Tenglar

28. nóvember 2012 |

„Sumarstund við Breiðafjörð“ fyrir 67 árum

Bjarkalundur í árdaga, fullgerður og vígður 1947 en tekinn í notkun dálitlu fyrr og þá kallaður Skálinn. Mynd í eigu Unnsteins H. Ólafssonar á Grund.
Bjarkalundur í árdaga, fullgerður og vígður 1947 en tekinn í notkun dálitlu fyrr og þá kallaður Skálinn. Mynd í eigu Unnsteins H. Ólafssonar á Grund.

Þegar þessum þrönga og gróðurlitla dal sleppir, þá kemur maður í Saurbæinn og les á augabragði framtíðarsögu hans, þegar hann er orðinn eitt samfellt akurlendi, yrkt með fullkomnustu jarðyrkjutækjum framtíðarinnar. Þá sögu er maður sem óðast að skapa í huga sér, þegar maður er allt í einu kominn í bíldrápsskriður, sem bannaðar mundu vera til yfirferðar, ef á landi hér væri voldugt bílaverndunarfélag.

 

Ofanritað er klausa úr erindi sr. Gunnars Benediktssonar í þættinum Um daginn og veginn í útvarpinu 10. september 1945. Erindið fjallar um ferð vestur í Reykhólasveit og bar yfirskriftina Sumarstund við Breiðafjörð. Þegar þarna var komið sögu lá leiðin ofan af Svínadal og niður í Saurbæ. Gunnar heldur áfram:

 

Hér gætir maður lítt annars en að mæla með augunum leiðina niður í Gilsfjörðinn og reyna að gera sér hugmyndir um, hvernig bíllinn muni koma til með að velta þessa leið og hvort þess muni vera nokkur kostur að verja líf sitt í bílnum, þar til komið er niður í sjó, svo að maður njóti þó hins sæta sjódauða. Þessar hugleiðingar eiga þó ekki verulega djúpar rætur, því að maður hefur það á tilfinningunni, að því verri sem vegir eru á Íslandi, því minni er hættan á bílslysum.

 

En þá heyrir maður allt í einu nefndan Ólafsdal. Og þarna er Ólafsdalur, eilítil skora inn í skriðubrött fjöllin, einangruð frá öllu gróðurlendi. Slíka lexíu hafði ég aldrei fyrr lesið um skólann í Ólafsdal, brautryðjandann í búnaðarmenntun á Íslandi. Aldrei fyrr hafði ég haft hugmynd um, hvílíkt ofurmannlegt áræði og þrek hefur til þess þurft að ráðast í skólastofnun upp á sitt eindæmi á þessum stað og starfrækja hann með þeim ágætum, að ljóma leggur af fram á þennan dag.

 

Þó er það fyrst í Reykhólasveitinni, sem ímyndunargáfan fær stormviðrisbyr undir vængina, enda er maður nú orðinn ölvaður af þreytu. Það er verið að reisa gistiskála miðs vegar milli Þorskafjarðar og Berufjarðar. Yndislegri stað til þeirra hluta get ég vart hugsað mér. Mildar og mjúkar kjarrbrekkur með skjólum fyrir öllum áttum, ósnortin heiðanáttúra niður á láglendi. Leiðir í allar áttir til hærri og lægri fjalla, eftir því sem hver og einn hefur áræði og þrek til að leita hátt og hvaða staði hann óskar að sjá yfir, - allt til Vaðalfjalla, sem eru með hæstu fjöllum á Vesturlandi og hvaðan sjá má vítt um.

 

Þá er ekki hörgull á því að komast til staða, sem saga þjóðarinnar á mikils upp að unna. Örskammt er til Kinnarstaða. Þar geta íþróttamennirnir lagt til sunds og leikið eftir afrek Kinnskjárs með því að þreyta sund yfir fjörðinn. Litlu fjær eru Skógar, æskustöðvar Matthíasar Jochumssonar.

 

Hæfileg miðdegisganga er út að Barmahlíð „með blágresið blíða og berjalautu væna“. Þótt ekki þurfi að fara alla leið þangað vegna þeirra gæða, því að gnægð er þeirra hvervetna um þessar slóðir, þá ómar þessi þjóðkæra vísa hvergi eins ljúflega í hjartanu og á þessum stað.

 

Vilji dvalargesturinn eyða einum degi í ferðalag frá skálanum, þá fer hann alla leið út á Reykjanes og þá fyrst og fremst að Reykhólum. Ekki væri úr vegi að fá sér bát og róa út í eyjuna, þar sem Þorgils geymdi uxa sína. „Eigi skal skuturinn eftir liggja, ef allvel er róið í fyrirrúmi,“ sagði Grettir á þeirri leið. Á Reykhólum ól Jón Thoroddsen*) líka æsku sína.

 

Þá væri mjög heilsusamlegt fyrir okkur alla, sem höfum valið okkur það hlutskipti að skrifa svívirðingar um náungann í göfugum tilgangi, að halda hópinn að Miðhúsum, leggjast þar í eitthvert lautardrag, þar sem við getum hugsað okkur, að Gestur Pálsson hafi hallað sér, þegar skáldið byltist í brjósti hans á æskuárum. Og þar skulum við lesa hver fyrir annan „Lífið í Reykjavík“ og þó sérstaklega „Saltfiskverzlun og bróðurkærleik“ og athuga, hvort við getum framar verið þekktir fyrir að svívirða náungann á jafnfrábærlega klaufalegan og smekklausan hátt og við látum okkur nú sæma.

 

_____________________________________

 

Gunnar Benediktsson: Um daginn og veginn. Brot úr útvarpserindum. Bókaútgáfa Pálma H. Jónssonar. Akureyri 1949.

 

Sr. Gunnar Benediktsson (1892-1981) var þjóðkunnur sem útvarpsmaður, rithöfundur og eldhugi í baráttunni á vinstri væng stjórnmálanna. Hann var lengst af búsettur í Hveragerði.

 

Gylfi Helgason á Reykhólum benti umsjónarmanni vefjarins á þetta útvarpserindi sr. Gunnars Benediktssonar.

 

Myndin af Bjarkalundi í árdaga sem hér fylgir er úr fórum Unnsteins Hjálmars Ólafssonar á Grund í Reykhólasveit (Hjalla á Grund). Hún er væntanlega tekin kringum 1950.

 

*) Pennaglöp leiðrétt; í bókinni stendur Skúli Thoroddsen. Jón Thoroddsen (1818-1868), sýslumaður, ljóðskáld („Hlíðin mín fríða“) og frumkvöðull í skáldsagnagerð hérlendis (Piltur og stúlka, Maður og kona), fæddist og ólst upp á Reykhólum. Sonur hans, Skúli Thoroddsen (1859-1916), sýslumaður og alþingismaður, fæddist hins vegar í Haga á Barðaströnd þegar faðir hans var sýslumaður þar og átti aldrei heima á Reykhólum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2022 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31