Tenglar

31. maí 2012 |

Styrkur til endursmíði báts frá árdögum Íslendinga

Úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1966.
Úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1966.
1 af 7

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt Hjalta Hafþórssyni á Reykhólum myndarlegan fjárstyrk til að endursmíða Vatnsdalsbátinn svonefnda. Hjalti hafði sótt um styrk til þessa verkefnis frá Menningarráði Vestfjarða við síðari úthlutun síðasta árs en verið hafnað. Vatnsdalsbáturinn fannst 1964 í kumli (legstað úr heiðnum sið) í Vatnsdal við sunnanverðan Patreksfjörð. Verkefni Hjalta nefnist Horfin verkþekking.

 

Styrkir eins og hér um ræðir frá ráðuneyti mennta- og menningarmála eru veittir undir liðnum „styrkir sem Alþingi veitti áður“. Fyrir árið 2012 voru styrkir veittir til eins af hverjum fimm verkefnum sem sótt var um.

 

Höfnun styrkveitingar frá Menningarráði Vestfjarða var að sögn Hjalta rökstudd með því, að umsóknin væri ekki nógu vel frá gengin. Hjalti sendi umsóknina þá óbreytta til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, þar sem hún var tekin til efnislegrar meðferðar. Þar var verkefninu sýndur mikill áhugi og kom fram að umsóknin væri mjög vel fram sett.

 

Hjalti hefur kynnt sér þetta viðfangsefni síðasta áratuginn og víða leitað fanga. Hann er einn þeirra sem lögðu grunninn að Félagi áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum.

 

Í ítarlegri greinargerð Þórs Magnússonar fornleifafræðings og síðar þjóðminjavarðar um kumlfundinn í Vatnsdal (Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1966) kemur fram, að þarna hafi sjö manneskjur verið heygðar, þrjár konur og fjórir karlar. Með þeim hefur hundur verið lagður. Í kumlinu var mikill fjöldi rónagla úr bátnum ásamt viðarleifum. Af öðru haugfé má nefna perlur úr steinasörvi, Þórshamar úr silfri, fingurhring og armbauga úr bronsi, bronsbjöllu, kamba, blýmet, skrauthengi (kingu) úr bronsi, hníf og brýni.

 

Meðfylgjandi teikningar sem fylgdu umsókn Hjalta (myndir 2 og 3) gerði Eggert Björnsson á Patreksfirði, sem einnig er meðal stofnenda ofangreinds áhugamannafélags, eftir frumrissi Hjalta. Á seinni myndinni kemur fram hugmynd Hjalta um tilgang hvalbeinsstykkja sem voru mönnum ráðgáta. Á mynd 4 eru línur byrðinganna dregnar inn á upprunalega teikningu af rónöglunum í kumlinu. Mynd 5 er af módeli sem Hjalti smíðaði sem fyrstu tilraun sér til glöggvunar. Myndir 1, 6 og 7 eru af síðum í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1966. Smellið á myndirnar til að stækka þær.

 

 

Hér fyrir neðan er fróðleikur um Vatnsdalsbátinn úr bók Jóns Þ. Þór sagnfræðings,

Sjósókn og sjávarfang, saga sjávarútvegs á Íslandi, I. bindi, árabáta- og skútuöld, 2002.

 

Þriðja bátkumlið, sem nokkuð örugglega hafði að geyma fiskibát, fannst í Vatnsdal í Patreksfirði sumarið 1964. Í kumlinu fannst mikið af mannabeinum og rónöglum, auk ýmissa annarra hluta, og þar mátti sjá greinilegt far eftir bát. Þór Magnússon rannsakaði kumlið og lýsti haugfénu. Dró hann þá ályktun, að báturinn hefði „varla verið mikið yfir sex metra langur [...] og 0.95 sm. breiður, þar sem hann var breiðastur.“ Um smíðina fórust honum svo orð:

 

Af þeim viðarleifum, sem eftir voru, sást, að báturinn hefur verið smíðaður úr barrviði, líklega helzt lerki. Ekki er unnt að gera sér grein fyrir neinum smáatriðum í smíðinni, nema því, að borðin virðast helzt hafa verið sex hvorum megin, frekar mjó, en yfirleitt eru bátar þeir, sem fundizt hafa frá víkingaöld, úr mjög breiðum borðum. Þeir eru einnig oft úr eik, en eikarborð eru eðlilega mun sterkari en borð úr barrviði. Öll bönd voru horfin, og sást ekkert marka fyrir þeim. Var heldur ekki um að ræða lengri nagla á þeim stöðum, þar sem ætla mætti að böndin hefðu verið og þau hefðu verið negld með. Er hugsanlegt, að þau hafi verið negld við byrðinginn með trésaum eða reyrð við hann með böndum [...] Grunnt far sást eftir kjölinn, og voru viðarleifarnar þar allmiklu dekkri að lit en í byrðingnum.

 

Engin ástæða er til annars en taka undir ályktun Þórs um stærð og gerð bátsins í Vatnsdal. Leifarnar úr kumlinu hafa ekki verið aldursgreindar, en þær eru örugglega úr heiðnum sið og geta, ásamt Dalvíkurbátunum, gefið athyglisverðar vísbendingar um stærð og notkun íslenskra fiskibáta á 10. öld. Mælingar á bátsfarinu í kumlinu í Vatnsdal bentu til þess, að hann hafi verið liðlega sex metra langur, í mesta lagi.

 

Í kumlinu í Vatnsdal fundust einnig tvö hvalbeinsstykki, sem sýnilega hafa verið negld innan á borðstokkinn bakborðsmegin.

 

Augljóst er, að á svo litlum bát hefur ekki verið róið langt frá landi, og sennilegast er, að hann hafi einkum verið notaður innfjarða og á grunnsævi, enda vart verið hentugt að flytja í honum stjórafæri, sem gagn gerði, jafnvel þótt á grunnu vatni væri. Til þess var hann of lítill. Getur þetta og bent til þess, að báturinn hafi einkum verið notaður við vorveiðar og hugsanlega einnig í snatt við eggja- og dúntekju. Er það í samræmi við það, sem áður hefur verið talið um upphaf fiskveiða við Ísland [...]

 

Leifarnar af bátnum í kumlinu í Vatnsdal verða ekki með vissu greindar til tegundar, en eins og þegar hefur komið fram, hefur hann verið smíðaður úr barrviði, líklega lerki. Barrtré voru miklum mun algengari á rekafjörum en eikartré, og eykur þetta því líkurnar á því, að báturinn hafi verið smíðaður úr rekaviði. Um það verður vitaskuld ekkert fullyrt, en skemmtilegt er til þess að hugsa, að báturinn í kumlinu í Vatnsdal í Patreksfirði kunni að hafa verið fulltrúi elstu kynslóðar þeirra báta, sem smíðaðir voru úr rekaviði hér á landi.

 

Athugasemdir

Eyvindur, fimmtudagur 31 ma kl: 15:57

Til hamingju gamli, verst þykir mér að þú neyðist til að fara með þetta verkefni út fyrir pípuhlið. Gangi þér vel með þetta.

Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, fstudagur 01 jn kl: 09:34

Já, til hamingju Hjalti og bið að heilsa sveitarstjóranum!

Magnús Ólafs Hansson, laugardagur 02 jn kl: 15:24

Kæri vin.
Þetta verkefni þitt er eitthvað sem á alveg örugglega eftir að vekja verðskuldaða athygli víða. Hjartanlega til hamingju.

Kveðja frá Patreksfirði
Magnús Ólafs Hansson

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2023 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30