Tenglar

11. desember 2012 |

Þörungaverksmiðjan er burðarás í samfélagi sínu

Einar Sveinn Ólafsson framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar í ræðustól.
Einar Sveinn Ólafsson framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar í ræðustól.

Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum greiddi á síðasta ári rúmar 142 milljónir króna í laun og launatengd gjöld. Í opinber gjöld til ríkisins og Reykhólahrepps greiddi fyrirtækið tæpar 30 milljónir króna. Fyrirtækið er stærsti einstaki vinnuveitandinn í Reykhólahreppi með um 14 ársverk auk sjö verktaka sem annast þangslátt.

 

Þetta kom fram í máli Einars Sveins Ólafssonar framkvæmdastjóra á kynningarfundinum sem hér var greint frá.

 

Þörungaverksmiðjan nýtir þörungagróður úr Breiðafirði og jarðhita á Reykhólum til að þurrka klóþang (ascophyllum nodosum) og hrossaþara (laminaria digitata). Til öflunar hráefnis gerir verksmiðjan út þangflutningaskipið Gretti, tvo dráttarbáta og sex sláttupramma.

 

Á vegum Hafrannsóknastofnunar hafa verið gerðar uppskerumælingar á þangi í Breiðafirði. Þær benda til þess að lífmassi klóþangs sé að meðaltali milli 6 og 7 kg á fermetra. Miðað við það og mælingar á heildarflatarmáli fjöru í firðinum má gera ráð fyrir að í Breiðafirði séu meira en milljón tonn af klóþangi.

 

Þörungaverksmiðjan slær árlega að jafnaði um 15 þúsund tonn eða innan við 2% af stofninum. Reynslan sýnir að eftir slátt nær þangið fyrri þéttleika þremur til fimm árum eftir skurð, sem bendir til að nýtingarálag sé mjög lítið.

 

Hráefnisöflun og framleiðsla Þörungaverksmiðjunnar eru lífrænt vottuð af Vottunarstofunni Túni, sem jafnframt er eftirlitsaðili Quality Assurance International (QAI) í Bandaríkjunum.

 

Mjölið frá Þörungaverksmiðjunni er afar eftirsótt vegna hinnar umhverfisvænu framleiðslu, hreinleika hráefnis og mikilla bindieiginleika sem hátt hlutfall alginats framkallar. Allir helstu kaupendur afurðanna vinna mjölið áfram til ýmissa nota.

 

Afurðir Þörungaverksmiðjunar eru notaðar um allan heim til framleiðslu á fjölbreyttum vörum - í krydd, fæðubótarefni, snyrtivörur, lyfjagerð, fatagerð, dýrafóður og grasáburð.

 

Á síðasta ári voru slegin rúm 11 þúsund tonn af þara. Flutt voru út um 6.000 tonn af mjöli og nam verðmæti útflutningsins um 490 milljónum króna.

 

Meira en 95% af framleiðslu Þörungaverksmiðjunnar eru seld á erlendum mörkuðum. Helstu markaðir eru Skotland, Bandaríkin, Bretland, Noregur, Holland, Þýskaland, Frakkland, Japan og Taiwan.

 

Vegna starfsemi sinnar á Þörungaverksmiðjan umtalsverð viðskipti við fjölda fyrirtækja um allt land sem selja vöru og þjónustu. Á árinu 2011 var fjöldi birgja rúmlega 250. Viðskipti við þá nam tæpum 90 milljónum króna.

 

Þörungaverksmiðjan leggur mikla áherslu á öryggismál og hefur hlotið verðlaun sem fyrirmyndarfyrirtæki í forvörnum.

 

Eigendur Þörungaverksmiðjunnar hf. eru bandaríska fyrirtækið FMC Corporation (72,05%) og Byggðastofnun (27,66%). Aðrir hluthafar, um 70 talsins, eiga 0,29 prósent hlutafjár. Auk Bandaríkjanna er FMC með starfsemi í Skotlandi og Noregi. FMC er stærsti einstaki kaupandi afurða Þörungaverksmiðjunnar, sem starfar náið með FMC, einkum fyrirtækjum þess í Skotlandi og Noregi. FMC er leiðandi á sviði sérhæfðrar efnaframleiðslu og eiga framleiðsluvörur fyrirtækisins m.a. ríkan þátt í því að treysta sjálfbæra matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu í heiminum.

 

Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum var stofnuð árið 1986. Undanfari hennar var Þörungavinnslan hf. sem hóf starfsemi árið 1975.

 

Rekstur Þörungaverksmiðjunnar hf. gengur vel. Fyrirhugað er að efla hann enn frekar á komandi árum, m.a. með því að hefja framleiðslu til manneldis.

 

Athugasemdir

Þorgeir Samúelsson, mivikudagur 12 desember kl: 02:10

Fátt er hollar ungu barni í æsku en að missa föður sinn í æsku...þetta sagði Haldór Laxnes í ágtri bók...kanski er þetta samnefnari fyrir mína reynslu af fátæku framtaki míns æskusveitafélags...Framtakssamir menn eins og hann Játvarður bóndi á Miðjanesi...sem lagði grunn að byggingu mjólkursamlags á Reykhólu árið 1960...honum hlottnaðist ekki sá heiður þrátt fyrir viljan að þetta yrði að veruleyka....samt búin að byggja sýnu búi af framsýni eina alvöru kúafjós í sveitinni!...honum hlottnaðist samt sá heiður sem eldri vita ..þetta eineggja tal um hvað..væri mikil þýðing fyrir að fólk hefði vinnu og afkomu...Játvarður var einant hugað um um hver jól er maður heimsótti þennan aldna og bjartsýna mann....hvað væri framundan...hann spurði jafnt unga sem aldna um hag þess og horfur...hann hafði jafnan áhuga á nýja tímanum og þeim gamla...enda tölvuvæddist hann með fræknum árangri að nota hjálpartæki. Kanski hefur þessi einstaklingur kennt mér meira um hvað við erum heppin með að vera stödd hér á þessu svæði sem kallast Breiðafjörðurvælandi og grenjandi undan öllu....hugum samt ekki að heppninni að vera hér...í frelsinu... Munum samt að styðja okkar nágranna í þeirra erfiðleykum...þannig fáum við til baka það sem við erum búin að vera að leyta allat tíð...SAMSTÖÐU

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31