Tenglar

17. júní 2012 |

Ratleikir, gæsarungar, bátar, þýskir ferðamenn

Harpa Eiríksdóttir á upplýsingamiðstöð ferðafólks á Reykhólum.
Harpa Eiríksdóttir á upplýsingamiðstöð ferðafólks á Reykhólum.
1 af 10

Erlendir ferðamenn hafa verið fleiri en innlendir á Reykhólum það sem af er sumri, að sögn Hörpu Eiríksdóttur á upplýsingamiðstöðinni. Þjóðernin eru mörg en líkt og endranær er mest um Þjóðverja. Þeir eru jafnan mjög áhugasamir um íslenska náttúru og fuglalíf, sem er einstaklega ríkulegt í Reykhólahreppi. „Flestir eru að leita sér að gönguleiðum og við höfum fengið nokkra gestanna til baka til að segja okkur hvað þetta hafi verið mikil upplifun að fara á þá staði sem við höfum mælt með, það er besta hrósið,“ segir Harpa.

 

„Teisti og Teista bræða hjörtu þeirra ferðamanna sem hitta þau, það eru gæsarungarnir mínir sem kíkja reglulega við hér á upplýsingamiðstöðinni.“

 

Í undirbúningi er ratleikur um Reykhólaþorp í sumar. Hann verður léttur og auðgenginn til að hvetja fjölskyldur til að vera úti á rölti. Teisti og Teista koma reglulega á upplýsingaskrifstofuna þegar veður er gott. Hestarnir koma í heimsókn öðru hverju, svo sem á útivistardögunum Gengið um sveit 21.-24. júní og á héraðshátíðinni Reykhóladögum 26.-29. júlí og síðan er búið að bóka þá á ættarmót á Reykhólum.

 

„Já, það er alltaf eitthvað að gera og eitthvað við að vera“, segir Harpa. Hún minnir á, að í gangi eru sex mismunandi ratleikir um Báta- og hlunnindasýninguna sem kosta aðeins 250 krónur á barn og allir fá verðlaun í lokin.

 

Af upplýsingaskrifstofunni er gengið inn á Báta- og hlunnindasýninguna, sem er með algerlega nýju sniði eftir breytingar í fyrravetur. Núna er opið á milli húshlutanna þar sem áður var heill steinveggur.

 

Auðvelt er að finna skrifstofuna og sýninguna - í stóra húsinu vinstra megin þegar ekið er niður að þorpinu á Reykhólum, rétt áður en komið er að N1-versluninni Hólakaupum.

 

Minnt skal á, að frá Reykjavík að Reykhólum við Breiðafjörð eru aðeins um 230 km, alla leið á bundnu slitlagi.

 

Á fyrstu mynd er Harpa á upplýsingaskrifstofunni á Reykhólum þar sem hún tekur á móti ferðafólki og á mynd nr. 2 eru gæsarungarnir Teisti og Teista. Næstu sjö myndir eru teknar inni á Báta- og hlunnindasýningunni en mynd nr. 10 er skjáskot úr ferðablaði Vestfjarða 2008, sbr. klausuna hér fyrir neðan.

 

Hér í ferðablaði Vestfjarða 2008 (pdf) má á bls. 61-64 lesa frásögn þýskra ferðalanga (bæði á þýsku og íslensku) af ógleymanlegri ferð um Vestfjarðakjálkann sumarið áður. Þar á meðal segir frá notalegum viðdvölum á Reykhólum í báðum leiðum og ferð með Eyjasiglingu út í Skáleyjar og Flatey.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2022 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31