Tenglar

5. febrúar 2012 |

Stelpurnar okkar deildu fyrstu verðlaununum

Elínborg og Fanney Sif við afhendingu verðlaunanna í Háskólanum í Reykjavík.
Elínborg og Fanney Sif við afhendingu verðlaunanna í Háskólanum í Reykjavík.
1 af 2

Eins og hér hefur verið greint frá lentu þær Elínborg Egilsdóttir og Fanney Sif Torfadóttir í Reykhólaskóla í verðlaunasætum í samkeppni Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni um hugmyndir til góðs fyrir heimabyggðina. Þegar verðlaunin voru afhent kom í ljós, að þær höfðu ekki aðeins unnið til verðlauna heldur hlutu þær efsta sætið í sameiningu. Dómnefndin treysti sér ekki til að gera upp á milli þeirra, þannig að þær teljast hvor um sig hafa lent í 1.-2. sæti. Hér eru nöfn þeirra tveggja þess vegna í stafrófsröð!

 

Afhending verðlaunanna fór fram í Háskólanum í Reykjavík á þriðjudaginn. Athöfnina setti Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, en ávörp fluttu Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ragna Árnadóttir fyrrv. dómsmálaráðherra, Guðmundur Rúnar Árnason bæjarstjóri í Hafnarfirði og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps.

 

Í tilkynningu frá stjórn Landsbyggðarvina segir svo um verkefni Elínborgar og Fanneyjar Sifjar:

 

  • Dómnefnd verðlaunar sameiginlega í 1.-2. sæti Elínborgu Egilsdóttur, nemanda í 9. bekk Reykhólaskóla, og Fanney Sif Torfadóttur í 8. bekk sama skóla.
  • Elínborg sendi inn ritgerð, sem kalla mætti Ylströnd við Þörungaverksmiðju. Setur hún fram áhugaverðar og metnaðarfullar tillögur um ferðamennsku á Reykhólum, sem byggjast á því að vekja athygli á landsins gæðum í heimabyggð hennar, Reykhólum. Meginhugmyndin er djörf og byggir á nýtingu jarðvarma, sem rennur frá Þörungaverksmiðjunni, og að koma á fót ylströnd í líkingu við Bláa lónið. Hugmyndir Elínborgar eru settar fram af sannfæringu, áhuga og einlægni. Frágangur er skýr og góður.
  • Fanney Sif sendi inn ritgerð, sem ber titilinn Reykhólar allan ársins hring. Setur hún fram mjög áhugaverðar og sannfærandi tillögur um ferðamennsku á og kringum Reykhóla allan ársins hring. Hugmyndir Fanneyjar byggja á þeirri náttúruparadís, sem Reykhólar eru, og settar eru fram fjölmargar hugmyndir, flokkaðar eftir árstíðum. Sem dæmi um hugmyndir Fanneyjar má nefna selaskoðun, réttir, merktar gönguleiðir með áningarstöðum, fuglaskoðun, hjólaferðir og sjósund og svo mætti lengi telja. Um er að ræða fjölbreyttar og vel raunhæfar tillögur, sem allar eru sérlega vel rökstuddar. Framsetning er mjög góð og hugmyndirnar settar fram á skipulegan og skýran hátt. Þá vill dómnefnd sérstaklega hrósa Fanney Sif fyrir einstaklega fallegt ljóð í enda ritgerðarinnar. Full ástæða er til að óska þess, að Fanney Sif láti ekki staðar numið við ljóðagerð sína.

 

Þriðju verðlaun hlaut Elín Huld Melsteð Jóhannesdóttir í Auðarskóla í Dölum.

 

Viðurkenningu hlaut Starkaður Pétursson í Lækjarskóla í Hafnarfirði.

 

Við verðlaunaathöfnina þakkaði fulltrúi dómnefndar, Ólafur Hersisson arkitekt, öllum þeim, sem tóku þátt í verkefninu. „Allar þær fjölmörgu hugmyndir, sem settar voru fram, lýsa hugmyndaríki, frumkvæði og áhuga á viðfangsefninu, svo að dómnefnd var talsverður vandi á höndum“, segir í greinargerð. Með Ólafi í dómnefnd voru Björn H. Halldórsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri, og Þórólfur Þórlindsson prófessor.

 

Ástæða þess að álitsgerðir dómnefndar og aðrar upplýsingar um athöfnina þegar verðlaunin voru afhent eru ekki birtar hér á vef Reykhólahrepps fyrr en núna fimm dögum seinna er sú, að boðuð hafði verið greinargerð frá stjórn Landsbyggðarvina. Hún lá ekki fyrir fyrr en núna í dag, en ákveðið var að bíða hennar - í ljósi þess að hér á vefnum var áður búið að greina frá því að þær Elínborg og Fanney Sif hefðu lent í verðlaunasætum.

 

Greinargerðina og upplýsingarnar í heild má lesa hér eða undir Sjónarmið / Aðsent efni í valmyndinni vinstra megin. Þar er auk annars sagt frá skemmtilegum hugmyndum Elínar Huldar í Dalabyggð og Starkaðar í Hafnarfirði.

 

Meðfylgjandi myndir tók Torfi Pálsson, faðir Fanneyjar Sifjar, við afhendingu verðlaunanna (smellið að venju á myndirnar að til að stækka þær).

 

Á mynd nr. 2 eru, talið frá vinstri: Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, meistaranemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, fv. alheimsfegurðardrottning og verndari aðalverkefnis Landsbyggðarvina, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Fanney Sif Torfadóttir, Elín Huld Melsteð Jóhannesdóttir, Starkaður Pétursson, Elínborg Egilsdóttir og Fríða Vala Ásbjörnsdóttir, kennari, stofnandi, drifkraftur og formaður Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni.

 

Ath.: Umsjónarmaður þessa vefjar var svolítið hikandi þegar hann samdi fyrirsögn þessarar fréttar. Orðalagið „stelpurnar okkar“ í fyrirsögninni er notað í sama anda og þegar iðulega er talað um strákana okkar og stelpurnar okkar þegar rætt er um íslenskt íþróttafólk - einkum þegar það stendur sig vel. Hinu má alls ekki gleyma, að auðvitað eru allir krakkarnir í Reykhólaskóla stelpurnar og strákarnir okkar! Öllum er okkur manneskjunum eitthvað sérlega vel gefið - bara að uppgötva það, tekur stundum sinn tíma - og öll vinnum við afrek, smá og stór, hvert á sínu sviði, þó að sjaldnast komi þau í fréttum. Það er einfaldlega gamla spurningin um að rækta garðinn sinn - hvaða jurtir sem er svo að finna í hverjum garði. Þær eru af ýmsum tegundum og engir tveir garðar eru eins - enda er sérhver manneskja einstök.

 

Hér fyrir neðan er hnýtt fréttatilkynningu sem barst um leið og fyrrnefnd greinargerð.

 

_______________________________________________

 

 

Fréttatilkynning um nýja stjórn í félaginu

Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni

og upplýsingar um viðfangsefni félagsins

 

Á aðalfundi Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni, sem haldinn var 31. janúar 2012, var kjörin ný stjórn fyrir næsta starfsár. Fríða Vala Ásbjörnsdóttir kennari er formaður sem áður. Með henni starfa nú Björn H. Halldórsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri, Birna Dröfn Birgisdóttir, Ph.D.-nemi við Háskóla Íslands, Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður og Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, meistaranemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, fv. alheimsfegurðardrottning og verndari aðalverkefnis Landsbyggðarvina. Verkefnið ber nafnið Sköpunargleði, með áherslu á heimabyggð grunnskólanema frá 12 til 16 ára, nýsköpun, heilbrigði og forvarnir, og nær um land allt. Um er að ræða langtímaverkefni, sem er núna á sínu sjöunda starfsári í röð á vegum Landsbyggðarvina.

 

Í verkefninu gefst unga fólkinu tækifæri til að virkja hug og hönd, koma fram með hugmyndir sínar og fylgja þeim eftir á eigin forsendum. Lögð er áhersla á að tengja saman ólíka aðila, stuðla að sýnileika heimabyggðarinnar, greina það, sem gott er, halda því á lofti og vera stoltur af! Undirliggjandi markmið verkefnisins er m.a. að stuðla að því, að unga fólkið ljúki námi og síðast en ekki síst, að unga fólkið leiti aftur til heimabyggðarinnar eftir að skólagöngu lýkur.

 

Teljum við hér vera um að ræða nýja aðferð til að vekja áhuga unga fólksins á heimabyggð sinni, efla dómgreind og frumkvæði nemenda og síðast en ekki síst stuðla að minnkandi brottfalli úr skóla.

 

Í ráði er á komandi nýju starfsári skóla, skólaárið 2012-13, að fleiri í stjórn taki þátt í að kynna verkefnið í skólum landsins svo að fleiri skólar geti tekið þar þátt og verkefnið verði meiri sameign okkar allra.

 

- Stjórn Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni.

 

Athugasemdir

María Játvarðardóttir, sunnudagur 05 febrar kl: 21:24

Innilega til hamingju stelpur. Ég er eiginlega orðlaus eftir að lesa um þessa viðurkenningu

Guðbjörg Björnsdóttir, mnudagur 06 febrar kl: 00:23

Til hamingju stelpur, þið eru duglegar:)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31