Tenglar

5. febrúar 2012 |

Reykhólastaður eins og eftir loftárás

Frétt Sveins á Miðhúsum á baksíðu Morgunblaðsins 7. febrúar 1968.
Frétt Sveins á Miðhúsum á baksíðu Morgunblaðsins 7. febrúar 1968.
1 af 2

Ýmsum þótti nóg um stórviðrið sem dundi yfir Reykhólasveit fyrir skömmu og landsþekkt varð vegna nærri sautján tíma útivistar Harðar Grímssonar á Tindum. Það veður var þó hjóm eitt í samanburði við illviðrið sem gekk yfir Reykhóla og nágrenni fyrir réttum 44 árum og varð tilefni fréttar á baksíðu Morgunblaðsins með ofangreindri fyrirsögn. „Mestar munu skemmdirnar hafa orðið að Reykhólum, en staðurinn lítur út eins og eftir loftárás“, segir í frétt Sveins Guðmundssonar á Miðhúsum, fréttaritara blaðsins í Reykhólasveit.

 

„Í kirkjunni að Reykhólum brotnuðu allar rúður, hurðir sprungu út og er kirkjan mikið skemmd. Fauk hluti af þaki barnaskólahússins. Allar rúður í skólanum og mjólkurbúinu brotnuðu. Þá brotnuðu rúður í útibúi kaupfélagsins og urðu þar miklar skemmdir. Þakplötur fuku af íbúðarhúsinu að Reykhólum, Mávavatni og allar rúður brotnuðu. Varð fólkið að flýja af bænum á sunnudagsnótt.“

 

Miklar skemmdir urðu á Höllustöðum og jeppi á Litlu-Grund fauk nokkur hundruð metra. Þakplötur fuku víða af húsum.

 

Frétt Sveins má lesa með því að smella á myndina og stækka hana þannig.

 

Þetta mikla veður í febrúarbyrjun árið 1968 er samt í annála fært vegna annarra og miklu alvarlegri viðburða.

 

Fiskiskipið Heiðrún II frá Bolungarvík fórst í mynni Ísafjarðardjúps með allri áhöfn, sex mönnum. Þar á meðal fórst þar faðir ásamt tveimur ungum sonum sínum. Þrír af skipverjunum sex voru undir tvítugu. Daginn eftir slysið ól ekkja eins af skipverjunum manni sínum dóttur.

 

Togarinn Ross Cleveland frá Hull fórst í Ísafjarðardjúpi. Í fyrstu var talið að með honum hefði farist öll áhöfnin, nítján menn. Síðan kom í ljós að einn hafði bjargast, Harry Eddom stýrimaður. Hann kom gangandi að bænum Kleifum í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi eftir að hafa staðið heila nótt undir vegg sumarbústaðar innst í Seyðisfirði. Harry reyndi að brjótast inn í bústaðinn til að komast í húsaskjól en tókst það ekki. Ástæða þess að hann stóð alla nóttina var sú, að hann vissi að legðist hann fyrir myndi hann ekki vakna aftur.

 

Togarinn Notts County frá Grimsby strandaði á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Einn maður fórst en áhöfnin á varðskipinu Óðni bjargaði átján.

 

Á mynd nr. 2 má sjá forsíður breskra blaða eftir að þessi slys urðu.

 

Viku áður en þau slys urðu sem hér var greint frá fórst togarinn Kingston Peridot frá Hull úti fyrir Öxarfirði með allri áhöfn, 20 mönnum.

 

Athugasemdir

Halldóra Katrín Kjartansdóttir, mnudagur 06 febrar kl: 00:42

Takk fyrir þessa grein ég er litla stelpan sem fæddist eftir þetta vonskuveður

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31