að svo verði í ár líka.


Hjólakveðja,
Almenningsíþróttasvið Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Praktískar upplýsingar:
Keppt er í átta flokkum um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustöðum og í liðakeppni um flesta kílómetra.
Aðalatriðið er að fá sem flesta með sem oftast, til að hjóla, ganga, taka strætó, nota línuskauta eða annan virkan ferðamáta.

Að skrá sig til leiks:


1. Farið er inná vef Hjólað í vinnuna,
2. Smellt er á Innskráning efst í hægra horninu
3. Stofnaðu þinn eigin aðgang með því að skrá þig inn með Facebook eða búðu þér til notendanafn og lykilorð.
4. Velja má á milli þess að stofna vinnustað (þarf að gera ef vinnustaðurinn finnst ekki í fellilista) eða stofna/ganga í lið (þá er búið að stofna vinnustaðinn).
5. Skráningu lokið

Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar inná vef Hjólað í vinnuna 

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna gefur Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ í síma: 514-4000 eða á netfangið hjoladivinnun@isi.is.

 

28. apríl 2022

Lúmsk hætta í gripahúsum

Styrmir Gíslason nýstaðinn upp.
Styrmir Gíslason nýstaðinn upp.

Fyrir nokkrum dögum var Styrmir Gíslason bóndi á Kötlulandi, við Reykhóla, að hræra upp í áburðarkjallara í fjárhúsunum. Með honum voru 2 nágrannar hans, Tómas bóndi á Reykhólum og Gústaf Jökull bóndi á Miðjanesi.

 

Þegar hrært er í skít, ekki síst á þessum árstíma, losnar lífgas, metan og brennisteinsvetni sem myndast við gerjun í taðinu. Þess vegna er afar mikilvægt að loftræsta vel þar sem verið er að hræra. Þennan dag var mjög gott veður og stillt þannig að þótt opið væri í gegnum húsin var lítil hreyfing á loftinu.

 

Styrmir var inni í húsunum að fylgjast með, en það þarf að færa hræruna af og til svo að allt hrærist upp. Allt í einu fær hann aðsvif og það næsta sem hann man er að þeir Tumi og Gústi eru að stumra yfir honum úti á hlaði. Þeir höfðu litið inn í húsin og sjá hann liggja hreyfingarlausan og áttuðu sig strax á hvað væri á seyði.

 

Oft er það svo að bændur eru einir að vinna við að tæma úr hauggeymslum, og þá er brýnt að hafa í huga að enginn Gústi eða Tumi er til að drösla mönnum út.

 

Styrmir jafnaði sig sem betur fer fljótt, en fékk skurði og mar í andlit við fallið.

 

 

 

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er fyrirhuguð í Flatey

mánudaginn 2. maí 2022, kl. 13:30 – 14:30.

 

Sjá auglýsingu frá sýslumanni.

 

28. apríl 2022

Póstdreifing 2 daga í viku

Pósturinn mun dreifa bréfum tvisvar í viku um land allt, frá og með 1. maí næstkomandi.

Pósti verður dreift þriðjudaga og fimmtudaga.

mynd, Íris Björg Guðbjartsdóttir
mynd, Íris Björg Guðbjartsdóttir

Andrésar Andar leikarnir voru settir miðvikudaginn 20. apríl á Akureyri, við mikinn fögnuð þátttakenda og annarra gesta enda hafa leikarnir ekki verið haldnir tvö síðustu ár.

Skíðafélag Strandamanna átti 23 fulltrúa á leikunum, á aldrinum 5 – 15 ára og voru 5 af þeim úr Reykhólahreppi.

 

Það er skemmtileg grein um þetta og myndir á strandir.is

Árshátíð Reykhólaskóla verður haldin fimmtudaginn 28. apríl klukkan 19:00.

 

Allir velkomnir.

Atburðadagatal

« gst 2022 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31