Tenglar

16. maí 2012 |

OV: Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða tafarlaust

„Fækkun íbúa á Vestfjörðum er stærsta ógnin við framtíðarrekstur Orkubús Vestfjarða,“ sagði Kristján Haraldsson orkubússtjóri í ársskýrslu sinni á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var á föstudag. „Árið 1984 bjuggu um 10.400 á veitusvæði Orkubús Vestfjarða en nú eru íbúar þar um 7.000. Með sama áframhaldi verður enginn íbúi eftir á Vestfjörðum að 50 árum liðnum. Stjórnvöld verða tafarlaust að grípa til aðgerða til að hindra frekari eyðingu byggðar og má þar fyrst nefna bættar samgöngur og jöfnun búsetukostnaðar, “ sagði Kristján.

 

Hann sagði rafmagnsverð á Vestfjörðum standast fyllilega samkeppni við það sem best gerist annars staðar á Íslandi. Þrátt fyrir það sé orkukostnaður heimila og fyrirtækja hærri á Vestfjörðum og sé ástæðan sú, að Vestfirðingar hafi ekki aðgang að ódýrari orkugjöfum en rafmagni til húshitunar. Mikilvægt sé, ef tryggja eigi byggð, að þessi búsetumismunun verði jöfnuð.

 

Nokkrar sundurlausar glefsur úr skýrslu Kristjáns orkubússtjóra:

 

Það er umtalsvert kostnaðarsamara að dreifa raforkunni í dreifbýli heldur en þéttbýli og greiða íbúar í dreifbýli töluvert hærra verð fyrir dreifingu raforkunnar þrátt fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Það er réttlætismál og nauðsynleg aðgerð til styrkingar byggðar að þessar niðurgreiðslur verði auknar þannig að raforkuverð verði það sama í þéttbýli og dreifbýli.

 

Orkubúi Vestfjarða er með lægsta auglýsta raforkuverð á samkeppnismarkaði og því er ekki mikið um að viðskiptavinir Orkubúsins yfirgefi fyrirtækið vegna hagstæðari kjara hjá öðrum fyrirtækjum. Á s.l. ári ákvað Orkubúið að byrja að taka við viðskiptavinum af öðrum orkuveitusvæðum og eru bundnar vonir við að ná nokkrum viðskiptum með þeim hætti.

 

Árið 2011 varð hagnaður af venjubundnum rekstri Orkubús Vestfjarða sjöunda árið í röð. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins var undir meðaltali síðustu 10 ára. Flutningskerfi Orkubúsins urðu ekki fyrir neinum meiri háttar rekstraráföllum. 

 

Meðal verkefna OV 2011 var að Reykjanesálma í Reykhólalínu var endurnýjuð og þrífösuð með plægingu jarðstrengs. Allar fjárfestingar voru kostaðar af eigin fé fyrirtækisins eða greiddar af þeim sem þeirra óskuðu.

 

Á þessu ári er gert ráð fyrir að fjárfestingar Orkubúsins verði um 300 milljónir króna.

Á árinu 2011 voru skráðar rekstrartruflanir í raforkukerfinu alls 188, en voru 214 á árinu 2010. Þar af voru 96 vegna fyrirvaralausra truflana og 92 vegna skipulagðs viðhalds og breytinga. Fyrirvaralausar truflanir á 132kV kerfi Landsnets á Vestfjörðum urðu 3 á árinu 2010 og 13 á 66kV kerfinu, þar af 9 á Tálknafjarðarlínu. Bilanir á 132kV og 66kV kerfi Landsnets hafa langvíðtækust áhrif því þær valda víðtæku rafmagnsleysi á Vestfjörðum.

 

Í hitaveitukerfinu voru skráðar  bilanir 8 á árinu 2011 en voru 13 árið áður.

 

Þess má jafnframt geta að flestir raforkusalar innheimta seðilgjöld en það gerir OV ekki. Þá innheimtir Orkuveita Reykjavíkur einnig „Tilkynningar- og greiðslugjald“ og leggst það á hvern reikning sem fyrirtækið gefur út.    

 

Sjá nánar:

Skýrsla orkubússtjóra fyrir 2011 (pdf)

Ársskýrsla Orkubús Vestfjarða 2011 (pdf)

 Glærukynning Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra á aðalfundi 2011 (pdf)

Vefur Orkubús Vestfjarða

Athugasemdir

Ásgeir Överby, fimmtudagur 17 ma kl: 11:03

"Með sama áframhaldi verður enginn íbúi eftir á Vestfjörðum að 50 árum liðnum"

Það er hæpið að reikna dæmið á þennan hátt; Af Hornströndum og Jölulfjörðum fluttust um 90% íbúanna á einum áratug, svipað gæti skeð nú.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2022 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31