Tenglar

9. júlí 2012 |

Kýrnar á Miðjanesi í „fótsnyrtingu“

Sandra Gústafsdóttir segir Kvik sinni að þetta sé allt í besta lagi.
Sandra Gústafsdóttir segir Kvik sinni að þetta sé allt í besta lagi.
1 af 3

„Þær taka þessu nú ekki vel í fyrsta skiptið, þá er þetta eitthvað mjög undarlegt, og svo er það líka hljóðið í glussamótorunum,“ segir Gústaf Jökull Ólafsson bóndi á Miðjanesi í Reykhólasveit. Búnaðurinn sem sjá má á myndunum er líka undarlegur í augum þeirra sem ekki fylgjast þeim mun betur með stöðugri tæknivæðingu í íslenskum landbúnaði. Hér er um að ræða klaufskurðarbás í eigu Búnaðarsamtaka Vesturlands og Vestfjarða, sem Guðmundur Hallgrímsson á Hvanneyri ferðast með um margar sýslur og snyrtir klaufir. Tveir básar af þessu tagi munu nú vera í notkun hérlendis.

 

Bændur segja að kýrnar venjist þessu strax. „Þetta er fjórða árið sem ég læt snyrta á þeim klaufirnar. Þær eldri ganga bara inn í búrið eins og ekkert sé, þær eru ekkert smeykar,“ segir Gústaf Jökull.

 

Glussamótorarnir í básnum eru sex talsins, einn til að hífa, einn fyrir hvern fót og einn til að opna og loka dyrunum á básnum. Þeir eru knúnir af dísilrafstöð sem Guðmundur er með í bílnum.

 

Klaufskurðurinn er mikilvægur fyrir líðan gripanna. Áður en básar þessir komu til sögunnar voru oft áflog við kýrnar þegar klaufir voru snyrtar, bæði að halda þeim sjálfum og að halda fætinum sem unnið var við.

 

Þarna er kýrin aftur á móti rekin inn í búr, settar undir hana breiðar gjarðir og glussamótorinn lyftir henni þannig að hún hangir í lausu lofti. Síðan er hver fótur fyrir sig festur þannig að hann getur ekkert hreyfst meðan unnið er við klaufirnar.

 

Gústaf Jökull er ánægður með heyfenginn þetta árið. Líkt og fleiri bændur hér um slóðir var hann snemma á ferðinni að bera á og þrátt fyrir þurrkatíðina miklu og löngu í vor og sumar var oft náttfall þó að níu-fimm-fólk yrði ekki vart við það. Gústaf er hins vegar mjög árrisull og fer út á Miðjanes til morgunmjalta á meðan flestir eru í fastasvefni. Hann er búsettur í þorpinu á Reykhólum ásamt fjölskyldu sinni en fer á milli til gegninga. Enda ekki langt að fara út á Miðjanes, landnámsjörðina í héraðinu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2022 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31