Tenglar

21. desember 2014 |

Þegar sólin gægðist til Reykhóla á stysta degi ársins

21. desember 2008 kl. 13.13 / hþm.
21. desember 2008 kl. 13.13 / hþm.

Vetrarsólstöður (vetrarsólhvörf) ber að þessu sinni upp á daginn í dag, 21. desember, eins og algengt er, en þær geta þó verið dagana fyrir og eftir þessa dagsetningu. Þá er sólin lægst á lofti og sólargangur stystur, en strax á morgun fer daginn að lengja um hænufet. Rétt hádegi hér á landi, þegar sólin er í hásuðri og hæst á lofti, er milli klukkan eitt og tvö „eftir hádegi“, þ.e. eftir hádegið á klukkunni, sem stemmir alls ekki við rétt hádegi. Hér sem annars staðar byrjar rétt hádegi austast á landinu og færist svo vestur um eftir snúningi jarðar.

 

Myndin var tekin á Reykhólum kl. 13.13 á vetrarsólstöðum fyrir sex árum, þann 21. desember 2008, rétt fyrir „rétt hádegi“. Sætt var færis að taka myndina þegar eldbjört sólin gægðist örstutta stund til Reykhóla gegnum skarð í fjallgarðinum upp af Skarðsströndinni, eins og til að gá hvort ekki væri allt í sómanum þarna við innanverðan Breiðafjörð. Skömmu síðar, þegar sólin var hæst á lofti daginn þann þegar hún var lægst á lofti, var hún horfin Reykhólabúum á ný.

 

Þennan dag árið 1844 eða fyrir réttum 170 árum orti Jónas Hallgrímsson vísuna alkunnu hér fyrir neðan. Skammdegisþunglyndið kannski með alversta móti á skemmsta degi skammdegisins. Hann dó svo um vorið með hækkandi sól.

 

Enginn grætur Íslending,

einan sér og dáinn.

Þegar allt er komið í kring

kyssir torfa náinn.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31