Tenglar

31. desember 2011 |

Karlsey að kveðja eftir langa þjónustu

Karlsey BA við bryggju í Reykhólahöfn í nafngjafanum Karlsey 31. júlí 2008. Reykhólar og Reykjanesfjall í baksýn.
Karlsey BA við bryggju í Reykhólahöfn í nafngjafanum Karlsey 31. júlí 2008. Reykhólar og Reykjanesfjall í baksýn.
1 af 9

Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum hefur selt flutningaskipið Karlsey BA í brotajárn. Ráðgert er að skipið gamla kveðji sína heimahöfn - Reykhólahöfn í Karlsey - mjög fljótlega eftir áramótin. Kaupandinn er Jón P. Pétursson í Hafnarfirði fyrir hönd endurvinnslustöðvarinnar Van Heygen Recycling í borginni Gent í Belgíu, þar sem skipið mun enda ævi sína í stálbræðsluofnum. Vegferð Karlseyjar lýkur ekki svo mjög fjarri þeim stað þar sem hún hófst, því að skipið var smíðað í bænum Hoogezand í Hollandi. „Nei, ég sakna hennar ekkert“, segir Gylfi Helgason á Reykhólum, sem var skipstjóri á Karlsey í fjórðung aldar og stýrimaður nokkur ár þar á undan.

 

Að sögn Jóns Péturssonar verður reynt að fá sem mest af brotajárni í skipið hérlendis til að taka með í síðustu ferðina. Þeir sem vilja losna við brotajárn geta haft samband við hann í síma 896 1415. Líka er möguleiki á því að notfæra sér lestarrými skipsins fyrir eitthvað annað. Á leiðinni frá Reykhólum kemur skipið við í Hafnarfirði en þaðan verður farið til Belgíu í samfloti við annað skip sem einnig er að fara í sína hinstu ferð. Jón Pétursson hefur haft milligöngu um förgun allmargra skipa síðustu árin og má þar nefna hin þekktu fiskiskip Margréti EA, Súluna EA og Óskar Halldórsson RE.

 

Karlsey var smíðuð árið 1967 og þannig verður hún á 45. aldursári á kveðjustund. Hún mælist 179 brúttórúmlestir og lengdin er um 30 metrar. Sama 250 kW Caterpillar-dísilvélin hefur verið í skipinu alla tíð. „Skipið er vélarlítið og mjög sparneytið sem flutningaskip“, segir Þorgeir Samúelsson, framleiðslustjóri Þörungaverksmiðjunnar.

 

Þorgeir er um þessar mundir að taka saman ágrip af sögu Karlseyjar BA. Hann segir að skipið hafi komið til Íslands árið 1973 og fyrst verið notað til flutninga á sementi frá Akranesi til Reykjavíkur. Snemma árs 1974 tók Vita- og hafnamálastofnun (eins og hún hét þá) skipið á leigu til flutninga á bryggjustáli og öðru bryggjuefni út um land, meðal annars að Reykhólum. Eftir að Þörungavinnslan hf. (eins og verksmiðjan hét fyrsta áratuginn) var stofnuð árið 1975 festi hún kaup á skipinu. Meðan Vita- og hafnamálastofnun var með skipið var það mannað áhöfninni af dýpkunarskipinu Gretti sem þá lá í verkefnaleysi.

 

Áhöfnin fylgdi Karlseynni síðan þegar hún kom á Reykhóla og var þannig skipuð, að sögn Þorgeirs Samúelssonar: Guðmundur Jónsson skipstjóri, Sigurvin Hannibalsson vélstjóri, Guðmundur Þórðarson stýrimaður og Gunnar Gíslason kokkur og vélstjóri. Síðan hafa miklu fleiri verið í áhöfninni í lengri eða skemmri tíma en hér verður upp talið. Þorgeir nefnir þó sérstaklega Gylfa Helgason skipstjóra, Björn Samúelsson vélstjóra og Örn Snævar Sveinsson stýrimann og síðast skipstjóra, en hann er núna skipstjóri á Gretti BA, skipinu sem leysti Karlseyna af hólmi í vor. Einnig nefnir hann Halldór Steinþórsson sem var skipstjóri á Karlsey á sínum tíma.

 

Gylfi Helgason á Reykhólum var langlengst allra manna á Karlseynni. Hann byrjaði árið 1980 sem stýrimaður og var síðan skipstjóri frá 1984 til 2009, eða í aldarfjórðung, þangað til hann settist í helgan stein. Eftir það leysti hann þó stöku sinnum af sem skipstjóri á Karlseynni og hefur reyndar leyst af á Gretti líka eftir að hann kom.

 

Þegar Gylfi er spurður hvort hann sakni Karlseyjar, núna þegar hún er í þann veginn að hverfa í stálbræðsluna, svarar hann: „Nei, ég sakna hennar ekkert. Þetta er bara járn og maður var búinn að eiga þann draum lengi að þetta skip yrði endurnýjað. En Karlsey var alla tíð farsælt skip.“

 

Fyrst og fremst var Karlsey notuð til þess annars vegar að sækja klóþang sem sláttuprammar verksmiðjunnar afla yfir sumartímann víða á grunnsævi við innanverðan Breiðafjörð og í innfjörðum hans. Hins vegar var hrossaþari tekinn með þar til gerðum plógi á skipinu til mjölvinnslu í verksmiðjunni yfir vetrarmánuðina.

 

Óvíða í veröldinni mun finnanleg öllu viðsjárverðari siglingaleið en á grynningunum innan um óteljandi eyjar og sker á þessum slóðum. Ósjaldan kom fyrir að skipið tók niðri og kastaði jafnvel mæðinni um stund á skerjum. Meðan á áratugalangri þjónustu Karlseyjar við Þörungaverksmiðjuna stóð var skipt um mestallan botn hennar ásamt síðum og öðru sem farið var að þynnast eftir allan þennan tíma, að sögn Þorgeirs Samúelssonar.

 

„Gróflega áætlað hefur Karlsey borið að landi á Reykhólum samtals á bilinu 750 til 850 þúsund tonn af þangi og þara“, segir Þorgeir, og bætir við að þetta litla og sparneytna skip hafi verið verksmiðjunni ákaflega mikils virði. Hann segir að einnig hafi skipið á sínum tíma farið tvær ferðir til bæjarins Ayr í Skotlandi með fullunnið mjöl, 220 tonn í hvorri ferð.

 

Þáttaskil urðu þegar Grettir BA kom í fyrsta sinn í heimahöfn á Reykhólum 15. maí á liðnu vori til að taka við hlutverki Karlseyjar. Frá þeim tíma hefur hún döpur á svip beðið örlaga sinna sem núna eru ráðin.

 

Meðfylgjandi myndir af Karlsey BA við ólík tækifæri tók hþm á undanförnum árum.

 

Sjá einnig:

15.05.2011  Grettir BA 39 kominn heim og leysir Karlsey af hólmi

 

Athugasemdir

Þorgeir Samúelsson, laugardagur 31 desember kl: 11:17

Ég vil af gefnu tilefni tak það fram að..þrátt fyrir að áratuga-reynslumenn sakni ekki skips eins og Karlseyjar....þá áttu þeir sömu menn framfærslu sína og búsetu undi því að hún var í rekstri...þetta skip hefur skapað það sem við stöndum á núna....og ætti meðal-ljóninu að vera það ljóst....það eru ófáir íbúar hér á Reykhólum sem ekki hafa komið að vinnu eða dvöl um borð....notið vinnu og búsetu...tímabundið....þrátt fyrir að mannvitið hafi kanski ekki borðið neinn ofurliði í meðferða og umhirðu um þetta vinnutæki sem hefur fylgt þessum rekstri....það er alltaf matsatriði...hvenær er komið nóg af rekstri óhagkvæmra hluta....hvað kemur þá í staðin og hvernig því verður þá stjórnað...hvernig það er tilhaft...og hvernig það passar inn í rekstur. Þrátt fyrir allt getum við þakkað veru okkar hér og vinnu...þessu gamla skipi...sem hefur nú verið lagt til hliðar....Stundum er holt að lýta til baka og sjá hvað var...skynja betur hvað mætti betur fara....gagnrýna sjálfan sig....legga fram úthugsaðar tilögur...bera þær undir umræðu allrar er koma að máli.

Bergsveinn G Reynisson, laugardagur 31 desember kl: 18:39

Karlsey er eins og Hiluxinn minn það er búið að taka það fínasta úr þeim, en hefur þjónað sínu hlutverki með prýði og alltaf skilað farmi og áhöfn heimi, en á einhverjum tímapunkti er hlutverkinu lokið.

Ég man nokkur skipti sem voru verulega tvísýn í bæði myrkri og óveðrum , en alltaf blessaðiðst þetta einhver veginn, þrátt fyrir að Karlsey væri farin að sigla um Breiðafjörð fyrir tíma hátækni GPS tækja.

Það eru sennilega ekki mörg skip í Íslenska flotanum , sem hafa skilað jafn miklu sjávarfangi á land og öruglega ekki skip af hennar stærð

Vonum bara að Grettir reynist jafn vel.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« gst 2022 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31