Tenglar

23. febrúar 2012 |

Organisti með alvarlega bíla- og véladellu

Viðar Guðmundsson - bóndi, kennari, kórstjóri og organisti.
Viðar Guðmundsson - bóndi, kennari, kórstjóri og organisti.

Viðar Guðmundsson, organisti í Reykhólaprestakalli og á Ströndum, heldur afmælistónleika í Reykholti í Borgarfirði í kvöld og síðan í Hólmavíkurkirkju á laugardag. Ásamt honum koma fram fjórir kórar og fjöldi einsöngvara. Tilefnið er þrítugsafmæli Viðars sem var núna á mánudaginn, 20. febrúar. Hann er ásamt stórfjölskyldu búsettur í Miðhúsum í Kollafirði á Ströndum og starfar sem bóndi, kennari, kórstjóri og organisti, rétt eins og hann gerði áður en hann kom úr Borgarfirðinum og settist að í Strandasýslu.

 

Viðar er frá Kaðalsstöðum í Stafholtstungum í Borgarfirði, ólst þar upp og byrjaði þar sinn búskap. „Þar voru foreldrar mínir með búskap og áður forfeður mínir allt aftur til 1870, ef ég man rétt“, segir hann. „Hér í Miðhúsum erum við með um 500 kindur og svo eru foreldrar mínir með hrossarækt.“

 

Hann segir að það hafi verið tilviljun að fjölskyldan fluttist einmitt á Strandir. „Við höfðum tekið ákvörðun um að flytja, vorum að leita að jörð og fundum þá þennan fallega stað. Við þekktum ekki nokkurn mann á Ströndum og í raun þekkti ég engan að neinu leyti í Reykhólasveit heldur nema stórvin minn Jónas Samúelsson bónda á Reykhólum. Hann hvatti mig til að koma hingað norður.“

 

Eiginkona Viðars er Barbara Ósk Guðbjartsdóttir. Þau eiga saman fjögur börn og eina fósturdóttur.

 

Viðar er orgelleikari og píanóleikari að mennt. Námið stundaði hann við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Tónlistarskóla Akraness og Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hann er organisti í Hólmavíkurprestakalli og Reykhólaprestakalli og stjórnandi Karlakórsins Söngbræðra í Borgarfirði og Reykholtskórsins.

 

Aðspurður um helstu áhugamálin segir Viðar að það séu tónlist, landbúnaður, umhverfið og umhverfismál og menningarmál. Auk þess er hann með bíla- og véladellu. „Alvarlegt tilfelli. Og svo hef ég áhuga á fólki almennt og þeirri hringiðu allri“, segir hann.

 

„Tilurð þess að ég gerðist organisti á Reykhólum var að séra Bragi heitinn hafði samband við mig og bað mig að gerast organisti hjá sér síðasta hálfa árið sem hann gegndi embætti. Þá bjó ég enn í Borgarfirðinum og var organisti í Stafholti hjá séra Brynjólfi Gíslasyni en hann og Bragi voru góðir vinir. Ég sló til. Eftir að Bragi hætti leitaði séra Sjöfn til mín þegar hún kom og ég gerðist organisti hjá henni. Svo hef ég verið organisti hér að mestu leyti eftir að hinn stórgóði prestur séra Elína kom hér til starfa“, segir Viðar.

 

Tónleikarnir í Reykholtskirkju í Borgarfirði hefjast kl. 20.30 í kvöld. Tónleikarnir í Hólmavíkurkirkju á laugardag hefjast kl. 16. Allur ágóði rennur til góðgerðamála. Miðinn kostar kr. 2.000 og tekið er fram í auglýsingu að ekki verði posi. Þar kemur líka fram (með broskalli á eftir) að beðist sé undan blómum og krönsum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31