Tenglar

14. desember 2012 |

Ómetanlegt fróðleiksrit um Gufudalshrepp

Byggðarsagan drjúga Þar minnast fjöll og firðir - Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum er nýkomin út hjá Vestfirska forlaginu. Höfundar eru Ástvaldur Guðmundsson frá Kleifarstöðum (komnir í eyði fyrir meira en hálfri öld) og Lýður Björnsson sagnfræðingur og rithöfundur frá Fremri-Gufudal. Í riti þessu er farin bæjaröðin (boðleiðin) í Gufudalshreppi og safnað fróðleik af nánast öllu tagi. Ljósmyndir bæði gamlar og nýjar eru talsvert á þriðja hundrað.

 

Ástvaldur Guðmundsson frá Kleifarstöðum andaðist í byrjun þessa árs. Líkt og Lýður Björnsson sveitungi hans lauk hann á sínum tíma stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Eftir það nam hann tæknifræði og vann allan sinn starfsaldur í Þýskalandi.

 

Í ritinu er greint meira og minna frá ábúendum og öðru heimilisfólki á bæjum, einkum síðustu öldina eða svo, þótt við sögu komi fólk allt frá landnámsöld. Fjallað er um atvinnuhætti og landshætti, ótalmörg örnefni koma við sögu og skýringar á uppruna þeirra, ofið er inn þjóðsögum og munnmælum sem tengjast ákveðnum stöðum og greint er frá slysförum og öðrum minnisverðum atburðum á fyrri tíð.

 

Í mannanafnaskrá eru um 450 nöfn.

 

Ritið Þar minnast fjöll og firðir - Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum fæst í Hólakaupum á Reykhólum og öllum helstu bókaverslunum landsins. Ólafía og Eyvindur í Hólakaupum taka sjálfum sér engin sölulaun af þessari bók fremur en öðrum bókum Vestfirska forlagsins sem þau eru með í búðinni. Sölulaunin láta þau renna óskert til Lionsklúbbsins í Reykhólahreppi, sem nýtir það fé sem honum áskotnast til menningar- og velferðarmála.

 

Myndirnar sem hér fylgja eru sýnishorn af nærri tífalt fleiri myndum í bókinni. Þær eru birtar hér með leyfi útgefandans og þess höfundar sem eftir lifir. Tekið skal fram, að enda þótt hér á meðal séu fáeinar litmyndir er bókin ekki litprentuð.

 

Það er viljandi gert að hafa ekki texta með myndunum sem hér birtast. Lesendur vefjarins, sem hafa ekki séð bókina, geta þannig spreytt sig á því að þekkja fólkið, bæina, staðina og atburðina sem þar koma fram.

 

Þó skal fáeinna getið sérstaklega - eins konar vísbendingar!

 

Hér fylgja myndir af þrennum hjónum. Í einu tilvikinu eru það amma og afi núverandi borgarstjóra í Reykjavík. Í öðru tilviki náði eiginkonan 106 ára aldri og var þá elst Íslendinga (þau hjónin eiga fjölda afkomenda hér við innanverðan Breiðafjörð og ótalmarga fleiri annars staðar). Eiginmaðurinn í þriðja tilvikinu var náfrændi þess sem þetta ritar.

 

Á einni hinna myndanna er afabróðir þess sem þetta ritar hér á vef Reykhólahrepps, en Gufudalshreppurinn gamli er hluti hans. Á enn einni má sjá mann sem núna býr á Reykhólum og hefur mjög ungur byrjað að keyra vörubíl, ef svo má segja, af myndinni að dæma.

 

Smellið á myndirnar til að stækka þær!

 

Varðandi örnefni kemur kannski einhverjum sitthvað á óvart. Þannig eru tveir fossar í Gufudalshreppnum gamla sem heita Gullfoss. Þriðji Gullfossinn í héraðinu er innst í Gilsfirði, en hann er að vísu handan sýslumarka. Fjórða Gullfossinn í grenndinni mætti nefna í framhjáhlaupinu margfræga, en hann er í Fagradal innst á Skarðsströnd, handan fjarðar beint á móti Reykhólum.

 

Örnefnið Maríutröð er á Skálanesi og leiðir hugann að Maríutröð á Reykhólum.

 

Örnefnið Sorgarhorn er að finna á tveimur stöðum í Gufudalshreppnum gamla og eiga bæði sömu skýringuna.

 

Í ritinu er jafnan talað um Neðri-Gufudal. Þar er reyndar á ferðinni gamalkunnugt og gott álitamál og beinlínis ágreiningsmál, hvort tala skuli um Gufudal og Fremri-Gufudal ellegar Neðri- og Fremri-Gufudal. Þeir sem um þetta deila virðast í báðum tilvikum hafa nokkuð til síns máls og skal ekki farið nánar út í það hér.

 

Hér fyrir neðan eru annars vegar birt inngangsorð Ástvalds heitins Guðmundssonar frá Kleifarstöðum og hins vegar stuttur kafli úr meginmáli.

 

 

Fylgt úr hlaði

 

Árið 2005 bauð Júlíus bróðir minn okkur Jóni, eldri bræðrum sínum, í dagsferð til æskustöðvanna á Kleifarstöðum, sem ég hafði ekki augum litið í nær hálfa öld. Gengum við þar um lengi dags og rifjuðum upp löngu liðna tíð. Undarlega notalegar tilfinningar fylgdu þeirri göngu.

 

Eftir að heim var komið fór að mótast hugmynd um að endurtaka ferðina með meiri tíma í veganesti, ganga um sveitina að gamalla flakkara sið, taka myndir og jafnvel að láta þær koma fyrir almennings sjónir síðar. En einhver texti yrði þá að fylgja, og sjálfur hef ég aldrei skriffinnur verið. Af tilviljun rakst ég á grein eftir gamlan sveitunga, Lýð Björnsson sagnfræðing. Málfar hans og stíll hreif mig. Hringdi ég í Lýð, lagði hugmynd mína fyrir hann og spurði hvort hann vildi skrifa eitthvað um okkar gömlu átthaga. Hef ég sjaldan heyrt ákveðnara JÁ.

 

Þetta varð upphaf að meira en tveggja ára ánægjulegu samstarfi okkar við gerð þessarar bókar. Á það hefur aldrei skugga borið, og kann ég Lýði bestu þakkir fyrir.

 

Fáir eru eftir, sem þekkja vel til sögulegra örnefna í hinni gömlu Gufudalssveit. Sérstakar þakkir flyt ég Gísla Ó. Gíslasyni frá Djúpadal, Hallgrími Jónssyni á Skálanesi og Reyni Bergsveinssyni frá Gufudal, sem bentu á fjölda staða, sem ég þekkti ekki sjálfur. Án stuðnings og áhuga þessara manna hefði margt horfið í gleymsku.

 

Þökk sé enn fremur Leifi Samúelssyni í Djúpadal og Einari Hafliðasyni í Fremri-Gufudal fyrir ómetanlega aðstoð við að komast á reginfjallaslóðir. Einnig Reyni Bergsveinssyni fyrir skemmtilega fylgd um Kollafjarðarheiði, á gönguferðum um Skálanesfjall og hluta af gömlu leiðinni um Þorskafjarðarheiði, frá Tjaldhól í Fremri-Fjalldal norður fyrir Gedduvatn. Margt var þar skemmtilegt skrafað.

 

Síðast en ekki síst þakka ég bróður mínum, Júlíusi, fyrir að eiga óafvitandi upptök að þessu verki. Einnig fyrir akstur og hótelstjórn fjögurra hjóla hótelsins, sem var gististaður okkar í tvær vikur.

 

Ekki var langt komið verkinu, þegar Lýður lagði til að reynt yrði að veita lesendum innsýn í liðna tíð með gömlum myndum, ef tækist að afla. Með kærkominni aðstoð fjölda fólks tókst það vonum framar.

 

Tímans tönn var mjög tekin að vinna á mörgum þeirra. Hef ég reynt að laga skemmdir og bæta útlit þessara gömlu mynda eftir bestu getu. Tókum við þann kost að hafa flestar þessara gömlu mynda í sérstökum kafla bókarinnar. Kærar þakkir færum við öllum, sem þarna hlupu undir bagga með okkur.

 

Að lokum læt ég þá von í ljós, að lesendur megi hafa nokkra ánægju af bók þessari, aldnir sveitungar minnist uppruna síns og ungum veitist aukin innsýn í líf forfeðra okkar og formæðra.

 

 

Danspörin ultu niður brekkuna

 

Miðhúsaskógur var um skeið samkomustaður hreppsbúa. Samkomustaðurinn var í Neðri-Gufudal fyrstu tugi 20. aldar, en þangað þótti torleiði nokkurt, einkum fyrir þá sem komu á sjó. Árið 1945 var fyrirhugað að halda skemmtun á einum af viðkomustöðum flóabátsins Konráðs, Eyrarodda. Þá bárust þær fréttir í hreppinn að Sveinn Björnsson forseti ætlaði að koma í opinbera heimsókn daginn fyrir skemmtunina. Ekki þótti koma til mála að taka á móti forseta annars staðar en í Djúpadal, þar fæddist Björn Jónsson, faðir forseta.

 

Ungmennafélagið hafði keypt eitt þeirra sölutjalda sem notuð voru á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944. Það var reist á Djúpadalseyrum og forseta haldin veisla, ættingjum forseta í hreppnum var skipað næst honum við borðhaldið. Enginn tími gafst til að flytja tjaldið vestur að Eyri og varð því að ráði að halda skemmtisamkomu í Djúpadal 1945.

 

Næsta ár var hún haldin á Eyrarodda, en árið 1947 varð hvammur innan við Hálsá fyrir valinu og einnig 1948. Þar var samkoman því haldin tvisvar en ekki þrisvar eins og kemur fram í grein textahöfundar sem birtist í Árbók Barðastrandarsýslu 2004.

 

Árið 1949 var ákveðið að flytja samkomuna í hvamm utan við Hálsá þar sem vegurinn beygir upp á Ódrjúgsháls. Ástæðan fyrir þessari breytingu kann að hafa verið sú, að árið 1948 gættu danspör sín ekki nægilega í fjörugum dansi, þutu út úr tjaldinu og ultu niður talsverða brekku. Engin slík brekka er við nýja staðinn. Tilkoma akfærs vegar á svæðinu hefur væntanlega einnig haft sitt að segja. Þar voru skemmtisamkomur haldnar næstu ár, síðast árið 1956 eða 1957. Enn má finna merki um skemmtanahald þetta ef eftir er leitað.

 

Gil Hálsár vakti athygli Þorvaldar Thoroddsens er hann var þarna á ferð 1886. Hann kveður gilið vera allmerkilegt í jarðfræðilegu tilliti, þar séu margir gangar og hafi töluverðar breytingar orðið á bergi. Gilið hefur einnig vakið athygli myndlistarmanna. Þar dvaldi Magnús Á. Árnason lungann úr sumri laust eftir miðja 20. öld og bar mikið á myndum þaðan á sýningu sem Magnús hélt eftir dvölina vestra.

 

Sumarbústaðarsvæðið er víða vaxið þéttu kjarri. Berjaland er þar gott, aðalbláber algeng. Stóraberg er við ytri mörk kjarrsins og hefur lengi minnt textahöfund á eldborg. Þar hafa ernir átt sér óðal eins lengi og elstu menn muna. Ernirnir voru látnir í friði þegar textahöfundur var að alast upp á þessum slóðum en oft bölvaði Sigurjón Jónsson á Brekku þessum víkingum, æðarvarpið á Grónesi var í næsta nágrenni og góð tekjulind.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28