Tenglar

19. júní 2022

Blautur 17. júní

Að þessu sinni voru hátíðahöld á þjóðhátíðardaginn í Hvanngarðabrekkunni á Reykhólum. Undanfarin fjölmörg ár hafa hátíðahöldin verið í Bjarkalundi, en nú eru þar vinnubúðir verktakafyrirtækisins Suðurverks næstu 2 árin og hótelið lokað.

 

Það rigndi nokkuð og kom það niður á aðsókninni, en fólkið sem kom skemmti sér hið besta. Unga kynslóðin fór í leiki og það lánaðist að hóa saman fullorðnu fólki í reiptog, sem var ansi tvísýnt hvernig myndi enda.

 

Lions bauð upp á grillaðar (eða soðnar) pylsur og krakkarnir fengu andlitsmálningu sem rann merkilega lítið í rigningunni. Útihátíðarveðrið var svo í dag.

 

481. sveitarstjórnarfundur sem vera átti 9. júní en var frestað, verður haldinn fimmtudaginn 16. júní kl. 15:00.

Í Tilkynningum er fundarboðið eins og venjulega.

Hvanngarðabrekka
Hvanngarðabrekka

Hátíðahöld föstudaginn 17. júní verða í Hvanngarðabrekkunni á Reykhólum að þessu sinni, undir umsjá Reykhóladeildar Lions. Dagskráin hefst kl. 14.

 

Félagar úr Lions grilla pylsur fyrir gesti, unglingar úr Nemendafélagi Reykhólaskóla verða með opna sjoppu og sjá um leiki með börnum á öllum aldri.

 

Í Reykhólabúðinni verður opið, þar verður hægt að fá kaffiveitingar milli kl. 13 og 17.

 

Allir hjartanlega velkomnir,

 

Reykhóladeild Lions og Nemendafélagið.

 

Vegna þess að ekki hefur tekist að manna störf við Grettislaug verður sumaropnun frestað um viku, meðan þess er freistað að ráða starfsfólk.

Ákvörðun um opnunartíma verður endurskoðuð í næstu viku.

Lögboðnum fundi sveitarstjórnar sem halda á fimmtudaginn 9. júní n.k. er frestað, nánari tímasetning fundar auglýst fljótlega.

1 af 4

Núna í byrjun mánaðarins, þann 1. átti Baldvin Smárason bóndi á Bakka fertugsafmæli. Vitandi að allt er fertugum fært ákvað hann að verja deginum í að plægja spildu innar í dalnum, töluverðan spöl frá bænum.

Það byrjaði nú ekki sérlega vel, þegar hann var að fara til að dæla olíu á traktorinn kemur hann auga á dauða kind sem hann átti og var dánarorsök ókunn.

 

Þegar Baldvin var um það bil hálfnaður að plægja tekur hann eftir að það rýkur undan vélarhlífinni á traktornum og hann snarast út til að athuga hverju þetta sæti. Þá er farið að loga undir húsinu og eykst hratt. Þegar hann ætlar að hringja í neyðarlínuna áttar hann sig á að síminn er inni í vélinni og eldurinn hafði magnast það mikið að hann ákvað að reyna ekki að ná í símann.

 

Hann hljóp af stað heim og var ekki kominn marga tugi metra þegar húsið á traktornum var orðið alelda.

Þegar slökkviliðið kom var mest allt brunnið sem brunnið gat og gekk greiðlega að slökkva, eldur hafði borist í sinu en nógu mikill raki var í jörðinni svo auðvelt var að ráða við það.

Sem eðlilegt var þótti Baldvin þetta ekki ákjósanlegur endir á afmælisdeginum en bar sig samt vel.

 

Því má svo bæta við þessa sögu að Árný Huld, kona Baldvins, hafði án hans vitundar undirbúið veislu sem haldin var í íþróttasalnum á Reykhólum helgina á eftir og boðið þangað vinum og fjölskyldum.

Þegar átti að plata hann undir einhverju yfirskini út að Reykhólum í veisluna, þá finnst ekki Baldvin.. (þið munið að síminn hans brann í traktornum) en hann hafði þá bara skotist yfir að Brekku, grunlaus um að nokkuð merkilegt stæði til. Hann varð svo bæði hissa og glaður þegar hann hitti veislugestina og líka hissa á að krakkarnir þeirra skyldu geta haldið þessu leyndu.

 

 

mynd, Bettina Seifert
mynd, Bettina Seifert
1 af 4

Búið er að opna Báta og hlunnindasýninguna á Reykhólum.

 

Á sýningunni er yfirlit um hlunnindanytjar við Breiðafjörð og í Breiðafjarðareyjum. Einnig er fróðleikur um dýra- og fuglalíf.

 

Á bátasafninu eru einkum súðbyrðingar með breiðfirsku lagi, einnig er þar nokkuð stórt safn gamalla bátavéla, sumar sjaldgæfar.

Bátasafnið hefur jafnframt verið verkstæði þar sem unnið hefur verið að bátasmíði og viðgerðum, þar hafa líka verið haldin námskeið í bátaviðgerðum.

 

Á fimmtudögum og föstudögum í sumar verður Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður þar við vinnu og gefst gestum sýningarinnar kostur á að fylgjast með bátaviðgerðum. Þannig er þetta að nokkru leyti lifandi safn.

Það er vel ómaksins vert að staldra við og skoða Báta- og hlunnindasýninguna.

 

Sýningin er opin alla daga vikunnar fram í miðjan ágúst, milli kl. 11 og 18.

 

 

 

 

Grettislaug er opin á sunnudag, 5. júní  kl. 13 - 17,

og mánudaginn 6. júní  kl, 17 - 21.

Nýja sveitarstjórnin; fv. Vilberg Þráinsson, Árný Huld Haraldsdóttir, Margrét Dögg Sigurbjörnsdóttir, Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Hrefna Jónsdóttir
Nýja sveitarstjórnin; fv. Vilberg Þráinsson, Árný Huld Haraldsdóttir, Margrét Dögg Sigurbjörnsdóttir, Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Hrefna Jónsdóttir

Við þökkum fyrir traustið sem okkur var sýnt í kosningunum.

Við erum mjög spennt fyrir komandi samstarfi og förum jákvæð og bjartsýn inn í kjörtímabilið. Við teljum að tækifærin til uppbyggingar séu gríðarlega mörg og hlökkum til að reyna að grípa þessi tækifæri fyrir samfélagið okkar.

 

Jafnframt erum við mjög ánægð að Ingibjörg Birna var tilbúin til áframhaldandi samstarfs. Ingibjörg Birna hefur sinnt starfi sínu sem sveitarstjóri af heilindum og metnaði og hefur ávallt hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Það er því mikið happ fyrir sveitarfélagið að hún muni áfram sinna þessu starfi. 

 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps

 

Starfsmaður óskast í félagslega heimaþjónustu á Reykhólum.

 

Umsóknarfrestur er til og með 15. júní 2022.

 

Laun eru samkvæmt taxta Verk-Vest.

 

Umsóknir sendist Soffíu Guðmundsdóttur, félagsmálastjóra, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík.

 

Upplýsingar eru veittar í síma 451-3510 og fyrirspurnir og umsóknir má einnig senda á felagsmalastjori@strandabyggd.is

 

 

Atburðadagatal

« gst 2022 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31