Tenglar

28. mars 2011 |

Verulegur hluti Reykhólahrepps þjóðgarður?

Kort úr greinargerðinni með tillögunni.
Kort úr greinargerðinni með tillögunni.
Þingmennirnir Mörður Árnason og Róbert Marshall hafa lagt fram þingsályktunartillögu, sem felur það í sér að umtalsverður hluti Reykhólahrepps verði gerður að þjóðgarði. Jafnframt leggjast þeir gegn því að valin verði Leið B um vesturhluta Reykhólahrepps, eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni. Sjálf tillagan hljóðar svo: „Alþingi felur umhverfisráðherra að undirbúa stofnun þjóðgarðs við norðanverðan Breiðafjörð, á svæðinu milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar. Ráðherra lýsi undirbúningi sínum fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps eða skýrslu fyrir árslok 2011.“

 

Ítarleg greinargerð fylgir tillögunni. Þar segir m.a.:

 

„Að undanteknum Hornströndum er ekki mikið um náttúrufriðlönd á Vestfjarðakjálkanum og þar er engan þjóðgarð að finna. Fá svæði henta eins vel fyrir þjóðgarð og landið á milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar við norðanverðan Breiðafjörð, sem sjálfur nýtur sérstakrar verndar (lög nr. 54/1995) ásamt eyjum, hólmum, skerjum og fjörum.

 

Landsvæði þjóðgarðsins sem hér er lagður til nær frá vestanverðum Þorskafirði um Djúpafjörð, Gufufjörð, Kollafjörð, Kvígindisfjörð, Skálmarfjörð, Vattarfjörð, Kerlingarfjörð, Mjóafjörð, Kjálkafjörð og Vatnsfjörð, þar sem þegar er friðland, og svo langt upp í dali og hálendi að norðan sem hæfa þykir. Um er að ræða suðurhluta hinna gömlu Gufudalssveitar og Múlasveitar, nú í Reykhólahreppi sem nær yfir alla hina fornu Austur-Barðastrandarsýslu, og austasta hluta Barðastrandarhrepps gamla í vestursýslunni, nú í Vesturbyggð.

 

Eðlilegt er að helstu starfsstöðvar þjóðgarðsins, gestamóttaka og fræðslusetur séu annars vegar vestan garðsins, í Flókalundi og á Brjánslæk, með ferjusamgöngum til Flateyjar og Stykkishólms, og hins vegar að austanverðu í Bjarkalundi og á Reykhólum, en þaðan og frá Stað á Reykjanesi eru einnig farnar ferðir út á Breiðafjörð. Þá er stutt á Látrabjarg, á syðstu firði hinna eiginlegu Vestfjarða, og yfir á Strandir.“

 

Enn fremur segir í greinargerðinni:

 

„Þjóðgarður í fjörðunum við Breiðafjörð norðanverðan eykur áhuga á ýmsum friðlöndum og náttúruundrum í næsta nágrenni. Þar er helst að nefna Breiðafjarðareyjar og fuglasvæði í Borgarlandi og við Reykhóla, vestur af þjóðgarðinum Látrabjarg og Rauðasand, og síðan syðsta hluta hinna eiginlegu Vestfjarða, ekki síst Arnarfjörð, þar sem meðal annars stendur yfir uppbygging á Hrafnseyri. Að sjálfsögðu tengist þjóðgarðurinn síðan sívaxandi ferðasvæði í Dölum og um allt Snæfellsnes.

 

Núverandi atvinnurekstur á svæðinu er einkum búrekstur á um tug býla, og getur allur haldið áfram við stofnun þjóðgarðs með sérstökum samningum við bændur. Hefðbundin nýting lands og sjávar eykur gildi þjóðgarðsins fyrir ferðafólk, og þjóðgarðsstofnun gæti styrkt þar hefðbundinn búrekstur sem ekki síst byggist á hlunnindabúskap, fuglatekju, æðarrækt og sjósókn. Þjóðgarði fylgir einnig atvinnuuppbygging til framtíðar. Þar þarf starfsfólk og þjónustu við ferðamenn í þjónustu- og fræðslumiðstöðvum. Núverandi verslunarrekstur eflist, svo sem í Bjarkalundi, á Reykhólum, í Flókalundi og á Brjánslæk. Einnig er auðséð að byggðin í Flatey mundi njóta góðs af og á Patreksfirði ykjust komur ferðafólks að sækja sér þjónustu.“

 

Þess má geta hér, að mörk Reykhólahrepps og Vesturbyggðar eru við Skiptá í Kjálkafirði, næsta firði austan Vatnsfjarðar. Þannig yrði aðeins allra vestasti hluti þjóðgarðsins, ef af verður, utan marka Reykhólahrepps.

 

Tillöguna og greinargerðina í heild má lesa hér (pdf).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31