Tenglar

28. febrúar 2012 |

Vilja stemma stigu við útbreiðslu tófunnar

Dýrbitin ær á Ströndum. Myndin fengin á vef Jóns Halldórssonar á Hólmavík.
Dýrbitin ær á Ströndum. Myndin fengin á vef Jóns Halldórssonar á Hólmavík.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Norðvesturkjördæmis, er fyrsti flutningsmaður tillögu sem felur það í sér að tilhögun refaveiða verði breytt. Í greinargerð segir, að „sá losaragangur“ sem viðgengist hafi á stjórnun refaveiða undanfarna áratugi hafi ásamt friðun ákveðinna landsvæða leitt af sér óhóflega stækkun refastofnsins.

 

Tillagan er á þessa leið:

  

Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að breyta framtíðarskipan refaveiða. Markmiðið verði að refastofninum verði haldið innan eðlilegra marka en svo það náist feli breytingarnar eftirfarandi í sér:

  • a. Að refaveiðar verði ekki bannaðar á ákveðnum landsvæðum.
  • b. Að teknar verði aftur upp greiðslur úr ríkissjóði vegna fækkunar refa.
  • c. Að rannsóknir verði á hendi vísindamanna en veiðistjórnun, þ.e. skipulagning, stjórnun og leiðbeiningarþjónusta við veiðimenn, á hendi reyndra veiðimanna.
  • d. Að samið verði við Samband íslenskra sveitarfélaga eða landshlutasamtök sveitarfélaga um að sjá um skipulagningu veiðanna og greiðslur til veiðimanna.
  • e. Að greiðslur fyrir hlaupadýr og grenjavinnslu verði þær sömu um land allt.

Umhverfisráðherra leggi fyrir Alþingi fyrir 1. apríl 2012 frumvarp til laga um þau atriði sem krefjast lagabreytinga.

 

Meðflutningsmenn Ásmundar Einars eru Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir, Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Einar K. Guðfinnsson, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Árni Johnsen.

 

Í greinargerð með tillögunni segir m.a.:

  • Sá losaragangur sem viðgengist hefur á stjórnun refaveiða undanfarna áratugi hefur ásamt friðun ákveðinna landsvæða leitt af sér óhóflega stækkun refastofnsins. Dr. Páll Hersteinsson, sem stundaði rannsóknir á íslenska refnum í áratugi, sagði í viðtali í Morgunblaðinu 15. desember 2010 að íslenski refastofninn hafi verið um 1,000 dýr í lágmarkinu 1973–1975 og miðar hann þá við hauststofn. 2007 sé stofninn áætlaður um 10.000 dýr og hafi því tífaldast frá því 30 árum áður. Líkur má leiða að því að stofninn hafi stækkað með líkum hraða síðan 2007.
  • Á þessum tíma hefur refurinn fært sig nær byggð og á síðustu árum er æ algengara að dýrbitið sauðfé finnist. Því leggjast gríðarlegar fjárhagslegar byrðar á fámenn en landstór sveitarfélög þar sem skilningur hefur þó verið á vandamálum sem upp geta komið í náttúrunni þegar handleiðslu mannsins nýtur ekki lengur og stofnar afræningja vaxa úr hófi.
  • Skaða á fuglalífi vegna friðunar og tilviljanakenndra veiða má vel sjá á Vestfjörðum og víðar, af þeim sökum er afar brýnt að koma skipulagi aftur á refaveiðar.
  • Fyrir tveimur árum ákvað ríkisstjórnin að hætta stuðningi við refaveiðar þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts af hlutdeild sveitarfélaganna væru hærri en heildarútgjöld ríkisins. Við þessu var varað enda ljóst að mörg sveitarfélög mundu af fjárhagsástæðum nota tækifærið og skera niður fjárveitingar til refaveiða.

 

„Stærð stofnsins hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum og áhrifin koma meðal annars fram í fækkun fugla, vaxandi vanda vegna dýrbíta og fleira. Það var mjög óskynsamleg ákvörðun að hætta stuðningi við refaveiðar líkt og ríkisstjórnin stuðlaði að í lok árs 2010. Markmiðið með tillögunni er að breyta framtíðarskipan refaveiða með það að markmiði að halda stofnstærð innan eðlilegra marka“, segir Ásmundur Einar Daðason í tilkynningu.

 

Þeir sem vilja lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu eða málefnið yfirleitt geta sent Ásmundi Einari tölvupóst.

 

Tillagan ásamt greinargerðinni í heild og sögu af tófu með 23 þúfutittlingsunga í kjaftinum

Vilja að ríkið styðji áfram veiðar á ref og mink

Frétta- og ljósmyndavefur Jóns Halldórssonar

Dýrbítur- niðurstöður myndaleitar - sumt af því tæpast fyrir mjög viðkvæma

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2022 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31